Viðsjárverðir Heimaborg leikstjórans er í aðalhlutverki í My Winnipeg.
Viðsjárverðir Heimaborg leikstjórans er í aðalhlutverki í My Winnipeg.
Leikstjóri: Guy Maddin. Leikarar: Darcy Fehr, Ann Savage. Kanada. 80 mín. 2007.

NÝJASTA verk kanadíska leikstjórans Guy Maddins er draumkennd sjálfsævisöguleg heimildamynd um heimaborg hans Winnipeg í Kanada. Hann fjallar á sinn einstæða hátt um uppvöxtinn og tilfinningar til nánasta umhverfis. Maddin býr til netta skemmtun þar sem hann hristir fram úr erminni ýmislegt sem ferðamálafulltrúar Winnipeg eru ef til vill ekki of spenntir fyrir. Myndin býr kannski ekki yfir hefðbundnum kynningarmyndastíl en hún hefur nokkuð, sem slíkar borgarmyndir vantar oft á tíðum, þ.e. lúmskan húmor þótt hún hafi þunglyndislegan takt.

Aðalpersónan Guy (Darcy Fehr) er að reyna að yfirgefa borg fulla af óþægilegum minningum. Umhverfið er þungt og grátt. Það er eilífur vetur. Svefnhamur leggst yfir borgarbúa. Menn eru svefngenglar. Inn í þennan kuldabolaheim dregur óáreiðanlegur sögumaður áhorfendur til að leita uppruna síns.

Maddin tjaldar til öllu sem hann á fyrir þetta verkefni. Hann notar gamlar fréttamyndir í bland við leikið efni. Hann sviðsetur æsku sína með leikurum og leikmynd. Maddin notar jafnvel klippimyndir þegar hann endurskapar eldsvoða á skeiðvelli og dramatískt verkfall árið 1919. Upp úr öllu þessu magnar Maddin mikinn seið. Sem fær mann til að spyrja: Býr Snjódrottningin í Winnipeg?

Anna Sveinbjarnardóttir

Sýnd í Norræna húsinu í kvöld og Iðnó 29.9. og í Regnboganum 2.10. og 5.10.
Höf.: Anna Sveinbjarnardóttir