Guðlaugur G. Sverrisson
Guðlaugur G. Sverrisson
Guðlaugur G. Sverrisson fjallar um málefni OR: "Þessi samþykkt sýnir þá sátt sem stjórn er að ná um störf sín. Ákveðið var að breyta REI í fjárfestingarsjóð með aðkomu fagfjárfesta ásamt almenningi"
STJÓRNARFUNDUR Orkuveitunnar haldinn föstudaginn 19. september s.l. var tímamótafundur. Stjórn OR samþykkti einróma að ráða Hjörleif B. Kvaran sem næsta forstjóra OR. Ég tel það vera heillaspor fyrir Orkuveituna að fá jafn reynslumikinn mann og Hjörleifur er til starfans. Hann hefur sýnt það á erfiðum tímum við stjórn OR að hann er traustsins verður og mun aðstoða samstillta stjórn OR við að uppfylla sýn Orkuveitu Reykjavíkur um að vera uppspretta lífsgæða fyrir eigendur sína, nú sem endranær. Annað mál var til lykta leitt. Málefni REI fengu farsælan endi með samþykki allra stjórnarmanna. Eitthvað sem ekki var líklegt fyrir nokkrum misserum síðan. Þessi samþykkt sýnir þá sátt sem stjórn er að ná um störf sín. Ákveðið var að breyta REI í opinn fjárfestingarsjóð með aðkomu fagfjárfesta ásamt almenningi í tilgreind verkefni á vegum REI. Ráðgjafarnefnd sem er óháð starfsemi REI og OR mun útfæra væntanlega framtíðarstarfsemi REI og hvernig staðið verður að aðkomu fjárfesta í verkefni á vegum REI. Að mínu mati er það nauðsynlegt fyrir OR að taka þátt í verkefnum á erlendri grund. Það skapar sérfræðingum og öðrum starfsmönnum OR/REI tækifæri til að þróast í starfi og auka þar með líkur á því að þeir festi framtíð sína hjá OR. Á sama fundi var ákveðið að ganga til samninga við fjármálaráðuneytið um kaup Orkuveitunnar á 20% hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Deilur hafa staðið lengi um kaupverð á hlut ríkisins í HAB, og hefur OR allt frá árinu 2002 reynt að fá þennan hlut keyptan. Með kaupum OR á hlut ríkisins verður farið hraðar í endurnýjun og viðhald veitunnar, en það verður að gerast, til að koma í veg fyrir að takmarka þurfi heitavatnsnotkun í Borgarbyggð og Akranesi, líkt og gerðist í febrúar á liðnum vetri. Þá þurfti að loka sundlaugum og skerða heitt vatn til stórnotenda. Þetta var því gleðidagur fyrir okkar ágætu meðeigendur á Vesturlandi. Næsta mál stjórnar er að fara í það verkefni að vinna að stefnumótun OR. Hún á að leiða stjórn og starfsmenn saman, til að auka veg og styrk Orkuveitunnar til að standa undir þeirri grunnstarfsemi að tryggja eigendum sínum heitt og kalt vatn, rafmagn og að koma frárennsli skolplagna frá íbúum á haf út á umhverfisvænan hátt. Starfsmenn Orkuveitunnar hafa sýnt það í gegnum árin að þeim er vel treystandi fyrir þessari þjónustu, því afhendingaröryggi á heitu og köldu vatni ásamt rafmagni er einstakt. Það er á þessari góðu reynslu starfsmanna sem uppbygging Orkuveitunnar mun byggjast til næstu framtíðar.

Höfundur er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur

Höf.: Guðlaugur G. Sverrisson fjallar um málefni OR