Klassík með gati Á litsgjafarnir sjá í gegnum hinar svokölluðu klassísku plötur.
Klassík með gati Á litsgjafarnir sjá í gegnum hinar svokölluðu klassísku plötur. — Morgunblaðið/Kristinn
Fyrir tveimur vikum voru nokkrar klassískar íslenskar bækur settar undir mæliker Lesbókar og því velt upp hvort þær stæðu undir nafni.

Fyrir tveimur vikum voru nokkrar klassískar íslenskar bækur settar undir mæliker Lesbókar og því velt upp hvort þær stæðu undir nafni. En hvaða niðurstöðu fáum við ef drögum bækurnar undan kerinu og skiptum inn nokkrum (meintum) meistarastykkjum úr íslenskri dægurlagatónlist? Eiga þær plötur sannanlega heima á þessum síendurteknu topplistum eða lúra þær bara þarna af gömlum vana?

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Kona Bubba, Ágætis byrjun Sigur Rósar, Lifun Trúbrots, Á bleikum náttkjólum með Megasi og Spilverki þjóðanna, Sturla Spilverksins, Debut Bjarkar. Allt eru þetta kunnugleg nöfn þegar umræður um bestu plötur íslenskrar tónlistarsögu fara í gang. Og varla er það fyrir tilviljun.

Engu að síður er meira en verðugt að renna öllu klabbinu í gegnum endurmat stöku sinnum. Er Með allt á hreinu virkilega áttunda besta plata sem gerð hefur verið hér á landi (samkvæmt könnun sem var gerð fyrir bók Dr. Gunna, Eru ekki allir í stuði , árið 2000)? Þá hafnaði fyrsta plata Hjálma, Hljóðlega af stað , í ellefta sæti í viðlíka könnun sem Morgunblaðið gerði í fyrra. Nýútkomnar plötur sem mikið hefur verið hampað græða alltaf þegar svona kannanir eru gerðar, og setja þar með inn óhjákvæmilega skekkju.

Hræðileg Sigur Rós

Fyrir mína parta er ein plata sem ég hef aldrei náð að átta mig almennilega á. Það er að segja ég hef aldrei áttað mig á þaulsætni hennar á þessum blessuðu listum. Hér er ég að tala um Á bleikum náttkjólum með Megasi og Spilverki þjóðanna. Þegar ég loksins setti þennan heilaga gral undir nálina, eftir að hafa séð hana nefnda ótal sinnum sem eitt af meistaraverkum íslenskrar tónlistarsögu, varð ég fyrir vonbrigðum. Ég reyndi aftur og aftur en ekki neitt. Fyrsta hugsunin sem slær mann í svona tilfellum er að það hljóti að vera eitthvað að manni. En ekkert hefur gerst, enn, þó að ekki sé loku fyrir það skotið að einhvern tíma muni ég „sjá ljósið“.

Við ritun þessarar greinar leitaði ég til málsmetandi aðila og fiskaði eftir svipuðum upplifunum. Ég leitaði til gagnrýnenda, útvarpsmanna og tónlistarmanna; manna og kvenna sem eru með hið óformlega fag poppfræði á takteinum. Eins og við mátti búast fengu risarnir að finna fyrir því, einkanlega Bubbi Morthens. Það er kalt á toppnum og meðfram því að vera einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar fyrr og síðar er hann ábyggilega um leið sá umdeildasti.

Rætt var um að Ísbjarnarblús sé merkilegri fyrir þau straumhvörf sem hún olli en að platan sem slík haldi illa vatni. „Ég kolféll fyrir þessari plötu og hún smellpassaði inn í tíðarandann,“ segir Jens Guð, poppfræðingur og ofurbloggari. „Laglínur eru lítilfjörlegar. Margir textarnir eru þunnir. „Stál og hnífur“ er dæmi um illa ortan texta. Platan er merkileg í sögulegu samhengi en frekar slöpp án þess samhengis.“

Kristinn Pálsson, dagskrárgerðarmaður á Rás 2, hefur sömu sögu að segja um Geislavirkir , plötu Utangarðsmanna. „Þarna eru örfá fín lög eins og „Hiroshima“ og „Kyrrlátt kvöld“,“ segir hann. „Stór hluti plötunnar er svo á ensku, biddu fyrir þér. Þetta er sundarlaus plata sem á heima miklu neðar í virðingarröðinni yfir bestu plötur Íslandssögunnar.“

Meistara Megas er þá ruggað til á stalli.

