ÍSLENSKA ríkið og Landsvirkjun hafa með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verið sýknuð af kröfu landeiganda við Þjórsá.

ÍSLENSKA ríkið og Landsvirkjun hafa með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verið sýknuð af kröfu landeiganda við Þjórsá. Þess var krafist að viðurkennt yrði að vatnsréttindi í landi Skálmholtshrauns, sem Títanfélagið afsalaði til ríkisins árið 1952, yrðu felld niður á grundvelli laga frá 1952 um lausn svonefndra ítaka í jörðum. Lögmenn landeiganda íhuga að áfrýja dóminum til Hæstaréttar og kæra þann hluta þess sem vísað var frá dómi. Til vara krafðist landeigandinn, Daniela Schmitz, viðurkenningar á því að hafa eignast að nýju vatnsréttindi Skálmholtshrauns fyrir hefð. Til þrautavara var krafist viðurkenningar á að vatnsréttindi ríkisins væru fallin niður fyrir vangeymslu og tómlæti en til þrautaþrautavara að vatnsréttindi ríkisins heimiluðu ekki virkjunaráform Landsvirkjunar. Á stefnandi land að Urriðafosslóni.

Voru ríkissjóður og Landsvirkjun sýknuð af aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu og þrautaþrautavarakröfu var vísað frá dómi, m.a. á þeim forsendum að landeigandinn ætti ekki aðild að þeim þætti málsins og um væri að ræða hugsanlega framtíðarnýtingu vatnsréttinda. Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Frávísunin kærð

Atli Gíslason er annar lögmanna landeigandans. Hann sagðist í samtali við Morgunblaðið eiga eftir að ræða við skjólstæðing sinn og fara betur yfir dóminn. Fyrstu viðbrögð sín væru vonbrigði með niðurstöðuna, ekki síst frávísunina sem væntanlega yrði kærð.

„Talað er í dóminum um hugsanleg framtíðaráform Landsvirkjunar. Það er nánast bjargföst vissa fyrir því að Landsvirkjun ætlar í þessar framkvæmdir. Stefnandinn á jörð sem liggur að Urriðafosslóninu, eða Heiðarlóninu, og land sem verður nokkrum metrum undir vatnsyfirborði lónsins. Það er mín skoðun að Hæstiréttur eigi að taka á málinu, það er bæði lögfræðilega, sagnfræðilega og pólitískt mjög áhugavert,“ segir Atli.

Þórður Bogason, lögmaður Landsvirkjunar, segir fullnaðarsigur hafa náðst og niðurstaðan sé mjög skýr. Dómurinn taki undir nánast öll sjónarmið hinna stefndu, m.a. um að lög frá 1952 um lausn ítaka í jörðum eigi ekki við um vatnsréttindi. Um þau réttindi sé fjallað í öðrum lögum. bjb@mbl.is