Margrét Sigurðardóttir
Margrét Sigurðardóttir
Margrét Sigurðardóttir lýsir eftir stefnu í búsetuúrræðum fyrir fatlaða: "Fólk sem er með alvarlega langvinna sjúkdóma, þarf hjúkrun og umönnun og er undir ellilífeyrisaldri, vill gleymast þegar umræða er um búsetumál."

BÚSETUÚRRÆÐI eiga að vera í stöðugri þróun og veita ber öllum sem mögulega geta búið á heimili sínu þjónustu eftir þörfum (sjá lög um málefni fatlaðra) til að gera þeim kleift að búa heima. Sumir sem þurfa mjög mikla aðstoð og sérhæfða hjúkrun eiga ekki annarra kosta völ en að fara á hjúkrunarheimili. Þessi hópur hefur aðgang að tveimur hjúkrunarheimilum í Reykjavík.

Sjálfsbjargarheimilið og Skógarbær

Annað er Sjálfsbjargarheimilið sem var í eina tíð glæsilegt hjúkrunarheimili en var byggt fyrir 35 árum og stenst engan veginn kröfur í nútímaþjóðfélagi. Eða hver vill búa til langframa í 12,5 ferm. herbergi án baðs og salernis og þurfa að deila salerni með 5-6 manns?

Hjá Sjálfsbjargarheimilinu hafa reyndar verið framkvæmdar innanhúsbreytingar, þannig að tvö herbergi hafa verið gerð að einu. Núna eru því fjögur stærri herbergi, þ.e. 28 ferm., þrjú eru með sturtu og salerni, en það fjórða er eingöngu með vaski. Ekki hefur heyrst um hvort áætlun er fyrir hendi um að breyta fleiri herbergjum svo koma megi á móts við þarfir allra heimilismanna.

Á sama tíma og allt of margir búa í of þröngu húsnæði á Sjálfsbjargarheimilinu hefur sú jákvæða þróun átt sér stað hjá Sjálfsbjörg (landssambandi fatlaðra) að teknar hafa verið í notkun fimm íbúðir, allar 28 ferm., fyrir fólk sem þarf frekar mikla aðstoð og umönnun. Tilgangurinn er að einstaklingarnir fái tækifæri til að búa sjálfstætt með stuðningi. Annað jákvætt úrræði er endurhæfingaríbúð Sjálfsbjargar, sem gegnt hefur mjög mikilvægu hlutverki, en þar fær fólk markvissa þjálfun og stuðning (iðjuþjálfa, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðing) til þess að geta búið sjálfstætt (dvölin stendur frá nokkrum mánuðum í eitt ár).

Hitt hjúkrunarheimilið sem langveikir hafa aðgang að er Skógarbær, en það heimili var byggt fyrir aldraða árið 1997. Þar fengu langveikir einstaklingar úthlutað einni deild sem rúmar 11 einstaklinga og eru fyrir hendi níu einbýli (16 ferm.) og eitt tvíbýli (28 ferm.), en herbergin eru öll með sturtu og salerni. Af þessu má sjá að öll eru herbergin frekar lítil sem ætla má að skerði lífsgæði íbúanna.

Þar sem hjúkrunarplássin í Skógarbæ (11) og Sjálfsbjargarheimilinu (39) fullnægja ekki þörfinni fyrir þennan hóp, hefur eitthvað verið um að fólki hafi eingöngu boðist hjúkrunarpláss á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða, jafnvel þótt það hafi átt allnokkur ár í ellilífeyrisaldur.

Dæmi er um að það hafi valdið sumum einstaklingum mikilli óánægju, að vera tilneyddir að vistast á hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Fólkinu finnst það ekki eiga heima á hjúkrunarheimili þar sem algengt er að meðalaldur sé 80-85 ár. Það er skylda samfélagsins að sjá áðurnefndum hópi fyrir búsetuúrræði sem hentar þörfum hans og óskum, þ.e. rúmgóðum einbýlum með salernis- og baðaðstöðu og aðgangi að félagsstarfi og virkni við hæfi. Benda mætti á aðstöðuna á hinu nýja og glæsilega hjúkrunarheimili Sóltúni, þar sem öll herbergi eru einbýli 30 ferm. að stærð með salerni og baði, en átta manns dvelja á hverri deild. Þannig aðbúnaður ætti svo sannarlega að standa hinum yngri langveiku til boða.

Eru öryggisíbúðir framtíðarúrræði?

Áðurnefnd hjúkrunarheimili koma aldrei í stað heimilis og því mætti velta fyrir sér hvort öryggisíbúðir væru það úrræði sem fólk gæti frekar hugsað sér heldur en að búa á stofnun. Skilgreining Reykjavíkurborgar á öryggisíbúðum er svohljóðandi: „Öryggisíbúðir eru klasar íbúða þar sem gætt hefur verið að aðgengis/öryggismálum, s.s. með lyftum, handriðum, breiðum göngum og öryggisdúkum á gólfum. Þessar íbúðir geta verið hluti af hjúkrunarheimili. Til staðar er þjónusturými þar sem aðstaða er til að sinna félagsstarfi og aðstaða fyrir starfsmenn til að skipuleggja og veita þjónustu. Veitt er sólarhringsþjónusta með aðgengi að vaktþjónustu hjúkrunarfræðings. Heimaþjónusta og heimahjúkrun er veitt samkvæmt einstaklingsbundnu mati. Sameiginlegur matur er í boði.“

Fólk getur sem sagt í öryggisíbúðum haldið áfram heimili, fengið aðstoð og umönnun eftir þörfum, sem að öllum líkindum eykur lífsgæði þess.

Sambýli hefur sárvantað fyrir þá sem þurfa ekki mikla aðstoð, en aðallega eftirlit og stuðning. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra tekur við umsóknum um sambýli, en það má segja að vonlaust sé að sækja um sambýli fyrir þessa einstaklinga þar sem þau eru ekki fyrir hendi og ekki á döfinni að setja sambýli á laggirnar fyrir þessa aðila.

Stefna óskast

Brýnt er að taka á þessum málum sem allra fyrst og vinna áætlun í samráði við notendurna sjálfa (eða aðstandendur þegar við á) sem hafa þörf fyrir búsetuúrræði. Gera þarf úttekt á hve margir einstaklingar bíða eftir búsetuúrræði og kanna hvaða skoðanir notendurnir eða málsvarar þeirra hafa um æskilegt búsetuform. Nauðsynlegt er að marka stefnu fyrir framtíðina í búsetumálum þessa hóps og bjóða upp á fjölbreytni á borð við sambýli, leiguíbúðir og rúmgóðar, heimilislegar hjúkrunardeildir. Stjórn Sjálfsbjargarheimilisins þyrfti að greina frá hvort tekin hafi verið ákvörðun um að stækka fleiri herbergi (gera tvö að einu) og hvenær þær framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Stofnun aðstandendafélags fyrir þennan hóp væri gagnlegt úrræði. Þessa einstaklinga vantar góða málsvara sem geta haft áhrif á að tekið verði af festu á þessum málaflokki og honum fylgt eftir. Mikilvægt er að taka ákvörðun um viðunandi áætlun í búsetumálum verði tekin upp og henni hrint í framkvæmd sem fyrst. Ég skora á Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra að kanna málið og skýra frá áformum um búsetumál þessa hóps hið fyrsta.

Höfundur er félagsráðgjafi á Landspítalanum-Grensási, MS-dagvist og MS-félagi Íslands.

Höf.: Margrét Sigurðardóttir lýsir eftir stefnu í búsetuúrræðum fyrir fatlaða