Seðlabankastjórinn Aðgerðir Seðlabankans undanfarið hafa miðað að því að styrkja innviði fjármálamarkaðarins og styðja gengi krónunnar.
Seðlabankastjórinn Aðgerðir Seðlabankans undanfarið hafa miðað að því að styrkja innviði fjármálamarkaðarins og styðja gengi krónunnar. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Björgvin Guðmundsson bjorgvin@mbl.

Eftir Björgvin Guðmundsson

bjorgvin@mbl.is

Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, segir að bandaríski seðlabankinn hafi ekki talið sama tilefni til að gera samning um gjaldeyrisskipti við íslenska seðlabankann og seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar á þessu stigi.

„Í hinum löndunum hafði myndast mjög mikil bráðaþörf fyrir Bandaríkjadali á millibankamarkaði. Bandaríski seðlabankinn taldi sig hafa hagsmuni af því að liðka fyrir lausn á þeim mörkuðum en ekki hér á landi á þessum tímapunkti. Hann útilokaði hins vegar ekki slíkan samning síðar ef aðstæður gæfu tilefni til.“

Á miðvikudaginn varð þessi samningur opinber og gaf Seðlabankinn skýringu á þátttökuleysinu í gær. Mikill þrýstingur er á bankann að veita fjármálafyrirtækjum aðgang að lánum í erlendri mynt eins og aðrir seðlabankar gera víða um heim. Seðlabankinn er gagnrýndur fyrir það sem kallað er aðgerðarleysi sem hafi meðal annars leitt til lækkunar á gengi krónunnar.

Takmörkuð úrræði

Ingimundur segir Seðlabanka Íslands hafa takmörkuð úrræði til að veita fjármálafyrirtækjum aðgang að lánum í annarri mynt en íslenskum krónum. „Það er erfitt að bregðast við þessu núna með þeim tækjum og tólum sem við höfum. Það eru einstaklega erfið skilyrði þessa dagana vegna þeirra aðstæðna sem ríkja í alþjóðlegu fjármálakerfi. Við finnum rækilega fyrir því meðal annars á þessum markaði.“

Spurður hvort seðlabankinn hafi ýtt út af borðinu tillögu frá ríkisstjórninni um að lána bönkunum evrur segir Ingimundur að samskipti við ríkisstjórnina séu bundin trúnaði.

Í hnotskurn
» Samningurinn við seðlabanka Bandaríkjanna á að leysa hnút sem skapaðist á innlendum mörkuðum.
» Ingimundur Friðriksson segir það mat manna að slíkar aðstæður væru ekki uppi hér á landi.
» Bankar hafa kvartað yfir litlu aðgengi að gjaldeyri.