Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson
Eftir Björgvin G. Sigurðsson: "Valkostirnir eru aðeins tveir, annaðhvort höldum við fast og óhikað við markaða peningastefnu og íslensku krónuna eða setjum stefnuna með afgerandi hætti á aðild að ESB og í kjölfarið EMU."

EVRA á Íslandi – hvenær og hvernig var yfirskrift ráðstefnu sem viðskiptaráðuneytið stóð að í vikunni ásamt HR og Háskólanum á Bifröst. Þar voru kynntar rannsóknir fjögurra háskólastofnana á umfangi og áhrifum svokallaðrar evruvæðingar, eða sjálfkrafa upptöku evru og annarrar erlendrar myntar á Íslandi. Þar kom margt afar athyglisvert fram sem snertir grundvallaratriði í þessari umræðu og er fræðilegt innlegg í mikilvægustu stjórnmálaumræðu dagsins í dag og næstu missera.

Opin og upplýsandi umræða um framtíðarfyrirkomulag peningamálastefnunnar og gjaldmiðilsins er mikilvæg. Fyrst og fremst skiptir hún máli þegar horft er til lengri tíma í efnahagslegu tilliti. Helstu kostir og gallar þess að taka upp evru á Íslandi snúa að langtímahagsmunum þó að umræðan verði ágengari þegar þrengir að í þjóðarbúinu. Það er þó augljóst að skýr stefna til framtíðar er nauðsynlegur þáttur í að ná sem fyrst jafnvægi í efnahagsmálum. Evruumræðan snýst því bæði um langtíma og skammtíma hagsmuni og ómögulegt er að skilja þar á milli með rökrænum hætti.

Engin evra án aðildar

Vikan sem nú er að líða undir lok var einstaklega tíðindamikil í þessari umræðu og varðaði mikilvæga áfanga í þróun umræðunnar. Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrir réttri viku komu fram afar skýr sjónarmið framkvæmdastjóra stærstu samtaka launþega og vinnuveitenda. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Gylfi Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, fóru þar hörðum orðum um núverandi peningamálastefnu og töldu einboðið að Íslendingar leituðu leiða til að taka upp evru sem mynt með formlegum hætti, með tvíhliða samningi við eða aukaaðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópusambandsins (EMU).

Ljóst er að margir eru á sama máli enda var megintilgangur ferðar hinna tvíhöfða Evrópunefndar að kanna lagalegar og pólitískar forsendur slíkrar aukaaðildar. Ferð nefndarinnar var mikilvæg og árangursrík að því marki að skýr svör bárust við þeim vangaveltum, hvort Ísland gæti tengst EMU með einum eða öðrum hætti. Joaquín Almunia, sem fer fyrir peningastefnu- og efnahagsmálum í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) svaraði spurningum íslensku sendinefndarinnar skýrt og greinilega, að lagalega væri ekki svigrúm innan sáttmála ESB að Ísland tæki upp evruna nema í kjölfar aðildar að ESB.

Ýmsir hafa gælt við þann möguleika að hægt væri að komast að annarri niðurstöðu á pólitískum vettvangi. Það er þó hæpið að gefa sér að svo djúp gjá sé á milli framkvæmdastjórnar ESB og forystumanna Evrópuríkjanna sem skipa ráðherraráðið að niðurstaðan verði önnur á síðarnefnda vettvanginum. Því síður að til staðar sé nægur pólitískur vilji til að breyta sáttmála ESB svo Íslandi geti gerst aðili að ESB á grundvelli EES-samningsins.

Einhliða upptaka evru er óraunhæf, nema sem tímabundin aðlögun að aðild að ESB og EMU. Af þeim sökum er umræðan enn á ný stödd á krossgötum. Valkostirnir eru aðeins tveir, annaðhvort höldum við fast og óhikað við markaða peningastefnu og íslensku krónuna eða setjum stefnuna með afgerandi hætti á aðild að ESB og í kjölfarið EMU.

Af-evruvæðing eða full evruvæðing

Enn öðrum áfanga í evruumræðunni var náð á þriðjudaginn var þegar kynntar voru rannsóknir fjögurra háskólastofnana á umfangi og áhrifum af svokallaðri evruvæðingu, eða sjálfkrafa upptöku evru og annarrar erlendrar myntar á Íslandi. Í janúar síðastliðnum ákvað viðskiptaráðuneytið að styrkja háskólastofnanirnar fjórar til rannsókna á þessu fyrirbæri og var afraksturinn kynntur á vel sóttri ráðstefnu sem ráðuneytið hélt í samstarfi við Háskólana á Bifröst og í Reykjavík.

