Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur ylfa@mbl.is OF veik staða krónunnar var áhyggjuefni á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva í gær en í fyrra var málunum þveröfugt háttað. Einar K.

Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur

ylfa@mbl.is

OF veik staða krónunnar var áhyggjuefni á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva í gær en í fyrra var málunum þveröfugt háttað. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í ávarpi sínu að þó oft áður hafi verið kallað eftir veikingu krónunnar úr sölum sjávarútvegsins sé núverandi staða hennar of veik og þurfi gengið að ná jafnvægi.

Útflutningsverðmæti aukist

„Hagsmunir íslensks sjávarútvegs liggja þess vegna í því að gengi krónunnar verði sterkara en nú og ró skapist í fjármálaumhverfinu sem hefur svo mikil áhrif á stöðu mála í efnahagslífinu hér á landi. Svona veikt gengi er því fremur ógn en tækifæri.“

Einar sagði frá því að útflutningsverðmæti þorsks fyrstu ellefu mánuði síðasta fiskveiðiárs hefðu numið um 51 milljarði króna en rúmum 47,5 milljörðum króna á sama tíma árið áður, þrátt fyrir samdrátt í þorskafla. Ástæðurnar væru hækkað verð á þorski á erlendum mörkuðum og gengislækkunin.

Hins vegar hefðu útgjöld í sjávarútvegi aukist samhliða auknum verðmætum útflutts þorsks. Þar vegi hækkandi olíuverð hvað þyngst. „Auknar skuldir greinarinnar sem fylgja lækkun gengisins eru sömuleiðis alvarlegar og bíta sársaukafullt í efnahagsreikningi fyrirtækjanna. Þegar við bætast síðan svimandi háir vextir, er ástæða til að hafa áhyggjur.“

Gripið til gengisvarna

Einar vakti athygli á því að mörg sjávarútvegsfyrirtæki hefðu gripið til gengisvarna sem gerðu það að verkum að lækkun á gengi krónunnar skilar sér ekki að fullu í þeirra vasa. „Því má ætla að verðmætisþróun einstakra fyrirtækja, vegna útflutnings á þorski, geti verið mismunandi og sé ekki endilega í samræmi við tölur um heildaraflaverðmæti.“

Hagsmunir sjávarútvegs felast í stöðugu gengi

„Gengi krónunnar hefur gefið mikið eftir frá því í mars á þessu ári og hefur það skilað sér í hærra skilaverði til útflutningsgreina. Á móti kemur að erlendar skuldir og ýmis aðföng til sjávarútvegs hafa hækkað að sama skapi [...]. Hagsmunir sjávarútvegsins felast ekki í miklu flökti á gengi íslensku krónunnar umfram aðra gjaldmiðla, heldur í stöðugra gengi hennar – jafnvægisgengi – þar sem horft verði til mikilvægis útflutnings- og samkeppnisgreina.“ Þetta segir í ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn var í gær.

Þar segir einnig að Seðlabanki Íslands eigi að lækka stýrivexti verulega sem allra fyrst en barátta bankans við þenslu sl. ára með háum stýrivöxtum hafi litlu skilað en bitnað illa á útflutningsgreinum þar sem vextirnir héldu lengi uppi of háu gengi krónunnar.

Þá er skorað á bæði Alþingi að ljúka umræðum og samþykkja frumvarp um nýja matvælalöggjöf og sjávarútvegsráðherra að endurmeta úthlutun á þorski og síld.