Atli Heimir Sveinsson: Flautusónata; Fiðlusónata (frumfl.). Áshildur Haraldsdóttir flauta og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanó; Una Sveinbjarnardóttir fiðla og Wolfgang Kühnl píanó. Mánudaginn 22. september kl. 20.

ÞRIÐJU tónleikar ársins í tilefni sjötugsafmælis Atla Heimis Sveinssonar fóru fram á Kjarvalsstöðum við ágæta aðsókn undir yfirskriftinni „sónötur“. Eins og af uppruna ítalska orðsins leiðir, sonare = að hljóma (þ.e. úr hljóðfæri), var hvorugt verkanna heimfærandi upp á klassískt „sónötuform“ frekar en samnefnd verk seinni tíma, heldur horfið aftur til upphafsmerkingar þegar sónötur voru einfaldlega leiknar en kantötur sungnar.

Ég heyrði hér Flautusónötu Atla í þriðja sinn, eftir frumflutning Áshildar og Önnu Guðnýjar á Myrkum músíkdögum í Salnum 4.2. 2005 og í Þjóðleikhúsinu 13.5. 2007. Um skoðun annarra hlustenda veit ég ekki, en fyrir mína parta get ég ekki sagt að verkið hafi batnað að hlustvænleika við aðra endurheyrn. Enn sem fyrr fannst mér það allt of langt (38 mín.; að líkindum meðal lengstu verka í heimi fyrir þessa áhöfn) – sérstaklega miðað við einkennilega áhrifarýrt inntak og hugfengi. Jafnvel þótt heilir átta þættir ættu í fljótu bragði að geta tryggt næga fjölbreytni, þá dró sá fjöldi á móti úr auðheyranlegu samhengi. Þrátt fyrir augljósa færni og innlifun flytjenda hélt verkið því ekki athygli manns sem skyldi, og sat að sama skapi lítið eftir.

Heldur hresstist þó Eyjólfur eftir hlé við frumflutning hinnar tvíþættu Fiðlusónötu [28']. Þótt munað hefði um minna en tíu mínútna skemmri spiltíma (auk litaauðgi fiðlunnar að flautunni ólastaðri), þá verkaði sónatan einkum talsvert bitastæðari og innblásnari í mínum eyrum en systurverkið. Hvort kærkominn veraldlegur húmorvotturinn í „búggívúggí“-innslagi II. þáttar hafi þar haft meira að segja en ljóðræn fiðlumelódíkin, er söng af hjartans einlægni í skemmtilegri andstöðu við stundum tröllaukinn hamaganginn úr slaghörpunni, er erfitt að segja. En alltjent nutu andstæður fínlega strokins lagferlis við kraftmiklar píanóúthleðslur sín oft á furðuheillandi hátt. Túlkunin var til viðbótar af fyrstu gráðu, og þurfti engin leðurblökueyru til að greina stórum hlýlegri viðtökur áheyrenda að leikslokum en eftir fyrri hálfleik.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson