Eftir Láru Ómarsdóttur lom@24stundir.is Bandaríski seðlabankinn gerði á dögunum tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamninga við seðlabanka Ástralíu og þrjá norræna seðlabanka að fjárhæð 5 milljarðar Bandaríkjadala við tvo bankanna og 10 milljarðar við tvo.

Eftir Láru Ómarsdóttur

lom@24stundir.is

Bandaríski seðlabankinn gerði á dögunum tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamninga við seðlabanka Ástralíu og þrjá norræna seðlabanka að fjárhæð 5 milljarðar Bandaríkjadala við tvo bankanna og 10 milljarðar við tvo.

Eins og fram hefur komið í fréttum tók Seðlabanki Íslands ekki þátt í þessum samningnum sem vakti furðu, sérstaklega þar sem mikil peningaþurrð er á mörkuðum hér á landi. Með aðild Seðlabanka Íslands að samningnum hefði verið hægt að auka peningastreymið á mörkuðunum og um leið styrkja krónuna.

Sóttust eftir aðild

Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum vikum átt í viðræðum við Seðlabanka Bandaríkjanna og sóttist í þeim viðræðum eftir því að vera aðili að skiptasamningnum. Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri sagði í samtali við 24 stundir að Seðlabanka Bandaríkjanna hafi ekki þótt ástæður eða efni til að gera samning á þessu stigi við Seðlabanka Íslands en útilokaði ekki að slíkur samningur yrði gerður síðar ef aðstæður gæfu tilefni til. Bandaríski seðlabankinn hafi viljað leysa úr bráðaþörf fyrir Bandaríkjadali sem upp kom á millibankamörkuðum í viðkomandi löndum og það hafi verið mat hans að sama ætti ekki við hér á landi að sinni. Ingimundur hafnaði því alfarið að ástæðan hafi verið sú að bandaríska seðlabankanum hafi þótt slíkur samningur við íslenska Seðlabankann of áhættusamur eins og sterkur orðrómur var um í gær.
Í hnotskurn
Gjaldeyrisforði Íslendinga er að þrotum kominn og benda sérfræðingar á að verði ekkert að gert muni atvinnulífið þjást. Varagjaldeyrisforði Seðlabankans er um 500 milljarðar króna. Greiningardeild Kaupþings benti á í Hálffimmfréttum sínum í gær að lausafjárkreppa væri á erlendum mörkuðum og nú væri nauðsynlegt að Seðlabankinn brygðist við.