Mengun? Leiðir áherslan á gróðursetningu trjáa aðeins til þess að neytendur mengameira?
Mengun? Leiðir áherslan á gróðursetningu trjáa aðeins til þess að neytendur mengameira? — Morgunblaðið/Frikki
Eftir Guðna Elísson gudnieli@mbl.

Eftir Guðna Elísson

gudnieli@mbl.is

Forvitnilega ritdeilu hefur mátt finna á síðum Morgunblaðsins undanfarnar vikur, ekki síst fyrir þá sök að þar takast á fulltrúar frá Skógrækt ríkisins og Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem mætti ætla að væru samherjar í umhverfismálum.

Upphaf deilunnar má rekja til þess að Árni varaði við fullyrðingum sem komu fram í frétt Morgunblaðsins af fundi norrænna skógarmálaráðherra á Selfossi í ágúst. Þar var því haldið fram að aukin skógrækt væri „eitt öflugasta mótvægið gegn umhverfisvandamálum vegna loftslagshlýnunar“ ( Mbl . 21.8.). Í gagnrýni sinni ítrekaði Árni að skógrækt væri ekki af hinu slæma, en með tilliti til loftslagshlýnunar væri „hún afar þýðingarlítil [...] Trén hafa lítinn tíma til að laufgast og eru auk þess oft sett niður í jarðveg sem þegar er gróinn. Ef þú plægir upp mólendi þá losarðu ákveðinn koltvísýring og svo ætlarðu að binda hann aftur með því að setja niður einhverjar hríslur. Viðbótarbinding kolefnis verður þá svo lítil að ávinningurinn er sama og enginn“ ( Mbl . 30.8.). Leggur Árni til að fremur verði farið að fordæmi Norðmanna, en þeir verja háum fjármunum í verndun regnskóganna. Slíka „greiðslu megi líta á sem borgun fyrir þá þjónustu sem vistkerfi regnskóganna veiti lífkerfum jarðar“ svo vitnað sé í endursögn blaðamannsins.

Fulltrúar frá Skógrækt ríkisins brugðust skjótt við ábendingu Árna. Brynhildur Bjarnadóttir lýsti því yfir í viðtali að hún teldi „skógrækt á norðurhveli [...] tvímælalaust gott vopn í baráttunni gegn hlýnun jarðar“ þar sem rannsóknir sýndu að kolefnisbinding ykist samfara aukinni skógrækt ( Mbl . 1.9.). Undir þessi sjónarmið tekur leiðarahöfundur Morgunblaðsins daginn eftir ( Mbl . 2.9.) þó að sjónum sé fremur beint að atvinnuuppbyggingu í leiðaranum en þeirri spurningu sem Árni vakti máls á. Tæpum tveimur vikum síðar skrifa skógfræðingarnir Aðalsteinn Sigurgeirsson, Þorbergur Hjalti Jónsson og Þröstur Eysteinsson afar harðorða grein þar sem þeir ásaka Árna að því er virðist um ábyrgðar- og andvaraleysi og halda því fram að talsmenn „alþjóðlegra umhverfissamtaka“ hafi löngum „haft óbeit á bindingu kolefnis í skógi sem hluta af lausninni í loftslagsmálum“. Þeir telja ummæli Árna bera „nokkurn keim af því sem ýmsir aðrir landar vorir hafa stundum látið hafa eftir sér; að ekki skipti máli hvað Íslendingar aðhafast í loftslagsmálum [...]. Við séum ekki í aðstöðu til að hafa nokkur merkjanleg áhrif á hnattræna hlýnun þótt við rembdumst eins og rjúpan við staurinn. Því sé best fyrir okkur að aðhafast ekkert og láta aðra um þetta“ ( Mbl . 15.9.). Félagarnir láta ekki hér við sitja heldur ýja að því að Árni sé siðleysingi: „Það er siðlaust að þykjast vera umhverfissinni og benda á að aðrir eigi að leysa málið en gera ekkert sjálfur (á bæði við einstaklinga og þjóðir).“ Skógfræðingarnir ljúka grein sinni með því að segjast vera „áhugamenn um raunverulega náttúruvernd“ og freistandi er að túlka þau orð svo að annað megi segja um Árna Finnsson.

