Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur kolbrun@mbl.is Þeir sem lesa sér til ánægju komast ekki hjá því að þekkja einkennin sem fylgja því að lesa leiðinlega bók en þau eru meðal annars einbeitingarskortur, syfja og vottur af depurð.

Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

kolbrun@mbl.is

Þeir sem lesa sér til ánægju komast ekki hjá því að þekkja einkennin sem fylgja því að lesa leiðinlega bók en þau eru meðal annars einbeitingarskortur, syfja og vottur af depurð. Og svo vitaskuld tilfinningin um að maður sé að eyða tíma sínum til einskis. Þessi einkenni þekkja allir almennir lesendur en hátimbraðir bókmenntafræðingar og fleiri fræðingar virðast eiga mjög erfitt með að viðurkenna þessi einkenni. Getur ekki verið að þetta fólk sé að taka sig of hátíðlega? Er það ekki að misskilja bókmenntirnar þegar það dæmir lestraránægjuna úr leik? Með þessu er þó engan veginn verið að halda því fram að bókmenntirnar eigi að vera eintómt hopp og hí, þótt einhverjir muni eflaust kjósa að túlka orð mín á þann veg.

Það er vinsæll leikur víða um heim hjá stórblöðum að safna saman lestrarhestum og láta þá nefna bækur sem þeir telja ofmetnar og leiðinlegar. Þetta er til gamans gert og skapar afar forvitnilegt lesefni. Flestir eiga sér einfaldlega bækur sem þeir vita að þeim eigi að þykja góðar en hafa þó enga unun af að lesa þær.

Í þrjátíu ár hefur mig langað til að koma því á prent hversu tilgerðarleg og leiðinleg bók mér finnst Brekkukotsannáll vera. Og sömuleiðis Vefarinn mikli frá Kasmír , sem ég verð þó að viðurkenna að er bráðfyndin á köflum, en það er reyndar á stöðum sem höfundur ætlast til að lesandinn taki alvarlega. Vefarinn er heimskulegasta skáldverk sem ég hef lesið eftir íslenskan afburðarithöfund. Skoðun minni á Brekkukotsannál og Vefaranum kom ég á framfæri þegar Þröstur Helgason leitaði til fólks og bað það að nefna leiðinleg og ofmetin verk og birti síðan niðurstöður í Lesbók Morgunblaðsins.

Vikuna eftir birtist grein eftir Gunnar Stefánsson þar sem hann segir mér, það sem ég reyndar vissi, að Sigús Daðason hafi haft gríðarmiklar mætur á Brekkukotsannál . Og hvað með það? spyr ég nú bara. Manni finnst bók ekki betri þótt einhverjum öðrum þyki hún góð. Nú vill svo til að ég var kunnug Sigfúsi og hafði stundum hátt um skoðun mína á Brekkukotsannál við hann. Sigfús komst ekki í tilfinningalegt uppnám vegna þessa, en reyndar var hann með stilltari mönnum. Sjálfur gat hann haft óvægnar skoðanir á bókum sem viðurkenndar eru sem klassík.

Ákveðinn hópur virðist líta svo á að verið sé að saurga helgidóm bókmenntanna með því að segja að ákveðin verk séu ofmetin eða leiðinleg. Allavega finnast dæmi um einstaklinga sem komust í mikið uppnám vegna umfjöllunar Lesbókar um leiðinlegar bækur og töldu þar svívirðilega vegið að ýmsum meisturum bókmenntanna. Þetta er pempíulegt viðhorf. Við þurfum ekki að tala um bókmenntir á sama hátt og forsetar lýðveldisins gera á tyllidögum. Flestir eru til dæmis búnir að fá nóg af helgislepjunni sem umlukti nafn Halldórs Laxness en á tímabili var eins og það væri þegnleg skylda að nota efsta stig lofsamlegra lýsingarorða í hvert sinn sem eitthvert verka hans bar á góma. Ýmislegt bendir til að þessi tími sé liðinn þótt einstaka sálir telji það heilaga skyldu sína að gelta á þá sem finna eitthvað að hjá nóbelsskáldinu.

Í grein Gunnars Stefánssonar skammar hann tvo rithöfunda sem tóku þátt í leiknum um leiðinlega klassík fyrir að koma ekki fram undir nafni. Annar höfundanna sagði að Sjálfstætt fólk væri of stór skammtur af snilld. Ég skil þau orð reyndar sem hrós. Hinn sagði að Bréf til Láru væri hvorki fugl né fiskur þegar búið væri að flysja af henni stíllegu tilþrifin. Sennilega hárrétt mat.

Vissulega hefði verið skemmtilegra að rithöfundarnir hefðu komið fram undir nafni. En þar sem þeir eru hluti af hinum litla og hátimbraða íslenska bókmenntaheimi þar sem skylda virðist að taka sig hátíðlega og hafa „réttar“ skoðanir á bókmenntum þá skilur maður af hverju þeir nenntu ekki að standa í veseni og kusu því að leyna nöfnum sínum.

Leit Lesbókar að leiðinlegri klassík var leikur. En leikurinn væri ekki næstum því eins skemmtilegur ef einhverjir myndu ekki reiðast og hundskammast út í þá sem þora að nefna uppáhalds leiðinlegu bækurnar sínar, hvort sem þeir koma fram undir nafni eða ekki. Þess vegna er fordæmingin ekki bara bráðnauðsynlegur hluti af leiknum heldur fullkomnar hann.