Mikill samhljómur var í máli Friðriks Más Baldurssonar, Eiríks Bergmanns Einarssonar og Emils B. Karlssonar sem allir fjölluðu um ofangreint viðfangsefni frá ólíkum hliðum.

Að mati Friðriks Más og Richard Portes meðhöfundar hans eru valkostirnir í raun aðeins tveir. Annaðhvort af-evruvæðing hagkerfisins eða full evruvæðing þess með upptöku evru sem myntar. Óbreytt stefna sem hægt og bítandi hefur leitt til aukinnar notkunar erlendra gjaldmiðla á fjármagnsmarkaði, vinnumarkaði og vörumarkaði, sé til þess gerð að grafa undan fjármálastöðugleika og skapa frekari óstöðugleika í þjóðarbúskapnum.

Af-evruvæðing felur í sér að undið sé ofan af lántökum í erlendri mynt, auknar öryggiskröfur gerðar vegna lánveitinga til innlendra aðila í erlendri mynt og aðskilinn innlendi og erlendi hluti viðskipta bankanna. Að mati Friðriks Más og Richard Portes myndu slíkar takmarkanir á markaðshegðun bankanna að öllum líkindum fæla þá frá landinu. Niðurstaðan yrði því með öðrum orðum á þá leið að stór hluti bankakerfisins yrði í raun sendur úr landi. Slíkar ráðstafanir myndu þar með draga tennurnar úr atvinnugrein sem nú stendur undir tíunda hluta verðmætasköpunarinnar. Niðurstaða fræðimannanna er því ótvírætt sú að út frá sjónarmiði fjármálastöðugleika sé full aðild að EMU vænlegasta leiðin.

Eiríkur Bergmann taldi að evruvæðing væri óheppilegasti kosturinn í peningamálum, að í henni fælust flestir gallar upptöku evru en án ávinnings af EMU aðild og tók Emil í svipaðan streng.

Auk þeirra þriggja hélt Peter Dyrberg, forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar HR, erindi um lagalega færar leiðir til tengingar Íslands við evru. Niðurstaða hans var mjög skýr og á sömu lund og skilaboð Joaquín Almunia degi síðar. Ekki er lagaleg stoð í sáttmála sambandsins til upptöku evru án aðildar að ESB.

Lærdómur vikunnar

Lærdómur vikunnar er skýr og á að leiða okkur áfram í umræðunni um framtíðarfyrirkomulag peningamála. Í fyrsta lagi er ljóst að fyrir því eru alvarlegar lagalegar hindranir að Íslandi bindist EMU án aðildar að ESB. Teljast verður nær útilokað svo víðtæk pólitísk samstaða geti myndast innan ráðherraráðs ESB að sáttmála Evrópusambandsins verði breytt í þágu Íslands. Sérstaklega ef fyrir liggur að Íslendingar kæra sig ekki um fulla aðild að Evrópusambandinu.

Í öðru lagi eru sterkar vísbendingar um að hægt og bítandi sé Ísland að færast í átt að evruvæðingu sem getur haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar. Fræðimenn hafa haft uppi alvarleg varnaðarorð og hvatt stjórnvöld til að taka af skarið áfram eða aftur á bak.

Það er ábyrgðarhluti að stuðla að óbreyttu ástandi þegar í því felast stórar hættur og mikilvægt að mörkuð verði skýr stefna til framtíðar. Það er ekki aðeins gert til að skapa framtíðarhagvaxtarskilyrði heldur einnig til að lægja öldur í efnahagslífinu nú, því óvissa um framtíðarfyrirkomulag í peningamálum fælir fjárfesta frá landinu.

Á fyrrnefndum flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar átti Jónas Haralz, fyrrverandi bankastjóri, líklegast kollgátuna um hvaða skref ber að taka. Að hans mati er eina leiðin til að ganga úr skugga um hvað í aðild að Evrópusambandinu felst að hefja aðildarviðræður. Ef samningsniðurstaðan verður slíkum annmörkum háð að þjóðin sættir sig ekki við, þá og fyrst þá er eðlilegt að leita sérstakrar úrlausnar fyrir Ísland um aðild að EMU án fullrar aðildar að sambandinu.

Höfundur er viðskiptaráðherra.

Höf.: Björgvin G. Sigurðsson