„Ég þori ekki að kíkja á lánið og reyni að hugsa sem minnst um þetta.“ Þetta segir Jón Björgvin Vernharðsson, vélaverktaki á Austurlandi, um lánin á tækjunum sínum.

„Ég þori ekki að kíkja á lánið og reyni að hugsa sem minnst um þetta.“ Þetta segir Jón Björgvin Vernharðsson, vélaverktaki á Austurlandi, um lánin á tækjunum sínum. Jón Björgvin er með myntkörfulán hjá Lýsingu sem tekið var í júnímánuði í fyrra. Lánið er upp á tuttugu milljónir og á síðustu mánuðum hafa afborganirnar hækkað óheyrilega.

„Ég segi þér það alveg satt að ég veit ekki hverjar afborganirnar eru eins og staðan er í dag. Ég borga þetta bara í gegnum bankann og reyni að halda sjó. Ég vil sem minnst vita um hver staðan á þessu er núna. Ég er bjartsýnn að eðlisfari og það bjargar mér í þessu. Hins vegar er ég alveg viss um að það eru ýmsir í þessari stöðu sem sofa ekki á nóttunni.“

Hækkandi gengisvísitala krónunnar hefur valdið því að þeir sem eru með lán í erlendri mynt finna verulega fyrir hærri greiðslubyrði af lánunum. Bessi Vésteinsson, verkataki í Hofsstaðaseli í Skagafirði, tekur í sama streng og Jón Björgvin. „Við erum með hluta af okkar tækjum á fjármögnunarlánum og auðvitað tekur það í þegar krónan fellur svona. Afborganirnar hjá okkur hafa hækkað verulega en ég hugsa ekkert um þetta. Við erum í ágætum rekstri og verkefnastaðan er góð þannig að við komumst yfir þetta en staðan hlýtur að vera ömurleg hjá þeim sem hafa farið út í miklar fjárfestingar og skulda háar fjárhæðir. Maður hefur alveg velt því fyrir sér að létta á rekstrinum og selja frá sér einhverjar vélar. Þá myndi maður líka selja þær úr landi og fá eðlilegt verð fyrir þær.“

Jón Björgvin segir að þó að verkefni hafi verið næg í sumar dragi alltaf mikið úr þeim yfir veturinn. „Ég er búinn að hækka alla taxta eins og ég þori en það dugir ekki til ef maður getur ekki verið í fullum rekstri í vetur. Ég reikna allt eins með því að leggja vélunum í vetur og fara bara á sjóinn, þá ætti ég vonandi að hafa fyrir afborgununum í vetur.“ freyr@24stundir.is