TVENNT stendur upp úr eftir dvöl undanfarna daga kringum íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu. A) Ég er dolfallinn yfir kvennalandsliðinu og B) ég er dolfallinn yfir kvennalandsliðinu.

TVENNT stendur upp úr eftir dvöl undanfarna daga kringum íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu. A) Ég er dolfallinn yfir kvennalandsliðinu og B) ég er dolfallinn yfir kvennalandsliðinu.

Auðvelt væri að giska á að það væri vegna þess að blaðamaður er karlmaður og stúlkurnar í landsliðinu eru hver annarri fallegri. Svo einfalt er málið ekki. Ég er dolfallinn vegna þess að kvennalandsliðið er að fara að spila sinn erfiðasta en um leið mikilvægasta leik í áratugi, ef ekki frá upphafi, og einu gildir við hvaða leikmann í hópnum er talað; innst inni telja þær sig eiga góða möguleika gegn Frökkum í dag og í þeim orðum er ekki til snefill af þeirri yfirborðsmennsku sem gjarnan vill fylgja þegar íþróttamenn svara spurningum fréttamanna.

Leikurinn í dag er mikilvægasti leikur kvennalandsliðs Íslands vegna þess að nái þær jafntefli eða sigri lið Frakklands tryggir liðið sér þátttökurétt á Evrópumótinu í knattspyrnu sem fram fer í Finnlandi á næsta ári. Íslenskt kvennalandslið hefur aldrei náð þeim áfanga sem fer kirfilega í sögubækur þess vegna. Á þessu er þó ein undantekning. Árið 2004 náði kvennalandsliðið í átta liða úrslit Evrópukeppninnar þá en þar endar samanburðurinn vegna þess að snið keppninnar er allt annað nú og því yrði afrekið nú öllu stærra.

Fari svo að Ísland nái ekki stigi eða stigum hér í dag er ævintýrið þó ekki úti enn heldur fer liðið þá í umspilskeppni um fjögur lokasætin á EM 2009. Verður dregið um hvaða landslið mætast þar í október næstkomandi en í þann pott fara fjögur þau landslið sem hafa bestan árangur í öðru sæti riðlakeppninnar auk þriggja félaga sem hæst eru að stigum í þriðja sæti þeirra fimm riðla sem keppt hefur verið í í undankeppninni. Þó að enn sé einn leikur eftir í riðli Íslands sem fram fer á fimmtudaginn kemur er Ísland þó alveg tryggt inn í þá umspilskeppni því langt er í landsliðið í þriðja sætinu í riðli Íslands. Þó að vissulega mætist þar landslið sem lenda í öðru sætinu í riðlakeppninni er engu að síður um grimma mótherja að ræða og ekkert gefið þar frekar en gegn Frökkum í dag að Ísland sigri þá tvo umspilsleiki sem þar verður um að ræða. albert@mbl.is

Albert Örn Eyþórsson í Frakklandi

Höf.: Albert Örn Eyþórsson í Frakklandi