Gagnrýni Aðalsteins, Þorbergs og Þrastar hefur þó nánast ekkert með athugasemdir Árna að gera og útilokað er að túlka orð hans sem svo að hann hvetji Íslendinga til þess að halda að sér höndum í baráttunni við þá vá sem loftslagsbreytingar eru. Rök Árna eru fremur einföld. Hann leggur til að við öxlum ábyrgð á loftslagsbreytingum með því að styrkja verndun regnskóga fremur en að rækta skóg á Íslandi, en bætir við að mikilvægast sé þó að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, á meðan það sé ekki gert hafi „skógrækt lítið að segja“.

Í svargrein Árna degi síðar ( Mbl . 16.9.) ítrekar hann þessa skoðun. Ummæli hans í Morgunblaðinu hafi ekki beinst „gegn skógrækt heldur hinu að slík iðja verður tæplega réttlætt með baráttu við loftslagsbreytingar“. Næsta grein Aðalsteins, Þorbergs og Þrastar er áhugaverðari en hin fyrri því að þar er loks augum beint að ágreiningsatriðinu og reynt að svara þeirri fullyrðingu hvort skógrækt á Íslandi geti verið liður í baráttunni við loftslagsbreytingar. Þeir segja: „Miðað við meðal-bindingarhraða þarf skóggræðslu á 3-5% af flatarmáli Íslands til að ná markmiðum um 25-40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en á 12% flatarmálsins til að kolefnisjafna alla losunarheimild Íslands. Með öðrum orðum dugar skógrækt á rúmum þriðjungi af auðnum og mólendi neðan skógarmarka til að kolefnisjafna Ísland að fullu“ ( Mbl . 20.9.).

En leiðir skógrækt sjálfkrafa til kólnunar á veðurfari jarðar eins og ætla má af orðum þremenninganna? Það væri rangt að gera þeim félögum upp þá skoðun, sem stundum virðist ráðandi í atvinnulífinu að nóg sé að planta trjám og láta síðan náttúruna sjá um afganginn, því að þeir leggja áherslu á að „engin ein lausn“ dugi „við gróðurhúsaáhrifunum“. Eftir stendur þó spurningin hvort sú fullyrðing félaganna sé réttmæt að „hvert tonn af kolefni sem við bindum hér á Íslandi [sé] jafn gott fyrir andrúmsloftið og tonn sem bundið er við miðbaug“ ( Mbl . 15.9.).

Niðurstaða þekktrar rannsóknar sem loftslagsfræðingurinn Govindasamy Bala var í forsvari fyrir og birtist í PNAS árið 2007 („Combined climate and carbon-cycle effects of large-scale deforestation“) gengur þvert á fullyrðingar Aðalsteins, Þorbergs og Þrastar. Samkvæmt rannsókninni er skógrækt á norðurslóðum víðast hvar tímaeyðsla ef tilgangurinn er sá að draga úr hnattrænni hlýnun. Vísindamennirnir keyrðu ýmiss konar upplýsingar í gegnum þau flóknu tölvuforrit sem notuð eru til þess að spá um loftslagsbreytingar. Niðurstöðurnar voru á þann veg að umfangsmikil trjárækt skili aðeins tilætluðum árangri séu trén gróðursett í hitabeltinu. Ef skóginum sem þekur svæðið umhverfis miðbaug (frá 20. breiddarbaug í suðri til þess sama í norðri) væri eytt leiddi það til hlýnunar upp á 0,7 stig á Celsíus. Ef skógi á svæðunum milli 20. og 50. breiddarbaugs væri eytt yrðu áhrifin á hitastig nánast engin. Á þessu svæði jafnast kólnunin vegna kolefnisbindingarinnar út í þeirri hitaaukningu sem verður þegar dökkur litur trjánna gleypir í sig sólarljós. Norðan við 50. breiddarbaug myndi algjör eyðing á skóglendi aftur á móti kæla jörðina um 0,8 stig (PNAS, sjá töflu 2, síðu 6554).

