Í dag Gerrit og Hulda Björk flytja sönglög og aríur frá ýmsum tímum.
Í dag Gerrit og Hulda Björk flytja sönglög og aríur frá ýmsum tímum. — Morgunblaðið/Valdís Thor
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is „BÍDDU, ég verð að ná mér í kaffi í bollann áður en við spjöllum, er það ekki í lagi?“ spyr Gerrit Schuil píanóleikari. Tilefni spjallsins er tónleikaröð í Kirkjuhvoli í Garðabæ sem hefst á morgun kl.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

„BÍDDU, ég verð að ná mér í kaffi í bollann áður en við spjöllum, er það ekki í lagi?“ spyr Gerrit Schuil píanóleikari. Tilefni spjallsins er tónleikaröð í Kirkjuhvoli í Garðabæ sem hefst á morgun kl. 17, þegar Gerrit og Hulda Björk Garðarsdóttir sópran flytja söngva og aríur allt frá Mozart til Gershwins.

„Ég byrjaði aftur með tónleikaröð í Garðabænum í fyrra eftir nokkurra ára hlé. Í fyrra gerði ég allt sjálfur og fékk stóran styrk frá Glitni, sem bjargaði öllu. En ég vil ekki hafa þá ábyrgð að þurfa að gera allt einn og sjá líka um peningamálin, þannig að ég talaði við bæjarstjórann í Garðabæ því hann var mjög glaður að fá þessa tónleika aftur í Garðabæinn. Úr varð að nú er þetta samstarf við bæinn og menningarmálanefndina, sem sér um alla ytri stjórn. Ég er listrænn stjórnandi og þarf bara að hugsa um tónlistina og skrifa prógrammnótur fyrir tónleikana. Það er mikil vinna samt.“

Gaman að vinna með nýju fólki

Gerrit segir það hafa verið sérstaklega gaman að undirbúa tónleikaröðina og setja saman dagskrána. „Þetta er ungt fólk, og með flestum þeirra er ég að vinna í fyrsta sinn. Það er mjög spennandi og gaman fyrir mig,“ segir hann.

Gerrit er þekktur að frábærum leik með söngvurum, en það er sjaldnar að í honum heyrist með hljóðfæraleikurum, þótt hann hafi vissulega sýnt þá hlið á sér líka.

„Ég verð með tvo hljóðfæraleikara; Ara Þór Vilhjálmsson og Bryndísi Höllu Gylfadóttur; tvo söngvara með blandaða efnisskrá, Huldu Björk og Gissur Pál Gissurarson, og tvo með ljóðaprógramm, Eyjólf Eyjólfsson og Ágúst Ólafsson, sem er snillingur í ljóðasöng.“

Það var ekkert sérstakt þema á bak við val þeirra sem koma fram með Gerrit, að hans sögn. Hann hefur fylgst með unga fólkinu koma fram á sjónarsviðið, en það hefur lengi verið á óskalista hans að spila með Bryndísi Höllu. „Það hefur bara aldrei tekist þar til nú. Við spiluðum reyndar saman í fyrsta sinn á kammermúsíkhátíð í Danmörku í fyrra og við fundum að við yrðum að gera eitthvað meira úr samstarfinu. Hulda Björk er líka búin að vera lengi á óskalistanum mínum. Ég spilaði með Gissuri svolítið rétt eftir að hann kom heim úr námi fyrir tveimur árum; ég var bara eitt vá! Svo söng hann svo frábærlega vel í Sálumessu Verdis í fyrra. Ég bað hann strax þá að syngja með mér og guði sé lof að hann var laus. Ég hlakka líka mjög mikið til að vinna með Ara Þór og Eyjólfi, sem ætlar að syngja söngva eftir Reynaldo Hahn sem heyrast sjaldan hér á landi. Ágúst söng með mér í fyrra, þannig að það verður bara ánægjulegt framhald nú. Þú sérð að ég hef verið mjög heppinn með fólk og efnisskrá allra er mjög spennandi.“

Gerrit hélt sína fyrstu tónleikaröð í Kirkjuhvoli í Garðabæ veturinn 1997-8. Hún var tileinkuð afmæli Schuberts og tókst gríðarlega vel. „Kirkjuhvoll er fínn salur, með fínan hljómburð og góðan flygil og þar er alltaf stemning.“

Fyrir Gerrit er tónlistin ekki bara vinna. „Tónlistin er mér eins og ástin. Án ástar er lífið algjörlega innantómt. Ég hef stundum sagt að nú sé komið nóg, en eftir tvo daga er það búið. Hér líður mér vel og ég á hér marga góða vini, og hvar annars staðar í heiminum væri hægt að búa til jafn skemmtilega tónleika?“

Gerrit Schuil í Garðabæ

25. október

Eyjólfur Eyjólfsson tenór. Ljóðasöngvar eftir Beethoven, Schubert og Reynaldo Hahn.

29. nóvember

Ari Þór Vilhjálmsson fiðluleikari. Verk eftir Mozart og Chausson og Kreutzer-sónata Beethovens.

28. febrúar

Ágúst Ólafsson baríton. Ljóð eftir Schumann o. fl.

28. mars

Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari. Sellósónata í A-dúr eftir Beethoven og fleira.

18. apríl

Gissur Páll Gissurarson tenór. Ljóðasöngvar og óperuaríur.