Flókið og farsælt líf Þóru Sigurðardóttir rithöfund þekkja margir sem barnagæluna Birtu úr Stundinni okkar.
Flókið og farsælt líf Þóru Sigurðardóttir rithöfund þekkja margir sem barnagæluna Birtu úr Stundinni okkar. — 24 stundir/Valdís Thor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig fer saman borðbúnaðarblæti og meint vanhæfni í matargerð? Hvað eiga japanskar konur og íslenskir karlmenn sameiginlegt? Og hvers vegna ræðst Þjóðskrá á víðförlar, giftar konur fremur en bankastjóra?

Hvernig fer saman borðbúnaðarblæti og meint vanhæfni í matargerð? Hvað eiga japanskar konur og íslenskir karlmenn sameiginlegt? Og hvers vegna ræðst Þjóðskrá á víðförlar, giftar konur fremur en bankastjóra? Þóra Sigurðardóttir veit allt um það og ræðir að auki útgáfu bókarinnar Japanskar konur hraustar og grannar.

Eftir Kristjönu Guðbrandsd.

dista@24stundir.is

Þóra og Völundur Snær giftu sig með pomp og prakt árið 2006 og eignuðust frumburð sinn, soninn Baldvin Snæ, í sumar. Þau eiga heimili á Bahamaeyjum og á Íslandi og hafa bæði tvö í nógu að snúast. Þóra í ritstörfum og Völundur, eða Völli Snær eins og hann er oftast kallaður, í veitingarekstri á Bahamaeyjum. Líf þeirra myndi mörgum finnast flókið en farsælt og sneisafullt af ævintýrum. En hvers vegna kýs Þóra að búa hér á landi bróðurpart ársins?

„Ég hef alltaf haft íbúð hér og maðurinn minn, Völli, hefur búið úti á Bahamaeyjum í meira en átta ár. Hjónalífið er svolítið flókið en gengur fyllilega upp okkar á milli. Ég vinn á Íslandi og dvel hér góðan part úr árinu og fer svo út til Völla og er með honum hinn helminginn af árinu. Hér á ég mér líf, vini og starf sem ég kýs að yfirgefa ekki þótt ég sé gift kona. Ég kýs að lifa bæði hér á landi og hjá Völla mínum á Bahamaeyjum og það er leitt að segja frá því að svo virðist sem þetta val mitt fari ekki saman við íslensk lög.“

Hent úr landi?

Þóra segir flakkið farsæla ekki fara saman við lög um gifta einstaklinga. „Ég uppfylli öll búsetuskilyrði en Þjóðskrá vill, þrátt fyrir allt saman, henda mér úr landi á þeirri forsendu að ég sé gift og við Völli eigum að eiga saman lögheimili í sama landi. Þeir létu mig í friði þegar ég kom heim til að eignast barn en ég fæ ekki frið lengur þannig að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að skilja til að ég missi ekki lögheimili mitt hér.“ Þóra útskýrir að hún hafi aldrei orðið sér úti um dvalarleyfi á Bahamaeyjum. „Mér finnst mjög skrýtið að það sé hægt að henda mér úr landi þegar ég uppfylli öll búsetuskilyrði, bara út af því að ég er gift. Hvað sagði ónefndur bankastjóri um ferðalög sín vegna starfsins? Sagðist hann ekki dvelja erlendis um 280 nætur á ári? Ekki er Þjóðskrá að ráðast á hann! Þetta er kerfisvilla finnst mér, gamaldags sjónarmið ráða för. Ef þetta fer eitthvað lengra þá verður þetta kærumál, það er ekki spurning.“

Lífið á Bahamaeyjum

Þóra segir auðvitað vera mikinn mun á því lífi sem hún lifir á Bahamaeyjum og á Framnesveginum í Reykjavík.

„Sólríkt veðrið á Bahamaeyjum gefur mér frjálsræði. Hér heima getur veður oft bundið og takmarkað mann. Þegar ég er hjá Völla á Bahamaeyjum vakna ég af einhverjum ástæðum miklu fyrr á morgnana en hér heima. Ég stekk úr rúminu um sex-, sjöleytið, en hér á ég erfitt með að vakna. Kannski er það veðrið. Ég veit ekki hvað það er. Á morgnana förum við Völli yfirleitt með hundana okkar saman í gönguferð niður á strönd. Hann heldur síðan í sína vinnu og ég heim til að skrifa. Þrátt fyrir að ég skrifi linnulaust þá vinnum við Völli líka saman að alls kyns verkefnum og ég aðstoða hann líka við veitingareksturinn.

