Fyrirlestur Sigurður Líndal.
Fyrirlestur Sigurður Líndal. — Ljósmynd/Birna Konráðsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Birnu G. Konráðsdóttur Reykholt | Pólitískar hugmyndir Snorra Sturlusonar byggðust meðal annars á einstaklingshyggju, lægri sköttum og minna konungsvaldi.

Eftir Birnu G. Konráðsdóttur

Reykholt | Pólitískar hugmyndir Snorra Sturlusonar byggðust meðal annars á einstaklingshyggju, lægri sköttum og minna konungsvaldi. Þetta sagði Sigurður Líndal, prófessor við Viðskiptaháskólann á Bifröst í fyrirlestri í Reykholti, en fyrirlesturinn er í röð minningarfyrirlestra um Snorra. Fullt var út úr dyrum í Snorrastofu í Reykholti.

Hann fjallaði um stjórnspeki Snorra, eins og hún birtist í Heimskringlu. Stjórnspeki er í raun annað heiti á pólitískum hugmyndum. Sigurður taldi að samkvæmt Heimskringlu hefði Snorri verið einstaklingshyggjumaður sem var á móti öflugu konungsdæmi og skattálögum.

Sigurður útskýrði þær væringar sem voru í Evrópu á tímum Snorra, en margt var að breytast og menn misánægðir með þær. Sigurður gengur út frá því að Snorri Sturluson sé höfundur Heimskringlu og þar birtist því pólitískar skoðanir hans.

Allir eru bundnir af lögum

Snorri aðhylltist þá stefnu að einstaklingurinn hefði frelsi til athafna innan marka laganna og vildi geta beitt mótstöðurétti ef nauðsyn bæri til. Allir væru bundnir af lögum, kóngar jafnt sem kotkarlar og þjóðhöfðingjar ættu því ekki að vera rétthærri hinum almenna íbúa. Snorri var því að mörgu leyti einstaklingshyggjumaður og á móti mörgum af þeim breytingum sem voru að ryðja sér til rúms í lagaumhverfi heimsins. Mörg dæmi eru um það í Heimskringlu, að mati Sigurðar, að Snorri Sturluson var hlynntur fornu lögunum. Hann vildi ekki of öflugt konungdæmi eða skattaálögur. Það væri hægt að gefa konungum gjafir, en þá réði gefandinn hvað og hversu mikið væri gefið. Frjáls maður gæfi gjöf, ánauðugur greiddi skatta. Snorri er tortrygginn gagnvart konungsvaldinu sem hann taldi geta leitt til ofríkis. Hann hampar því hinum gömlu góðu konungum í Heimskringlu, hinu forna konungsvaldi. Með því gefur hann til kynna andstöðu sína við það formi sem var að ryðja sér til rúms, þrátt fyrir að vera hirðmaður konungs.

Spurður um þetta efni sagði Sigurður að Snorri hefði vel getað stutt konung þótt hann væri á móti nýjum straumum. Það hefði ekkert verið öðruvísi í pólitíkinni þá en nú; menn væru í sama stjórnmálaflokki þótt þeir væru ekki um allt sammála. Hann hefði þó gagnrýnt Hákon konung í Noregi, sem á þessum tíma seildist mjög til valda á Íslandi. Spyrja mætti hvort það jafngilti pólitísku sjálfsmorði. Það væri alla vega furðu djarft í ljósi allra aðstæðna á þessum tíma og gæti hafa leitt til þess að Snorri var höggvinn í Reykholti 23. september 1241.

Snorri í Sjálfstæðisflokknum?

ÞAÐ má draga þá ályktun af fyrirlestri Sigurðar Líndal að Snorri Sturluson, einn frægasti íbúi Reykholts í Borgarfirði, hefði líklega verið í Sjálfstæðisflokknum ef hann væri uppi í dag. Hann er hlynntur frelsi einstaklingsins til valda og athafna og vill ekki of mikil afskipti æðstu stjórnvalda. Hann hræðist einnig auknar skattaálögur ef vald þjóðhöfðinga yrði of mikið, ásamt því að vera fastheldinn á ríkjandi ástand í þjóðfélaginu sem honum hugnaðist vel.