Glutimus DJ Margeir, öðru nafni Jack Schidt, verður í þrusugír á Dátanum.
Glutimus DJ Margeir, öðru nafni Jack Schidt, verður í þrusugír á Dátanum. — Morgunblaðið/Eggert
NORÐLENSKIR dansfíklar eiga, svei mér þá, góðan vetur í vændum. Viðburðafyrirtækið Jón Jónsson ehf.

NORÐLENSKIR dansfíklar eiga, svei mér þá, góðan vetur í vændum. Viðburðafyrirtækið Jón Jónsson ehf. hefur ákveðið að færa út danskvíarnar og flytja fagnaðarerindi elektrótónlistarinnar norður yfir heiðar með að minnsta kosti þremur klúbbakvöldum í höfuðstað Norðurlands. Yfirskrift kvöldanna er Domus Technika og fer fyrsta klúbbakvöldið fram í kvöld á Dátanum. Þá mun nýjasta tæknitromp Reykjavíkur, tvíeykið Glutemus Maximus, framreiða taktfasta tóna fram á rauða nótt en sveitin er skipuð þeim DJ Margeiri og President Bongo úr Gus Gus. Nafn tvíeykisins mun vera fengið úr latínu og er notað yfir þann vöðva sem þeir félagar telja mikilvægastan við framkvæmd dansspora, þ.e.a.s. rassvöðvann. Glutemus Maximus hljóðblandaði nýverið Sigur Rósar-lagið Gobbledigook og geta áhugasamir nálgast lagið á www.myspace.com/jackschidt.

Viðburðaríkur Jón Jónsson

Jón Jónsson ehf. hefur staðið fyrir nokkrum af flottustu klúbbakvöldum ársins sem og innflutningi á vonarstjörnum danstónlistarheimsins. Helst ber að nefna franska Evróvisjónfarann Sebastien Tellier, hinn danska Trentemöller, Busy P frá Ed Banger Records og ofurskífuskankarann Carl Cox.

hoskuldur@mbl.is