Hann vinnur mikið, kvölds og morgna, því þetta er krefjandi rekstur sem hann er í. Við eigum þó alltaf okkar tíma saman á milli fjögur og sjö á daginn. Þá tökum við frídaga þar sem við förum út á bát og veiðum allan daginn eða lendum í öðrum ævintýrum sem nóg er af á Bahamaeyjum.“

En fer Íslendingi að leiðast lognmolla og eilíf sól?

„Ekki mér,“ svarar Þóra. „Ekki ennþá að minnsta kosti,“ bætir hún við en hún segir Völla elska verstu veður. „Völli er búinn að vera úti svo lengi og ég held að eftir langan tíma í endalausu góðu veðri fái Íslendingurinn upp í kok. Ég stend mitt á milli og geri mér fyllilega grein fyrir þeim forréttindum sem fylgja því að flakka á milli Íslands og Bahamaeyja.“

Blaðamaður vill forvitnast um hvort alltaf séu stíliseraðar glæsimáltíðir á borðum þeirra hjóna.

„Völli getur ekki og kann ekki að elda vondan mat,“ segir Þóra. „En hjá okkur er samt oft heimilislegur bragur. Völla finnst hafragrautur til dæmis afar góður og fær sér hann oft og ég þarf enga tilburði í matargerð enda algerlega vanhæf í henni sjálf. Ég skil ekki fólk sem getur opnað ísskáp og úr því sem er til getur það búið eitthvert voða „fússí fú“. Sumt fólk getur þetta, annað ekki. Ég er ein af þeim sem er það ómögulegt. Það er reyndar þess vegna sem ég varð svo afskaplega hrifin af bókinni sem ég endaði á að þýða; Japanskar konur hraustar og grannar, því fæðið er einfalt og auðvelt að útbúa eftir fyrirmælum höfundsins Naomi Moriyama. Ég þarf slíkar leiðbeiningar því ég kann til dæmis ekki að smakka til mat eða treysta á innsæið í matargerðinni.“

Óhóf í vestrænum heimi

Þóra segir bókina eftir Naomi Moriyama og eiginmann hennar William Doyle fjalla um af hverju fólkið í Japan lifi lengur en annars staðar í veröldinni og af hverju konur þar séu grennri og unglegri.

„Naomi Moriyama, höfundur bókarinnar, ólst upp í Tókýó en flutti fyrst allra í fjölskyldunni frá heimahögunum til Bandaríkjanna til náms. Meðan á dvöl hennar stóð hlóðust á hana aukakíló,“ segir Þóra. „Fyrsta áfallið fékk hún strax fyrsta morguninn á heimavist háskólans í Bandaríkjunum. Hún gekk inn í matsalinn og í staðinn fyrir þessa hófsemi sem einkennir japanskt mataræði þá sér hún fólk drekkja pönnukökum í sírópi, þvílíka ofgnótt matar og allir drekka úr lítrakönnum. Þrátt fyrir menningarsjokkið aðlagaðist hún fljótt þessari nýju og ókunnu matarmenningu og fljótt fóru aukakílóin að hlaðast á hana svo um munaði. Þegar hún kemur heim til fjölskyldu sinnar í Tókýó er hreinlega híað á hana svona feita á flugvellinum.“

Engir risaskammtar

„Naomi fer aftur að borða mat móður sinnar í Tókýó sem er svo sannarlega meistari í matargerð og með mat á heilanum. Svona pínulítil kona sem maður sér fyrir sér eins og hún sé í sprettgöngu á Ólympíuleikunum með fangið fullt af uppskriftum. Móðir Naomi er enda uppspretta þeirra uppskrifta og fróðleiksmola sem finna má í bókinni, meinhollra, einfaldra og fallegra. Hún er sífellt að senda henni uppskriftir, meira segja á faxi með útskýringarmyndum!

