— 24 stundir/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Viggó I. Jónasson viggo@24stundir.is „Þetta er ný leið til að leyfa fólki að kortleggja persónuleika sinn, að komast að því hvert það er,“ segir Einar Sigvaldason, hugmyndasmiðurinn á bakvið samfélagsvefinn tellmetwin.

Eftir Viggó I. Jónasson

viggo@24stundir.is

„Þetta er ný leið til að leyfa fólki að kortleggja persónuleika sinn, að komast að því hvert það er,“ segir Einar Sigvaldason, hugmyndasmiðurinn á bakvið samfélagsvefinn tellmetwin.com, en svokölluð beta-útgáfa af þessum nýja vef fór í loftið í síðustu viku.

Vefurinn gengur út á að finna tvífara notenda vefjarins, hvar svo sem þeir fyrirfinnast í heiminum, en þá er síðan hægt að nýta til að auðvelda sér ýmsar af þeim ákvörðunum sem einstaklingar þurfa að taka í daglega lífinu. „Þegar þú ert búinn að finna tvífara þína í gegnum okkur þá notarðu þeirra prófíl til að velja í lífinu. Í stað þess að spyrja stelpuna á vídeóleigunni hvort þú eigir að sjá nýju myndina með Brad Pitt, þá spyrðu tvífara þinn því stelpan á vídeóleigunni mun líklega ekki hafa sama smekk og þú.“

Kortlagður persónuleiki

Einar segir að tvífarar notenda séu ekki valdir af handahófi heldur gangist fólk undir allskonar próf til að tryggja það að réttir tvífarar finnist.

„Annars vegar tekur fólk persónuleikapróf sem segja því hvort það sé innhverft, áhættufíklar, skapandi, viðkvæmt og allt svoleiðis. Hins vegar leyfum við fólki að dæma hluti sem það elskar eða hatar. Þegar fólk er búið að kortleggja sjálft sig nokkuð vel þá finnum við fólk sem er eins og það.“

Hann bætir við að ekki einungis muni fólk geta fundið tvífara sinn í gegnum vefinn heldur muni það einnig geta fundið algjörar andstæður sínar, svokallaða illa tvíbura. Aðspurður segist Einar ekki útiloka þann möguleika að fólk geti, seinna meir, geta notað vefinn til að finna ástina.

Nægt pláss á vefnum

Tellmetwin.com fór í loftið fyrir um viku síðan og nú þegar eru notendur taldir í þúsundum. Einar segist ekki hafa áhyggjur af því að vefurinn nái sér ekki á strik sökum vinsælda vefja á borð við Facebook.

„Það er til fullt af stórum samfélögum þarna úti sem hafa blómstrað. Draumurinn er bara að láta þetta blómstra og hvað gerist svo, það kemur bara í ljós.“