„Megas gerði hræðilega leiðinlegar plötur um 2000, svo Frágangur/Hold er mold voru mikil framför en ekki sú geðveika snilld sem mátti lesa út úr gagnrýni,“ segir poppfræðingur sem ekki vildi láta nafns getið. „Menn voru aðallega glaðir með að hann væri hættur þeim takmarkalausu leiðindum sem hann hafði verið í áður, einn og á hinni ömurlegu Megasukk - plötu.“

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson bókmenntafræðingur tekur í svipaðan streng. „Það er eins og allt sem Megas geri eigi sjálfkrafa að dæma sem meistaraverk, sem er auðvitað fásinna. Hann hefir alveg gert sitt drasl; nefni t.d Fláa veröld og Til hamingu með fallið .“

Meira að segja að gulldrengirnir í Sigur Rós fá vel valin skeyti. Tveir umsagnaraðilar nefndu fyrstu plötuna, Von . „Leiðinlegt listrunk, maður nær alls engri tengingu við hana,“ sagði Kristinn Pálsson og annar hafði þá þetta að segja um svigaplötuna, ( ) . Athugið að tíðrætt meistarastykki sveitarinnar, Ágætis byrjun , er stikkfrí:

„Eftir Ágætis byrjun hefur Sigur Rós aðallega verið að bergmála sig. Hin hræðilega og eiginlega hlægilega plata ( ) er hápunktur tilgerðar í íslenskri dægurlagasögu. Þeir eru reyndar eitthvað að vitkast á nýjustu plötunni sinni, en sumt þar er þó tilgerðarlegt og slappt, eins konar rjómaterturokk. Þótt þessir strákar séu vitaskuld snillingar væri gaman að sjá þá ganga enn lengra í nýsköpuninni og sleppa öryggisneti dramatíska jöklarokksins.“

Vart boðleg Sprengjuhöll

Bubbi, Megas, Sigur Rós... öllu þessu var raðað upp við skotspóninn. Það sem sleppur hins vegar undan vekur samt eiginlega meiri athygli. Af þeim rúmlega þrjátíu manns sem ég hafði samband við nefndi enginn Björk eða Sykurmolana. Öll íslenska pönkbylgjan, utan það sem nefnt var um Geislavirkir , er þá í helgum hjúpi. Egó, Þeyr, Fræbbblarnir, Purrkur Pillnikk virðast ekki hafa slegið falskan tón. Ekkert er þá sett út á Stuðmenn, Spilverkið eða Þursaflokkinn.

Hins vegar stigu nokkrir fram og drógu gildi nýrra og nýútkominna plata í efa. Um er að ræða plötur sem væri hægt að kalla „kandídata“ í meistaraverk, en í flestum tilfellum er hreinlega ekki liðinn nægilega langur tími svo hægt sé að treysta þau í þann flokk. Menn nefndu plötur eins og Mugiboogie með Mugison, Fisherman's Woman með Emilíönu Torrini og Hljóðlega af stað með Hjálmum.

Frank Hall, dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og tónlistarmaður, hefur t.d. þetta að segja um samnefnda plötu rappsveitarinnar XXX Rottweilerhunda sem kom út 2001:

„Mér finnst hún stundum rata inn á þessa lista fyrir einhvers konar sagnfræðilegt gildi,“ segir Frank. „Hér er rappað á íslensku. Vissulega gott, gilt og þarft innlegg í íslenska tónlistarflóru en það er ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir góðri tónlist, hvað þá nægilegt. Á XXX Rottweilerhundar var góður efniviður, textasmiðirnir eru beittir en hugmyndum og hæfileikum þarf að finna farveg.“

Annar poppfræðingur, sem ekki vildi láta nafns síns getið, hafði þetta að segja um Tímarnir okkar , plötu spútnikbands síðasta árs, Sprengjuhallarinnar. „Þessi plata fékk frábæra dóma þegar hún kom út þrátt fyrir að annar söngvarinn sé vita laglaus og geri þar að auki texta sem þættu vart boðlegir í skólablöð framhaldsskóla landsins. Með því að ríma út í eitt tókst honum að slá ryki í augu íslenskra tónlistargagnrýnenda.“

