[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Unu Sighvatsdóttur una@mbl.

Eftir Unu Sighvatsdóttur

una@mbl.is

„ÉG UPPLIFÐI þetta í raun sem bjargvætt og hugsa að ég hefði ekki haldið áfram í námi ef ekki hefði verið fyrir þetta,“ segir Atli Þór Fanndal sem hlaut verðlaun fyrir þátttöku sína í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda árið 1995, þá 12 ára gamall. Eftirmyndir af uppfinningu Atla hafa nú verið smíðaðar sem verðlaunagripir fyrir sigurvegara keppninnar í ár.

„Þetta var mikið snilldartól sem kallaðist kökuklemman,“ útskýrir Atli. „Ég glímdi við það vandamál sem barn að geta ekki skorið rúllutertur jafnbeint og aðrir og þetta fór mjög í taugarnar á mér.“ Hann hannaði því verkfæri sem virkar sem hnífur og kökuspaði í senn og tryggði honum nýsköpunarverðlaunin.

Kökuklemman var framleidd í 50 eintökum fyrir Reykjavíkurborg sem notaði þær til gjafa fyrir opinbera gesti. „Já, já, þetta fór í framleiðslu en náði víst aldrei sömu markaðshlutdeild og ostaskerinn,“ segir Atli og hlær. Hann segir hins vegar að nýsköpunarnámið sem var undanfari keppninnar hafi verið ómetanlegur í raun breytt lífi hans að ýmsu leyti.

„Svona eftir á að hyggja, eftir að hafa lokið námi, finnst mér að besta menntun sem þú getir gefið nokkru barni sé að geta hugsað sjálfstætt. Við erum að mennta núna fólk sem sest í helgan stein 2070 og við höfum enga hugmynd um hvernig tíðarandinn verður þá, en það er góður grunnur til framtíðar að kenna krökkum að hugsa aðeins út fyrir rammann og finna að ef það er vandamál þá er enginn betri til að leysa það en þú sjálfur.“

Atli átti sjálfur erfitt uppdráttar þegar hann var í grunnskóla, varð fyrir einelti og fann sig ekki í náminu. Hann var hins vegar svo heppinn að ganga í Foldaskóla sem var leiðandi í nýsköpunarkeppninni fyrstu árin og þátttaka í henni breytti í raun viðhorfi Atla til lífsins. „Þegar fólk fellur illa inn í hópinn þá eyðileggst það í rauninni að hluta, svo það er nóg að fá eitthvert svona viðfangsefni að dunda við til að fá þá tilfinningu að einhvers staðar í skólakerfinu sé þó ekki búið að afskrifa þig.

Ég er ekki að segja að þetta geti bjargað öllum en þetta er sannarlega nám fyrir alla því þetta er ákveðinn hugsunarháttur sem þú temur þér og notar í öllum þáttum lífsins.“

Eftir grunnskóla fór Atli í framhaldsskóla, sem hann þakkar m.a. hvatningu nýsköpunarkeppninnar, og hefur síðan búið í Noregi við nám í kvikmyndun, í Danmörku, Indlandi og nú Bretlandi. Hann skynjar ákveðin einkenni hjá Íslendingum eftir samanburð við aðrar þjóðir.

Vandamálin eru til að leysa þau

„Það sem aðskilur t.d. Breta og Íslendinga algjörlega er að það er allt rosalegt vandamál fyrir Bretum og maður hugsar með sér hvað það væri nú gott ef þeir hefðu lært að það er enginn betri til að leysa þessi vandamál en einmitt þú sjálfur. Þú finnur alveg muninn og að það er ótrúlega mikið sem fylgir því að vera Íslendingur og sérstaklega Íslendingur sem hefur hlotið nýsköpunarnám.“

Sköpunargáfan er ræktuð hjá íslenskum börnum á hverju ári

Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda er nú haldin í 18. sinn og var metþátttaka í ár með 3.600 hugmyndum frá 65 grunnskólum. Í tengslum við keppnina eru haldin nýsköpunarnámskeið í skólunum sem ætluð eru til að leiðbeina nemendum í hugmyndavinnu.

Keppnisflokkarnir í ár voru fjórir; almennt, slysavarnir, orka og umhverfi og hugbúnaður og tölvuleikir. Þær uppfinningar sem krakkarnir skapa eru svo metnar út frá hagnýti, nýnæmi og markaðshæfi. 50 tillögur komast í úrslit og eru uppfinningamennirnir boðaðir í vinnusmiðju þar sem 14 vinningshugmyndir voru valdar í ár.

Lokahóf nýsköpunarkeppninnar verður haldið á morgun í húsnæði Marels. Þar mun Atli Þór Fanndal segja frá áhrifum keppninnar á líf sitt og loks vera Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, innan handar við að veita verðlaunin, en eins og áður segir verður verðlaunagripurinn byggður á uppfinningu hans frá árinu 1995.

Einnig verður sýning á hugmyndum barnanna opnuð í lokahófinu og stendur hún í 3 daga.