„ÉG hef nánast alltaf haldið upp á afmælið með svipuðum hætti enda er mikið afmælisfólk í fjölskyldunni,“ segir Helgi Pálsson rafiðnfræðingur sem fagnar 45 ára afmæli sínu í dag.

„ÉG hef nánast alltaf haldið upp á afmælið með svipuðum hætti enda er mikið afmælisfólk í fjölskyldunni,“ segir Helgi Pálsson rafiðnfræðingur sem fagnar 45 ára afmæli sínu í dag. Helgi er giftur Guðrúnu Þórarinsdóttur og eiga þau tvo syni, en hann ætlar að njóta dagsins með allri stórfjölskyldunni. „Við notum tækifærið til að hittast í afmælum og einhverjar veitingar verða á borðum.“

Helgi ákvað að söðla um starfsvettvang fyrir um áratug og útskrifaðist úr rafiðnfræði frá Tækniskóla Íslands árið 2000, en hafði þá lokið meistaranámi í rafvélavirkjun frá Iðnskólanum.

Honum er þó fleira til lista lagt því hann er mikill tónlistarunnandi, starfaði m.a. sem tónlistarkennari „í gamla daga“, og syngur jafnframt annan tenór í Karlakór Kjalarness. „Svo er ég reyndar líka að spila í Lúðrasveit Mosfellsbæjar núna, svaraði neyðarkalli þar þegar vantaði trompetleikara og ég held að ég hafi híft meðalaldurinn verulega upp,“ segir Helgi hlæjandi og útskýrir að flestir í sveitinni séu á aldrinum 12-20 ára. Hann lætur ekki þar við sitja heldur er að endurmennta sig til kennsluréttinda hjá Háskólanum á Akureyri. Þrátt fyrir annríkið ætlar hann að gefa sér tíma til að halda upp á afmælið í dag og fara með köku til vinnufélaganna á mánudag, en hana hyggst hann reyndar ekki baka sjálfur. „Nei, það er víst fullt af mönnum sem hafa lært það sérstaklega og ætli ég nýti mér þá ekki.“ una@mbl.is