Samfélag nálægðarinnar

Þónokkrir af þeim sem ég hafði samband við kusu að koma fram nafnlaust, nokkuð sem segir heilmikið um þann veruleika sem við Íslendingar búum við. Þetta samfélag nálægðarinnar getur verið eins og jarðsprengjusvæði í viðkvæmum umræðum um gildi lista og það er stundum eins og nafnleynd sé eina haldbæra leiðin til að hreyfa við hlutum og koma í gang einhverri umræðu. Þá er eins og plöturnar séu enn eldfimari en bækurnar, þær eru nær okkur í tíma og flestir sem að þeim hafa komið eru enn vappandi upp og niður Laugaveginn – og jafnvel málkunnugir þeim sem stigu fram með álit sitt, hvort heldur undir nafni eður ei. Nafnlausar athugasemdir voru harðlega gagnrýndar í tilfelli áðurnefndrar bókagreinar, skiljanlega. En um leið hef ég líka fullan skilning á afstöðu huldumannanna.

Bubbi hefur gert betur en á Konu

Ólafur Páll Gunnarsson, verkefnisstjóri tónlistar á Rás 2. Kona eftir Bubba Morthens

Kona er allt öðruvísi plata en sólóplata Bubba þar á undan ( Ný spor ). Ég man að ég skildi ekki alla textana í upphafi og náði í fyrsta skipti á ferlinum ekki sambandi við goðið mitt. Hún seldist gífurlega vel og Bubbi var á þessum tíma líklega vinsælli og meiri stjarna en hann hafði verið fyrr eða síðar, en mér hefur lengi þótt hún ofmetin þessi plata. Það sem ég er í rauninni að segja er að það eru aðrar plötur Bubba sem ættu frekar skilið að vera nefndar sem hans meistaraverk, t.d. Frelsi til sölu og Von . Bubbi breytti sér í Leonard Cohen á þessari plötu eins og hann hefur fúslega játað síðar, fullur sjálfsvorkunnar og í vandræðum með sjálfan sig og allt sitt líf.

Jóhann Ágúst Jóhannsson, gagnrýnandi við Morgunblaðið. Lifun eftir Trúbrot

Þessi heilaga kýr er ósnertanleg í huga ákveðinnar kynslóðar en gerir þessari annars stórkostlegu hljómsveit lítinn greiða. Vandræðalega illa sungin lög, ljósritaður proggfílingur í bland við áhrif frá Deep Purple og Uriah Heep sem er á engan hátt frumlegur. Lifun nær aldrei sérstöku flugi og ég leyfi mér að efast um að þeir sem leggja svo mikið upp úr ágæti þessarar skífu muni eftir fleiri lögum en „To Be Grateful“. Hún líður áfram í bláum reyk náttúrugrasa og er að mínu viti frekar leiðinleg. Vissulega er allur hljóðfæraleikur virkilega til fyrirmyndar og það má greina það að menn voru í fíling en það er bara ekki nóg þegar „meistaraverk“ á í hlut. Um eitt verður þó ekki deilt, áhrif hafði hún og hefur ennþá en það er byggt á misskilningi. Þegar ég hlusta á hana get ég ekki annað en hugsað: Guði sé lof fyrir pönkið!

Jens Guð, poppfræðingur og ofurbloggari. Hana nú eftir Vilhjálm Vilhjálmsson

Þetta er meðalmennskuplata í flesta staði. Gamaldags og tilþrifalaus „mainstream“ poppplata. „Einshljóðfærissinfóníuhljómsveitin“ er einnota brandari þýddur og krákaður frá útlendri plötu. Vinsælasta lag plötunnar, „Ég labbaði í bæinn“, er hallærislegur kántríslagari. Textar Vilhjálms eru þokkalegir í samanburði við dægurlagatexta almennt en ekki merkilegir. Ofmatið á plötunni ræðst sennilega af því að á henni er „Söknuður“ eftir Jóhann Helgason. Það lag ber af öðru efni plötunnar.