Dýpsta sæla og sorgin þunga svífa hljóðlát yfir storð, þeirra mál ei talar tunga, tárin eru beggja orð.

Dýpsta sæla og sorgin þunga

svífa hljóðlát yfir storð,

þeirra mál ei talar tunga,

tárin eru beggja orð.

Þetta fyrirbæri mannssálarinnar, að dýpstu tilfinningar gleði og sorgar hafi sömu birtingarmynd – flæðandi vatn úr augum – er óneitanlega heillandi. Líklega er það einmitt við hæfi í samhengi hlutanna: Ekkert líf getur þrifist án vatns, enginn gróður án tára.

Ég er að vona að á næstu 2 vikum verði ég svo heppin að fá að tárast á einhverri tilþrifamikilli bíómynd sælu og sorgar. Sú mynd gæti hugsanlega verið taívanska hinsegin myndin Blóm á reki , en Hinsegin bíódagar eru nú í fyrsta sinn hluti af Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.

Á hátíðinni kennir ýmissa grasa úr öllum áttum. Það er vel til fundið að myndum um umhverfismál sé gert hátt undir höfði, enda „óhætt að segja að þau brenni á heimsbyggðinni um þessar mundir“ eins og segir í kynningarbæklingi. Það er óskandi að þessi innspýting í menningarlífið hjálpi til við að kveikja fleiri innri elda og skapandi umræðu um kvikmyndir jafnt sem umhverfismál. Það er nefnilega ekki nóg að umhverfismál brenni á heimsbyggðinni, þau verða líka að brenna á okkur sjálfum.

Mikilvægi vatns og vatnsbúskapar er fyrirferðarmikið í umhverfismyndum hátíðarinnar og undirliggjandi þema þeirra er stærsta mál okkar tíma, loftslagsbreytingar.

Mynd Udo Maurers frá Austurríki sem ég sá í gær fjallar um samskipti fólks og vatns á þremur stöðum á jörðinni. Einstaklingar sem talað er við í Bangladesh flytja stöðugt frá einum stað til annars til að forðast flóð en á meðan dreymir samfélagið í Aralsk í Kazakstan um að fá aftur til sín fljót og fisk. Slíkt hvarf með öllu þegar stórvirkjun Khrústsjovs Sovétleiðtoga leit dagsins ljós á síðustu öld.

Óhóflegir flutningar fljóta úr náttúrulegum farvegi, stórvirkjanir, mengun og gróðurhúsaáhrif eru alvarlegar ógnir við líf og vistkerfi jarðar. Á ýmsum stöðum hefur ríkt átakanleg kreppa vegna hörmulegra mistaka í vatnabúskap þjóða og meðhöndlun vatnsbóla, mengunar, slæmra innviða, ójafnaðar og ósanngjarnrar dreifingar vatns.

Við Íslendingar erum einstaklega lánsöm þegar kemur að vatni, svo lánsöm að við getum aldrei vandað okkur nóg við að umgangast auðlindina af skynsemi og gætni. Kalt vatn sem heitt, fossar, fljót, stöðuvötn, haf: Eigum við skilið allt þetta vatn – lífríkið, gróðurinn, mannlífið og samfélagið sem það nærir – ef við kunnum ekki almennilega að fara með það?

Sumt er svo þungt að það er þyngra en tárum taki. Það verður að teljast grátlegt fyrir íslensk stjórnvöld að vera Khrústsjov okkar tíma þegar kemur að vatnsauðlindinni og öðrum auði: Að lofa töfralausn stórvirkjana og falskrar innspýtingar, lélegrar hagfræði, en ætla kynslóðum framtíðar að sitja uppi með óafturkræfar, eyðileggjandi afleiðingar. glg@althingi.is

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Höf.: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir