Hólmfríður Kristjana Grímsdóttir fæddist á Húsavík 24. júlí 1920. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 1. september síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Húsavíkurkirkju 13. september.

Elsku amma Fríða.

Okkur langar að minnast þín með nokkrum orðum.

Það eru margar minningar sem rifjast upp þegar við setjumst niður og hugsum um gamla tíma úr Kárahúsi. Jólaboðin eru sérstaklega ofarlega í huga okkar þegar stórfjölskyldan kom saman. Borðið svignaði undan kræsingunum og alltaf var glatt á hjalla, mikið hlegið og gantast. Aldrei klikkuðu kleinurnar hennar ömmu þó engin væri uppskriftin, slatti af þessu og slatti af hinu. En alltaf urðu þær bestar í heimi. Engum sem til þekkti brá í brún, þó að stór hluti af búslóðinni væri komin eldsnemma út á pall á laugardagsmorgni til að viðra, og allt var þrifið hátt og lágt. Ekki var bíllinn undanskilinn. Þú lést ekkert stoppa þig. Það er okkur ofarlega í huga þegar þú, kona á sjötugsaldri, fórst og trekktir upp vélsleðann hans Helga Þórs og þeystir á honum í vinnuna í snarvitlausu veðri og ófærð. Eða þegar þú fórst á Bronconum með stóru dekkjunum í búðina að versla, því alltaf þurfti að vera til nóg af öllu, ef gesti bæri að garði.

Tíminn er voldugur hringur, hann hefur ekkert upphaf og engan endi. Hann kemur aftur, enn og aftur að eilífu. Við kveðjum þig með miklu þakklæti og virðingu.

Hvíl í friði, elsku amma.

Agnar Kári, Heiðrún,

börn og barnabörn.

Sigurlaug (Didda), Hilmar

og börn.