Ég reyni yfirleitt að elda áður en ég verð svangur. Ef ég byrja ekki að elda fyrr en hungrið herðir að þá tek ég heimskulegar og örvæntingarfullar ákvarðanir og enda yfirleitt á að hita pylsur í örbylgjuofni og borða þær með gvakamóle og íssósu.

Ég reyni yfirleitt að elda áður en ég verð svangur. Ef ég byrja ekki að elda fyrr en hungrið herðir að þá tek ég heimskulegar og örvæntingarfullar ákvarðanir og enda yfirleitt á að hita pylsur í örbylgjuofni og borða þær með gvakamóle og íssósu. Það bregst ekki að ef maður ætlar sér að elda mat sársvangur þá er allt í einu ekkert til. Maður hefur ekkert hugmyndaflug og maður sér ekki hlutina skýrt. Það sama á við ef maður fer svangur að versla. Þá fyllist karfan ósjálfrátt af snakki, kexi og öðru drasli sem á það þó alltaf sameiginlegt að vera í litríkum og sniðugum umbúðum. Auk þess kaupi ég alltaf barbecue-sósu ef ég fer svangur að versla og í ísskápnum mínum eru nú þrjár slíkar flöskur. Og já! Ég ætla að líkja þessu við aðhaldsaðgerðir í efnahagsmálum. Það vita það allir skynsamir menn að mótvægisaðgerðir vegna þrenginga í efnahagsmálum eiga að hefjast áður en kreppan skellur á. Maður á að leggja fyrir og greiða niður skuldir á meðan maður getur það. Sumir vilja hins vegar skyndilausnir. Þeir vilja að ríkið reddi þessu með stýrivaxtafiffi, upptöku evru eða lántöku.

Það má vel vera að slíkar aðferðir geti skilað einhverju en ef þær eru teknar í flýti þá eru þær eins og örbylgjupitsa með barbecue-sósu. Eitthvað sem seðjar mesta hungrið en skilur þig eftir með óþægilegan magaverk og afganga í ísskápnum sem enginn vill sjá.