Bót Nýja veginum er ætlað að bæta samgöngur innan Reykhólahrepps og frá hringvegi til og frá V-Barðastrandasýslu og norðanverðum Vestfjörðum.
Bót Nýja veginum er ætlað að bæta samgöngur innan Reykhólahrepps og frá hringvegi til og frá V-Barðastrandasýslu og norðanverðum Vestfjörðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur fellt úr gildi úrskurð Jónínu Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, frá því í janúar 2007 þar sem fallist var á svonefnda leið B í öðrum áfanga Vestfjarðavegar frá Bjarkarlundi til Eyrar í Reykhólahreppi.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur fellt úr gildi úrskurð Jónínu Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, frá því í janúar 2007 þar sem fallist var á svonefnda leið B í öðrum áfanga Vestfjarðavegar frá Bjarkarlundi til Eyrar í Reykhólahreppi. Landeigendur á svæðinu, Náttúruverndarsamtök Íslands og Fuglaverndarfélag Íslands höfðuðu málið og kröfðust ógildingar.

Upplýsingar vantaði

Í dómnum kemur fram að þar sem fullnægjandi upplýsingar um áhrif þverunar Gufufjarðar og Djúpafjarðar á umhverfið hafi ekki legið fyrir þegar ráðherra kvað upp úrskurð sinn, hafi honum borið að láta rannsaka þau áhrif á fullnægjandi hátt. Þannig hefði verið lagður viðhlítandi grundvöllur að ákvörðuninni áður en hún var tekin. Þar sem á skorti að fyrrnefndar upplýsingar lægju fyrir við uppkvaðningu úrskurðar ráðherra telur dómurinn um svo veigamikinn ágalla á honum að ræða, að óhjákvæmilegt sé að fella þann hluta úrskurðarins úr gildi.

Forsaga málsins er sú að árið 2006 lagðist Skipulagsstofnun gegn því að Vestfjarðavegur yrði lagður samkvæmt tillögu B á leiðinni frá Bjarkalundi til Eyrar. Þáverandi umhverfisráðherra felldi úrskurð Skipulagsstofnunar úr gildi og féllst á tillögu Vegagerðarinnar um að fara með veginn um Teigsskóg. Landeigendur og náttúruverndarfélög töldu að slík vegagerð myndi hafa í för með gríðarleg óafturkræf umhverfisspjöll í nær ósnortnu umhverfi og höfðuðu því mál til að fá úrskurð ráðherra ógildan.

Skoða næstu skref í málinu

„VIÐ munum taka einhverja daga í að skoða hvaða leiðir eru í stöðunni, fara yfir forsendur dómsins og hvaða þýðingu þetta hefur,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Aðspurður segir G. Pétur of snemmt að segja til um það hvort dómnum verði áfrýjað. Eins sé hugsanlega inni í myndinni að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar að nýju.
silja@mbl.is