Skógrækt á norðlægum svæðum hefur samkvæmt þessari rannsókn, og reyndar öðrum sem Bala hefur unnið að, þveröfug áhrif við það sem almennt hefur verið talið. Þrátt fyrir að skógar vinni gegn hlýnun loftslags með því að draga úr koltvíoxíði í andrúmsloftinu, og þrátt fyrir að skýjamyndun yfir skóglendi leggi sitt til með því að varpa geislum sólar aftur út í geim, er endurvarp sólarljóss frá skógunum sjálfum tiltölulega lítið, og því verður þar eftir meiri orka til að hita yfirborðið. Í viðtali við Jonathan Amos, vísindafréttamann BBC (15.12. 2006) segir Bala skóga við miðbaug binda kolefni og auka rakann í andrúmsloftinu, en eftir því sem norðar dragi verði áhrif dökkrar skógarþekju meiri uns þau vegi þyngra en sú kæling sem fæst með kolefnisbindingu og skýjamyndun. Þetta er ekki síst vegna þess að gróðurþekja skóglendis að vetrarlagi norðan og sunnan við 50. breiddarbaug er dekkri en á skóglausum svæðum þar sem snjór nær að þekja yfirborð jarðar og varpa sólarljósinu aftur út í geim. Sama dag (15.12. 2006) sagði prófessor Ken Caldeira, sem einnig vann að rannsókninni, í viðtali við enska blaðið Guardian að áherslan á gróðursetningu trjáa leiddi aðeins til þess að neytendur menguðu meira og mikilvægara væri að leita nýrra leiða í orkumálum þar sem áhersla væri lögð á endurnýjanlega orkugjafa.

Í mínum huga eru þetta fremur súr tíðindi ef sönn reynast, sér í lagi fyrir þau okkar sem á undanförnum árum hafa látið sig dreyma um fagra og víðáttumikla skóga á Íslandi. Bala slær þó þann varnagla að á afmörkuðum svæðum geti ákveðnar trjátegundir hugsanlega haft annars konar áhrif en heildarniðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna (PNAS, 6553-54) og það kann að vera að enn og aftur séu Íslendingar í sérstöðu þegar kemur að baráttunni við loftslagsbreytingar. Þó að landið liggi við heimskautsbaug eru vetur hér snjóléttir og það væri fyrst og fremst snjóhulan utan skammdegismánaðanna sem skipti máli. Halldór Björnsson, haf- og veðurfræðingur, útskýrði þetta svo fyrir mér:

Endurskinsferlið sem Bala lýsir virðast mér ekki vera sterk mótrök gegn skógrækt hér, það er ekki svo langur tími á hverju ári þar sem sólstyrkur og snæhula fer saman hér á landi, sérstaklega ekki á láglendi. Mér virðist þetta eiga frekar við á meginlöndum milli 50N og 60N þar sem skammdegið er styttra, en vetur mjög kaldir og snjóhula viðvarandi.

Halldór bendir einnig á að samkvæmt kenningu Bala skipti máli hvort yfirborðið sem ekki er snævi hulið sé ljóst eða dökkt. Þeim mun dekkra sem það er því minna máli skipta áhrifin sem Bala minnist á. Ef við tækjum t.d. svartan jökulsand og græddum upp yrði endurskinið frá skóginum meira en frá sandinum.

Bala og Halldór leggja báðir áherslu á mikilvægi skóglendis fyrir fjölskrúðugt dýralíf. Skógur veitir skjól, hann bindur jarðveg, hreinsar yfirborðsvatn og er um margt mikilvægur (sjá t.d. PNAS, 6554). Það eru því ýmis önnur rök en loftslagshlýnun fyrir því að rækta skóga. Því hefur Árni Finnsson heldur aldrei neitað.

Því ber einnig að halda til haga að í allri þessari deilu hefur enginn mótmælt þeirri fullyrðingu Árna Finnssonar að skógareyðing í hitabeltinu sé mikið vandamál og mikilvægt að hún sé stöðvuð með öllum ráðum.