Sterkir Framarinn Rúnar Kárason og Sverrir Hermannsson, skytta Víkings, hafa farið vel af stað á Íslandsmótinu.
Sterkir Framarinn Rúnar Kárason og Sverrir Hermannsson, skytta Víkings, hafa farið vel af stað á Íslandsmótinu. — Morgunblaðið/Golli
„VIÐ erum með tólf til fjórtán leikmenn hjá Víkingi á sama tíma og lið í deildinni eru með allt að 30 leikmenn innan sinna raða.

„VIÐ erum með tólf til fjórtán leikmenn hjá Víkingi á sama tíma og lið í deildinni eru með allt að 30 leikmenn innan sinna raða. Ég sé engan grundvöll fyrir vexti íslensks handknattleiks og að liðum fjölgi á meðan fáein lið eru með svo stóran leikmannahóp og önnur með miklu fámennari hóp,“ segir Róbert Sighvatsson, þjálfari liðs Víkings í N1-deild karla í handknattleik.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Róbert segir að nóg sé til af ungum og efnilegum handknattleiksmönnum þannig að mögulegt eigi að vera að fjölga keppnisliðum frá því sem nú er. Hins vegar þurfi á tíðum að opna augu piltanna fyrir að róa fremur á önnur mið þar sem þeir fá fleiri tækifæri til að spila í stað þess að verma í besta falli varamannabekkinn hjá þeim liðum sem hafa stærri leikmannahópa. Einnig mætti vera meira um að félög lánuðu sín á milli efnilega leikmenn sem vanti reynslu.

„Hér á árum áður var leikið í þremur deildum hér á landi og hvert lið hafði tíu, tólf eða fjórtán leikmenn innan sinna raða og allir höfðu gaman af því að spila. Margir velta fyrir sér af hverju þessir tímar eru ekki lengur. Það vantar hins vegar allar forsendur fyrir að hægt sé að hafa landslagið í boltanum svipað og það var vegna þess að fleiri lið þarf til. Það er hins vegar nóg af strákum til þess að fylla fleiri lið en nú eru,“ segir Róbert og bætir við:

„Strákarnir verða að átta sig á að þeir verða að koma sér í lið til þess að fá að spila eitthvað. Um leið þarf að vekja gömul lið af værum blundi. Lið eins og Akranes, þar sem áhugi fyrir körfuknattleik hefur minnkað síðustu ár, Keflavík, Njarðvík þar sem íbúum hefur fjölgað síðustu ár, Breiðablik í Kópavogi, auk ÍH í Hafnarfirði, svo aðeins nokkur dæmi séu tekin. Það er nóg af strákum þar í bæ til þess að leika handknattleik.

Efniviðurinn er fyrir hendi en það vantar fleiri félög til þess að standa undir þessum hópi. Um leið þurfa menn að setjast niður og skipuleggja starfið og spyrja sjálfa sig að því hvað þurfi að gera til þess að vekja fleiri félög sem nú sofa værum blundi,“ segir Róbert sem er þrautreyndir handknattleiksmaður og á að baki yfir áratugar reynslu sem atvinnumaður í Þýskalandi auk þess að hafa leikið á annað hundrað landsleiki.

„Meðal þeirra hugmynda sem ég hef eru að aðeins verði leyfðir tólf menn á leikskýrslu hjá hverju félagi og síðan megi hvert lið nota tvo leikmenn til viðbótar á aldursbilinu 16-18 ára. Þannig væri hægt að dreifa úr þessum stóru hópum sem sum félög sitja uppi með,“ segir Róbert sem óttast að margir piltar flosni upp úr íþróttinni þegar þeir komast ekki að hjá stóru og fjölmennu handknattleiksliðunum.

En er hann ekkert hræddur um að eins fari verði menn skikkaðir til þess að skipta um lið? „Það verður hver og einn að ákveða fyrir sig. Menn geta líka velt því fyrir sér hvort er betra fyrir þá sem handknattleiksmenn að leika með einhverju minna liði og leika þá eitthvert hlutverk eða þá að sitja á bekknum en verða samt sem áður Íslandsmeistari án þess að hafa leikið einn einasta leik með liði sínu og enda svo ferilinn sem vatnsberi 25 ára gamall. Þetta er spurning um metnað.

Hver einstaklingur verður að gera það upp við hverju hann vill ná út úr sínum ferli,“ segir Róbert Sighvatsson, þjálfari nýliða Víkings.

Í hnotskurn
» Aðeins 16 lið leika í N1-deild og 1. deild karla Íslandsmótsins í handknattleik. Fyrir rúmum 20 árum voru liðin tvöfalt fleiri.
» Iðkendum í handknattleik hefur ekki fækkað mikið á þessum árum.
» Hvetja þarf menn til þess að auka reynslu sína og skipta yfir í „minni“ lið.