Síðan gerist það eftir mánaðarlanga dvöl í Tókýó að kílóin byrja að hrynja af Naomi sem gerir það að verkum að hún fer að íhuga lífsstíl sinn. Hún og maður hennar ákveða bæði að aðlaga japanskan lífsstíl að vestrænum lifnaðarháttum sínum og árangurinn lét ekki á sér standa. Þau eru bæði grönn og hraust í dag en maðurinn hennar var kominn í ofþyngd.“

Þóra segir enga fórn fylgja því að taka upp japanskt mataræði. „Þú mátt bara borða það sem þér sýnist, hafa gaman af og njóta þess að borða. Grundvallarreglurnar eru bara þær að þú borðar minna og hollara og alls ekki á handahlaupum. Japanar setjast niður og njóta máltíðarinnar. Samt ekki á þann hátt sem maður upplifir að franskir matgæðingar geri, þar sem borðhald fer fram með látum, söng og tali og einhverri nautnalegri ástríðu. Japanar eru öðruvísi, hjá þeim er borðhaldið næstum eins og innhverf íhugun og að auki skiptir útlit og framsetning matarins miklu máli. Máltíðir eru settar fram á mörgum litlum diskum og í skálum sem þeir velja oft í stíl við matinn sem þeir setja fram. Þannig er máltíðin fagurfræðileg upplifun líka. Skammtarnir eru einnig minni en við þekkjum í hinum vestræna heimi. Diskar og skammtar hafa stækkað mikið síðustu áratugi. Sumir vilja meina um allt að 25 prósent. Rannsóknir sýna að ekki skiptir öllu hvað þú borðar mikinn mat heldur hversu mikinn mat þú heldur að þú sért að borða. Ef þú notar minni diska þá borðar þú minna og þegar þú notar prjóna borðarðu líka á minni hraða sem gefur líkamanum tækifæri til að senda boð til heilans um að þú hafir fengið nægju þína.“

Borðbúnaðarblætið

Þóra segist hafa fengið dálæti á japönskum lífsstíl og matargerð af ýmsum ástæðum.

„Ég er með svona nett borðbúnaðarblæti þannig að mér finnst bara æðislegt að geta leikið mér að þessu. Ég er reyndar alveg rosalega vond í að halda matarboð,“ trúir hún blaðamanni fyrir. „Það vantar ekki viðleitnina, matarboðin eru alltaf falleg og fullkomin í huganum en þrátt fyrir allt saman hef ég í alvörunni haldið ljótustu matarboð sem um getur. Mér finnst það mjög leiðinlegt en svona er ég bara. Sem betur fer er bókin virkilega góð hækja fyrir fötlun mína því í henni eru afskaplega einfaldar uppskriftir með skýrum fyrirmælum og vel skilgreindum mælieiningum. Ég til dæmis get ekki skilið þegar fólk segir mér að setja smá skvettu af hinu eða þessu út í sósu. Hvað er skvetta mikið? Fyrir mér er það gersa mlega óskiljanlegt hugtak!“

Daðrað við svínabóg

Þóra segist eiga margar harmsögur um misheppnuð matarboð og tilburði í matargerð. „Ég get nefnt sem dæmi um fötlun mína að í vetur gerði ég einar 18 tilraunir til að búa til marengs og engin þeirra gekk upp. Hreinlega grátlegt var að horfa á hverja glæra og flata klessuna á eftir annarri liggja þarna á bökunargrindinni. Þá þóttist ég líka einu sinni hafa uppgötvað leynibragð listakokksins Nigellu. Það hlaut bara að gera útslagið hvað hún talaði fallega til matarins meðan hún var að útbúa hann. Þetta ætlaði ég að leika eftir og gerði tilraun til að daðra við svínabóg í potti. Þarna beið öll fjölskyldan spariklædd eftir kræsingunum og ég get varla lýst svipnum á þeim þegar dýrindis svínabógurinn var tekinn úr ofninum öllum til hryllings. Svo smakkaðist hann hræðilega illa. Hann var svo vondur að það fóru allir að hlæja.“

Þóra gefur hér að neðan uppskrift úr bókinni og upplýsir að verslunin Asian muni selja aðföng til matargerðarinnar og halda námskeið svo matgæðingum farnist vel japanska matseldin.