Veit hann Jón Helgi af þessu? Á þetta virkilega að ganga svona viku eftir viku – mánuð eftir mánuð? Kannski ég tali við verslunarstjórann í þetta sinn.

Veit hann Jón Helgi af þessu? Á þetta virkilega að ganga svona viku eftir viku – mánuð eftir mánuð? Kannski ég tali við verslunarstjórann í þetta sinn.“ Þannig hugsar Víkverji ráfandi á göngum uppáhaldsmatvöruverslunarinnar sinnar, sem verður bráðum fyrrverandi uppáhaldsmatvöruverslunin hans. Þetta er Krónan á Bíldshöfða, og vandamálið er það, að maður fer ekki svo í eina litla verslunarferð þangað, að maður lendi ekki í vandræðum með að finna út verð á þeim vörum sem maður vill kaupa. Víkverji er satt að segja orðinn langþreyttur, þótt honum þyki búðin góð, vöruúrvalið vel fullnægjandi og verðið á matvælunum gott.

Frammi við dyrnar inn í búðina er gjarnan raðað vörum á tilboðsverði, eða vörum sem sérstök athygli er talin þurfa að vekja athygli á. Nú í vikunni var kominn þangað kælir með ávaxtasafa frá nokkrum fyrirtækjum. Aðeins tvær tegundir voru verðmerktar og safinn sem Víkverja langaði í var ekki þar á meðal. Þetta er ekkert einsdæmi. Verðmerkingar vantar iðulega, eða þá að vöru hefur verið raðað í hillur merktar allt annarri vöru, þannig að kúnninn þarf að leita að réttu verðmerkingunni. Þetta er óviðunandi, þetta er óþolandi, fullkomlega metnaðarlaust og í raun ólöglegt.

Lágur aldur afgreiðslufólksins er hluti af vandamálinu og til mikils vansa. Það þýðir ekki að spyrja krakka rétt kominn af sárasta barnsaldri hvort ekki sé til kúmen, en viðkomandi hefur ekki hugmynd um hverslags fyrirbæri kúmen er. „Spurðu þennan í grænu peysunni,“ er ömurlegasta svar sem Víkverji fær í verslunum, sérstaklega þegar hann byrjaði á að ræða við þann í grænu peysunni og er búinn að fara í gegnum stelpuna í rauða bolnum, eina kassadömu, þann í bláu skyrtunni og þann í íþróttagallanum.