Ingibjörg Guðmundsdóttir fæddist á Skáldstöðum í Reykhólasveit 10. nóvember 1923. Hún lést á dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum 14. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Helgason bóndi á Skáldstöðum, f. 9. nóv. 1880, d. 30. jan. 1958, og Jóhanna Magnúsdóttir, f. 15. maí 1891, d. 14. apríl 1973. Systkini Ingibjargar voru Jens, f. 24. okt. 1914, d. 29. sept. 1998, Magnús, f. 17. jan. 1919, d. 15. nóv. 1992, Kristján, f. 3. okt. 1921, d. 29. mars 2008, og Jón Kristinn, f. 24. nóv. 1931, d. 27. apríl 2004.

Ingibjörg bjó á Skáldstöðum alla sína tíð, fyrst með foreldrum sínum og síðan með bræðrunum Magnúsi, Kristjáni og Jóni. Skólaganga hennar var hefðbundin barnaskólaganga þess tíma auk þess sem hún nam við Húsmæðraskólann á Staðarfelli veturinn 1943-1944. Hún flutti sökum heilsubrests á dvalarheimilið Barmahlíð á Reykhólum haustið 2005.

Útför Ingibjargar verður gerð frá Reykhólakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Hún Inga á Skáldsstöðum var merkileg kona. Ég kynntist henni og þeim Manga, Kitta og Nonna þegar ég kom fyrst sem sumarstrákur í Skáldsstaði sumarið 1975, þá 10 ára. Sumrin urðu fjögur og alltaf mætti ég sömu hlýjunni og umhyggjuseminni hjá Ingu. Það var allt svo rólegt og yfirvegað í fari hennar að manni leið alltaf vel nálægt henni.

Verkaskiptingin var nokkuð skýr á bænum. Inga sá um húsverkin, þrif og þvotta, matseld og bakstur og annað í þeim dúr. Bræðurnir komu lítið að húsverkunum, en það kom sér reyndar heldur illa þegar Inga brá sér einhverju sinni í húsmæðraorlof í nokkra daga. Þá var það Nonni sem sá um eldamennskuna við litla hrifningu bræðra sinna. Þegar hafragrauturinn brann við var Kitta öllum lokið og það hvein hátt í honum. Það urðu allir dauðfegnir þegar Inga kom aftur og ástandið í eldhúsinu færðist í eðlilegt horf. Annars var eldhúsið hennar Ingu í rauninni samkomustaður heimilisins; þar hófst dagurinn með morgunkaffinu og þar lauk honum með kvöldkaffinu, þar var hlustað á fréttir og veðurfregnir, þar var skrafað, skeggrætt og skipulagt og þangað var kunnugum boðið inn.

Inga og Nonni sáu um mjaltirnar en á Skáldsstöðum var alltaf handmjólkað þann tíma sem ég var þar og kannski alla tíð. Kýrnar voru miklir vinir Ingu og voru ánægðar og rólegar þegar hún fór um þær höndum. Hún sinnti auk þess hænsnunum og heimaalningunum, og rösk var hún með hrífuna þegar snúa þurfti heyi þar sem vélarnar náðu ekki til.

Bræðurnir sinntu að öðru leyti öllum útiverkum. Kitti var berserkur til vinnu og í heyskapnum voru þeir Nonni á vélunum en Mangi sló eins og herforingi með orfi og ljá. Aldrei kom hann nálægt vélum og sagðist hafa hætt að aka dráttarvél þegar hann ók með heyvagninn ofan í skurð. Mér tókst einu sinni að fá hann til að aka Farmalnum út heimreiðina, en það gekk ekki betur en svo að hann keyrði á hliðið og neitaði að taka þátt í frekari aksturstilraunum eftir það.

Að koma til Skáldsstaða var eins og að koma í annan heim. Ólíkt borgarysnum var þar alltaf ró og friður þótt mörg væru handtökin. Í rauninni var það ótrúlegt ævintýri fyrir strákpjakk úr Reykjavík að koma í þessa sveitaparadís og taka þátt í daglegum verkum. Á kveðjustundinni rifjast allt upp; að mjólka kýrnar með Ingu og Nonna, skilja mjólk og strokka smjör í búrinu, steikja kleinur með Ingu, stússa í vélunum með Kitta og Nonna, hjálpa til í sauðburði, hamast í heyskapnum, ganga með yxna kýr yfir að Hofsstöðum, spila marjas við Manga, og síðast en ekki síst að koma inn í hlýja eldhúsið hennar Ingu seint á kvöldin og fá volga mjólk og kökur eftir langan vinnudag.

Nú er hún Inga á Skáldsstöðum farin að hitta bræður sína. Þar verður fagnaðarfundur. Eftir situr falleg minning um vandað og gott fólk í yndislegri sveit. Ég þakka kærlega fyrir mig.

Fjölskyldunni votta ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ólafur Halldórsson.