[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is Komin er út hjá bókaútgáfunni Bjarti bókin Leitin að uppruna lífs eftir Guðmund Eggertsson.

Eftir Þröst Helgason

throstur@mbl.is

Komin er út hjá bókaútgáfunni Bjarti bókin Leitin að uppruna lífs eftir Guðmund Eggertsson. Lífið hefur að líkindum dafnað og þróast á jörðinni frá því skömmu eftir að hún varð fyrst byggileg fyrir tæplega fjórum milljörðum ára. Fjölbreytileiki lífsins er undraverður, en allt er það af sömu rót. Í þessari bók rekur Guðmundur Eggertsson sögu hugmynda um eðli lífs og uppruna frá því á fornöld til okkar tíma. Gerð er grein fyrir hugmyndum manna fyrr á öldum um sjálfkviknun lífs og sagt frá tilgátum um að líf hafi borist til jarðarinnar utan úr geimnum eða jafnvel verið flutt hingað af ásettu ráði. Fjallað er ítarlega um þær hugmyndir um uppruna lífs á frumjörð sem nú eru efst á baugi og loks sagt frá gömlum og nýjum hugmyndum um líf á öðrum hnöttum í okkar sólkerfi og annars staðar í alheimi.

Dr. Guðmundur Eggertsson hefur verið nefndur faðir erfðafræðinnar á Íslandi. Hann var um langt árabil prófessor í líffræði við Háskóla Ísland og er virtur fræðimaður á sínu sviði á alþjóðlegum vettvangi. Birst hefur fjöldi greina eftir Guðmund í íslenskum og erlendum tímaritum. Guðmundur er höfundur bókarinnar Líf af lífi. Gen, erfðir og erfðatækni .

Catherine Sanderson er bresk kona sem flutti til Parísar um tvítugt. Hún byrjaði að blogga í júlí 2004 og varð fljótt þekkt fyrir skemmtilegar frásagnir af Parísarlífi ungrar útivinnandi móður. Hulunni var svipt af Petite Anglaise þegar Catherine var rekin úr starfi vegna bloggsins, fór í mál við vinnuveitendur sína og fékk skaðabætur. Nú er komin út bókin Petite Anglaise sem er sönn lífsreynslusaga Catherine.

Frakkland var draumalandið hennar, París borg ástarinnar... en eftir tíu ár er Catherine orðin venjuleg úthverfahúsmóðir á þönum milli dagmóður og óspennandi skrifstofuvinnu og myndarlegi Frakkinn sem hún varð ástfangin af er vinnusjúklingur sem eyðir frístundunum fyrir framan sjónvarpið. Einn daginn ákveður hún að hrista ögn upp í gráum hversdagsleikanum og fara að blogga undir dulnefninu Petite Anglaise.

Í netheimum kynnist Catherine einhleypum Englendingi og fljótlega verður henni ljóst að hann er maðurinn sem hún hefur alltaf leitað að... Og allir lesendur bloggsins fylgjast spenntir með þegar hún lýsir eldheitu ástarsambandi þeirra af einstakri hreinskilni.

Bjarni Bernharður hefur sent frá sér nýja bók sem nefnist Kaleikur en þar fæst hann við spurninguna: Hvað er það að vera maður? Um er að ræða stutta sjálfsævisögulega texta þar sem Bjarni lýsir glímu sinni við geðræn vandamál.

Bjarni hefur allt frá 1975, er hann sendi frá sér ljóðabókina Upp og ofan, skrásett vegferð sína.

Elsku besti pabbi eftir Björk Bjarkadóttur er hliðstæða bókarinnar Mamma er best (2005) en nú segir frá pabba hennar Emelíu, sem er besti pabbi í heimi!