Geir R. Andersen
Geir R. Andersen
Geir R. Andersen skrifar um efnahagsmál: "Fyrirsjáanlegar eru miklar róstur á vinnumarkaðinum, vegna misræmis milli ofurlauna annars vegar og alltof lágra lágmarks- og meðallauna hins vegar."

ÞÓTT við höfum ríkisstjórn sem hefur ríflegan meirihluta á Alþingi hefur henni ekki tekist að sannfæra þjóðina um að „ekkert þurfi að gera“ við þær aðstæður sem nú ríkja. Það er hins vegar mikill hugur í fólki að fá skýr svör um aðgerðir til að mæta kröppum dansi í fjármálalífi þjóðarinnar. Einnig á vinnumarkaði. Þar heimta nú helstu samtökin hvort tveggja í senn; evru sem gjaldmiðil og inngöngu í Evrópusambandið.

Það er hins vegar ekki annað hægt en að samsinna þeim ummælum formanna ríkisstjórnarflokkanna, að hér ríki ekki kreppa. Það glittir þó vissulega í svæsna tegund hallæris sem mun aðallega lýsa sér í tímabundnum samdrætti í einkaneyslu, og skuldakreppu hjá þeim sem ekki hafa kunnað fótum sínum forráð í undangenginni þenslu.

Vonandi verður hallærið ekki stjórnvöldum kærkomið tækifæri til þess að leggjast í opinberar framkvæmdir, sumar eingöngu sem dauðagildra opinberra fjárfestinga. – Sterkasta ákvörðun ríkisstjórnarinnar væri sú að falla frá flestum þeim framkvæmdum sem hún hefur á stefnuskrá sinni, og verja því fé sem sparast til verkefna á samgöngusviðinu. Og samgöngusviði eingöngu.

Þráhyggjan um evruna

Fólk er orðið leitt á þeirri þráhyggju talsmanna evruupptöku, að evran muni veita birtu og yl inn í íslenskt efnahagslíf. Viðræður um inngöngu í ESB yrðu okkur Íslendingum mikil eldraun.

Ekki bara að við þyrftum að leggja inn beiðni um undanþágu í sjávarútvegsmálum, við þyrftum líka að semja sérstaklega um undanþágu fyrir upptöku herskyldu hér á landi. – Allar Evrópuþjóðirnar eru með herskyldu, sem tekur til sameiginlegs herafla Evrópu. Það yrði þá væntanlega í fyrsta skipti að umræðu um herskyldu á Íslandi þyrfti að taka alvarlega. Dettur einhverjum í hug að langur listi með undanþágubeiðnum yrði farsælt veganesti í viðræður um aðild að ESB?

Hyggilegast er að gleyma strax og leggja af sífelldar furðufréttir um „nýjan flöt“ á aðild að ESB. Sama hversu margar skoðanakannanir birtast, sem sýna hve margir eru „hlynntir“ aðild, þær eru marklausar með öllu, þar til við höfum tekið til á sviði efnahagslífsins, útrýmt verðbólgu og hreinsað krónuna af árásum og illu umtali.

Algert neyðarúrræði

Lausn ljósmæðradeilunnar svonefndu staðfestir svo ekki verður um villst, að mikil kreppa er framundan á sviði kjara- og launamála í landinu. Eftir tvö verkföll ljósmæðra lagði ríkissáttasemjari fram miðlunartillögu, sem hann kallaði „algert neyðarúrræði“, vegna þess að mál voru komin í þrot og útséð um að lausn fengist með áframhaldandi viðræðum milli deiluaðila.

En ekki er sopið kálið... Nú hafa læknar tekið fram verkfallsskóna, síðan verða það sérfræðingar og aðrir á heilbrigðissviði, og svo koll af kolli. Á heilbrigðissviðinu einu þarf fjármálaráðherra að tryggja samninga við 120 stéttarfélög!

Fyrirsjáanlegar eru miklar róstur á vinnumarkaðinum, vegna misræmis milli ofurlauna annars vegar og alltof lágra lágmarks- og meðallauna hins vegar. Til þess að komast hjá algjörri upplausn verður núverandi ríkisstjórn að taka sig á og bjarga því sem bjargað verður. Það getur hún gert og á að gera áður en algert neyðarástand skapast.

Það er ekkert vit í að ríkisstjórn sem hefur yfirgnæfandi meirihluta á Alþingi setji ekki lög sem taka á þessum málum. Lög um kaupgjalds- og verðlagsstöðvun; hækkun lágmarkslauna og lækkun hámarkslauna, ásamt afnámi frjálsrar álagningar á vörur og þjónustu. – Til loka kjörtímabilsins, a.m.k.

Skattalækkanir raunhæfastar

Í stað hinna óraunhæfu launahækkana sem við höfum átt að venjast og hafa gufað upp næstum samhliða undirskrift samninga – eins og nýleg dæmi sanna – væri raunhæfast við núverandi aðstæður að fara „skattaleiðina“ til að lina sárustu kvöl þeirra sem nú hafa beðið árangurslaust eftir leiðréttingu hinna lágu launa, jafnt sem „meðallauna“.

Veruleg hækkun skattleysismarka (og/eða persónuafsláttur) er lykilatriði í þessu sambandi, svo og 10% skattur á lífeyristekjur. Einnig er ákvörðun um 15% flatan skatt á allar tekjur og þjónustu skynsamleg lausn, líkt og Viðskiptaráð lagði til á sínum tíma.

Engin þessara atriða eru verðbólguhvetjandi, gagnstætt beinum launahækkunum, sem skapa víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, og eru allsendis óþolandi núna þegar á ríður að ná verðbólgunni niður.

Blendin viðbrögð margra landsmanna við myndun núverandi ríkisstjórnar kunna að eiga þátt í þeim mótbyr sem ríkisstjórnin virðist mæta víða. Ekki síst vegna tíðra fjarvista helstu máttarstólpa hennar og ferðalaga víða um heimsbyggðina. Það er hins vegar með öllu óþolandi, að ríkisstjórn með mikinn þingmeirihluta hafi ekki þá heildaryfirsýn sem krefst þess að nú verður að stemma á að ósi með innrás – ekki útrás – á innlendan launa- og vinnumarkað, hvað sem líður upphrópunum um „frjálsan samningsrétt, frjálsa álagningu og frelsi til athafna“.

Forgangsverkefni stjórnvalda nú er að tryggja stöðugleika í fjármálum – lækka verðbólguna. „Þjóðarsátt“ – og gamaldags verðbólgusamningar heyra til fortíðinni.

Höfundur er blaðamaður.

Höf.: Geir R. Andersen