Þórir Karl Jónasson
Þórir Karl Jónasson
Þórir Karl Jónasson skrifar um kjör aldraðra og öryrkja: "Margir hjartasjúklingar fá ekki lyf sín niðurgreidd eins og var og hefur lyfjakostnaðurinn hækkað gífurlega, samhliða öðrum skerðingum."

ÞAÐ er merkilegt hvað íslenskir kjósendur láta stjórnmálamenn komast upp með.

Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn frá 1991-1995, en þá sagði hún af sér áður en kjörtímabilinu lauk og sagði: „Minn tími mun koma.“

Þessi sama Jóhanna er búin að vera ráðherra félags- og tryggingamála síðan á vormánuðum 2007, í núverandi ríkisstjórn. Þá var hún búin að vera í stjórnarandstöðu síðan 1995 og „predika“ um bætt kjör lífeyrisþega. Hún marghrósaði þeim opinberlega sem börðust fyrir því að lífeyrissjóðirnir mundu ekki skerða kjör öryrkja, frá og með 1. desember 2007. Hún sagði að Tryggingastofnum í hennar umboði myndi bæta kjör öryrkja ef skerðingarnar kæmu til framkvæmda. Við það hefur ekki verið staðið frekar en svo margt annað. Það voru um það bil 2.000 öryrkjar skertir af sínum sjóðum frá og með 1. des. 2007, allt frá 10 þús. til 50-60 þús. á mánuði. Ég veit ekki til þess að neinn öryrki hafi fengið skerðinguna bætta af TR eins og ráðherra lofaði. Að undanförnu hafa verið auglýsingar frá TR. Að lífeyrisþegar ættu kynna sér réttarbætur og aukin réttindi frá og með 1. júlí sl. Ég hef hvergi séð þær réttarbætur. Aðstoðarmaður ráðherra hefur skrifað greinar að undanförnu um bætt kjör öryrkja og hvað Jóhanna væri búin að bæta þau mikið síðan hún varð ráðherra aftur. Fólki sem er í opinberum embættum ber skylda til þess að segja satt og rétt frá. Það eina sem ég hef orðið var við síðan Jóhanna varð ráðherra aftur eru skerðingar og aftur skerðingar. T.d. þeir sem eru með sykursýki 2 fá nú eingöngu 300 strimla á ári í sína mæla endurgreidda af TR, en þeim er gert að mæla sig minnst einu sinni á dag til að fylgjast betur með sjúkdómnum. Ég hélt að það væru 365 dagar í árinu!

Margir hjartasjúklingar fá ekki lyf sín niðurgreidd eins og var og hefur lyfjakostnaðurinn aukist gífurlega, samhliða öðrum skerðingum. Margt af þessu fólki er búið að skila sínu til samfélagsins og fær ekki starfslokasamninga upp á tugi milljóna frá fyrirtækjum sem voru okkar eign. Er þetta sanngjarnt? Ég veit með sjálfan mig að ég fékk 900 kr. hækkun 1. apríl frá TR, sem ég hélt að væri „aprílgabb“ en svo reyndist ekki vera. Þeir sem voru skertir af sínum lífeyrissjóðum geta lítið þakkað Jóhönnu Sigurðardóttur. Og þá ekki þeir sem hafa verið skertir af TR vegna lyfjakostnaðar. Það þýðir ekki fyrir Jóhönnu að fela sig á bak við það að TR var skipt upp í tvö ráðuneyti í tíð núverandi ríkisstjórnar og að lyfjamálin séu ekki á hennar hendi.

Það er mín skoðun og reyndar margra annarra að tími þeirra sem eru í núverandi ríkisstjórn sé liðinn. Ég vil skora á Jóhönnu Sigurðardóttur að segja af sér sem ráðherra. Hennar tími mun ekki koma. Hann er liðinn.

Höfundur er fv. formaður Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og stjórnarmaður í Sjálfsbjörg Lfs.