Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is Þungarokkarar þessa heims vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið sumarið 1983. Það var engu líkara en þeir hefðu orðið undir steypusílói.

Eftir Orra Pál Ormarsson

orri@mbl.is

Þungarokkarar þessa heims vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið sumarið 1983. Það var engu líkara en þeir hefðu orðið undir steypusílói. Þessi ágæti söfnuður kallar svo sannarlega ekki allt ömmu sína en á frumburði kalifornísku keyrslusveitarinnar Metallica, Kill 'Em All , kvað við nýjan tón. Gefið var í botn.

„Við stungum græjunum bara í samband og reyndum svo að spila eins hratt og við gátum,“ var seinna haft eftir James Hetfield, gítarleikara og söngvara, í léttum dúr. En það var ekki bara keyrslan, melódíunni var líka til haga haldið, lagasmíðarnar lofuðu góðu og ljóst var að liðsmenn Metallica kunnu gripin sín. Þá þótti ágengur trumbusláttur Lars Ulrichs sæta tíðindum. Nýtt tjáningarform í rokki hafði litið dagsins ljós – þrass.

Kill 'Em All var hljóðrituð á tveimur vikum af litlum efnum vorið 1983. Nokkuð sem 'tallica-strákarnir myndu ekki láta bjóða sér í dag. Nú er nær lagi að hljóðversvinnan taki tvö ár. Skífan átti upphaflega að heita Metal Up Your Ass og hafði umslagið verið hannað, þar sem málmkuti stóð upp úr klósettskál. Maður herpist allur saman við tilhugsunina. Útgefandinn, Megaforce, lagðist hins vegar af hörku gegn þessum áformum og mun Cliff Burton bassaleikari hafa muldrað af því tilefni: „Let's Kill 'Em All.“ Þar með var málið dautt.

Auðvitað spratt Metallica ekki fram fullsköpuð á Kill 'Em All . Skárra væri það nú, einungis tveir sveitarmeðlimir af fjórum höfðu haldið upp á tvítugsafmælið sitt. En þetta var ágætis byrjun. Helstu vankantar voru sniðnir af stíl, söng og lagasmíðum á næstu plötu, Ride the Lightning (1984) og eftir það var Metallica reiðubúin að sigra heiminn, á Master of Puppets (1986) og ...And Justice For All (1988). Sem kunnugt er sér ekki fyrir endann á þeirri sigurgöngu. Nýjasta breiðskífa Metallica, Death Magnetic , hefur selst í bílförmum.

Enda þótt Kill 'Em All sé ungæðisleg á köflum leynast þar perlur inn á milli. Óvenju þroskaðar lagasmíðar, kraumandi af tilgangi. Besta dæmið um það er eitt besta lag sveitarinnar fyrr og síðar, The Four Horsemen. Í því ljóði leggur Hetfield, eins og stundum síðan, út af hinni helgu bók enda ólst hann upp á guðhræddu heimili. Líkast til nær glíma hans við hin kristnu fræði hámarki í laginu The God That Failed á Svörtu plötunni .

Lagið sjálft, The Four Horsemen, er þó í grunninn eftir Dave Mustaine gítarleikara, sem fleygt hafði verið frá borði nokkrum mánuðum áður, vegna sukks og fleðuláta. Kunni hann sínum gömlu félögum litlar þakkir fyrir að tefla laginu fram á plötunni og svaraði með því að flytja það í upprunalegum búningi á fyrstu breiðskífu sinnar nýju sveitar, Megadeth , undir heitinu Mechanix.

Kirk Hammett tók stöðu Mustaines í Metallica og varð það hans fyrsta verk að leika inn á Kill 'Em All , meðal annars sóló og frasa sem forveri hans hafði unnið að. Hefur Hammett allar götur síðan notið takmarkaðra vinsælda hjá Mustaine.

Fleiri lög sem eldast vel er að finna á Kill 'Em All , svo sem Seek & Destroy, sem aðdáendur Metallica heimta enn þann dag í dag að fá að heyra á hverjum einustu tónleikum, og No Remorse sem er löðrandi í stemningu. Þá eru þarna klassískir þrassslagarar (vek athygli á þremur samliggjandi essum í þessu orði) á borð við Hit the Lights, Motorbreath og Whiplash, þar sem yrkisefnið er lífsstíll rokkenda. Ekki má heldur gleyma bassasólóinu (Anesthesia) Pulling Teeth sem er glæstur minnisvarði um þann mikla listamann og góða dreng Cliff Burton.

Það er ekki ofsögum sagt að Kill 'Em All hafi valdið straumhvörfum í sögu þungarokksins og persónulega voru örlög mín ráðin – ég hafði verið tekinn í þrass!