Horft til austurs Efnismikill kjóll frá Roberto Cavalli sem alla jafna sýnir meira af kvenlíkamanum.
Horft til austurs Efnismikill kjóll frá Roberto Cavalli sem alla jafna sýnir meira af kvenlíkamanum. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur annaei@mbl.is Efnismiklir og víðir síðkjólar sáust víða á sýningarpöllum fatahönnuðanna sem sýndu vor- og sumarlínu sína fyrir árið 2009 í Mílanó í vikunni.

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is

Efnismiklir og víðir síðkjólar sáust víða á sýningarpöllum fatahönnuðanna sem sýndu vor- og sumarlínu sína fyrir árið 2009 í Mílanó í vikunni. Gucci, Roberto Cavalli, Salvatore Ferregamo og D&G-línan þeirra Domenico Dolce og Stefano Gabbana – á öllum þessum sýningum mátti sjá kjóla sem námu við háls, ökkla og jafnvel úlnlið. Engin holdasýning þar á ferð. Og það frá tískuhúsum sem alla jafna gera sér meiri mat úr lögulegum línum kvenlíkamans. Það er ekki laust við að hugsun um kreppu skjóti upp kollinum. Því þótt vestrænir tískufíklar dragi saman eyðsluseglin, þá er aldrei að vita nema pyngjur austrænna auðmanna standi enn opnar!

Pínupils og aðsniðnar línur voru vissulega enn á sínum stað enda horft til sólríkrar sumartíðar, en settlegheit og efnismeiri klæði settu samt skemmtilegan svip á sýningarnar. Hjá Emporio Armani voru stuttbuxur t.d. settar yfir síðbuxurnar á meðan að í D&G-línunni voru stuttbuxur, sundföt og ýmis annar sumarfatnaður hafður í síðari kantinum – allt í anda strandlífsins á fyrstu áratugum síðustu aldar. Með nostalgíu þeirrar strandstemningar í huga er svo ekki annað að gera en að skella á sig sundhettunni, grípa strandboltann og grípa svo andann á lofti þegar fyrstu sundtökin eru tekin í köldum sjó.