Sigríður Helga Stefánsdóttir fæddist á Sjöundastöðum í Flókadal í Skagafirði 25. ágúst 1917. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 10. september síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Kópavogskirkju 24. september.

Amma mín kenndi mér margt. Sumt smálegt en annað stórkostlegt. Á Kópavogsbrautinni kenndi hún mér að best væri að byrja á matnum utarlega á diskinum því hann væri kaldastur þar, auk þess sem best væri að drekka mjólkina eftir matinn til að eyðileggja ekki matarlystina. Í Sundi fyrir norðan kenndi hún mér það sem enginn hafði nokkurn tímann getað, að borða kjötsúpu og steiktan lauk. Hið stórkostlega sem hún kenndi mér var að gefast aldrei upp og að elska stórt. Ég ætla að gera mitt besta til að fara eftir því.

Ég man vel eftir sumrunum hjá ömmu og Árna í Sundi í Höfðahverfi rétt hjá Grenivík. Frábær staður fyrir alla, gamall sveitabær með gamalli hlöðu, bæjarrústir á túninu, skurðir, lækur og nóg af hundasúrum. Þegar ég var 10 ára fannst mér túnið verið heimsins stærsti fótboltavöllur, alla vega þegar búið var að slá. Einhvern veginn finnst mér að amma hafi alltaf annaðhvort verið í eldhúsinu eða úti á tröppum við húsið. Það var alltaf hægt að fá sér kleinur eða flatkökur með hangikjöti. Ekki skrýtið að maður væri alltaf svangur í sveitinni hjá ömmu. Ég gleymi aldrei þessum tíma.

Ég man líka eftir dótinu í skápnum inni í sjónvarpsherberginu á Kópavogsbrautinni. Þangað hljóp ég þegar ég var búinn að kyssa og knúsa ömmu. Þar tók við smíði stærstu húsa heimsins með legókubbunum. Ég man líka eftir búrinu inn af eldhúsinu, þar sem ýmislegt skemmtilegt var að finna, oftast eitthvert góðgæti. Skemmtilegast fannst mér samt að fikta í prjónavélunum hennar ömmu inni í prjónaherberginu, það var bara svo margt á þeim til að ýta á eða færa til að ómögulegt var fyrir litla fingur að láta það vera. Þar inni prjónaði amma hinar ýmsu flíkur sem gefnar voru á afmælum, jólum eða bara hvenær sem henni þótti kominn tími til. Og það var oft.

Amma var elskuleg, hjartahlý, ákveðin og traust manneskja. Ég vildi að hún væri hérna ennþá. En svona er víst lífið. Í staðinn mun ég geyma minningu hennar í hjarta mínu og miðla henni til barna minna og, ef ég verð mjög lánsamur, til barnabarna minna. Guð geymi þig elsku amma mín. Við sjáumst síðar.

Ólafur Lúther Einarsson.

Það eru 36 ár síðan ég og dóttir mín kynntumst Sigríði ömmu eins og hún er kölluð á mínu heimili. Hún var þá dagmamma í Laugarneshverfi en við bjuggum á Seltjarnarnesi. Í þá daga þótti langt að fara með barn frá Seltjarnarnesi inn í Laugarnes og til baka í vinnu niður í miðbæ. Sigríður amma var þá einstæð móðir í lítilli íbúð. Strax við fyrstu kynni dáðist ég að þessari lágvöxnu konu sem tók á móti okkur með hóp af litlum börnum sem hún tók alltaf á móti með útrétta arma og fagnaðarbrosi. Þegar maður kom á matmálstíma sátu börnin hlið við hlið á meðan hún mataði þau á hollum íslenskum mat og opnuðu þau munninn hvert á eftir öðru. Ekki fékk maður að taka barnið heim fyrr en það hefði fengið að borða.

Ekki leið á löngu þar til Sigríður amma fann stóru ástina í sínu lífi, hann Árna, hann fékk að sjálfsögðu nafnið Árni afi um leið. Það var gaman að sjá hvað Sigríður amma varð hamingjusöm með Árna sínum. Sigríður amma og Árni afi fluttu í stærri íbúð ásamt yngstu dætrum sínum en alltaf hélt hún áfram að vera dagmamma um skeið. Sigríður amma var ekki einungis dagmamman mín heldur vinkona líka, við ræddum mikið saman um lífið og tilveruna. Eftir að hún hætti sem dagmamma slitnaði aldrei vinskapur okkar, þau hjónin tóku tvær dætur mínar, Hildi og Erlu, í pössun yfir helgi eða viku á meðan foreldrarnir fóru utan, fyrir það er ég þeim ævinlega þakklát. Þær minnast skemmtilegrar ferðar í Landmannalaugar með þeim og fjölskyldu þeirra.

Eftir að Sigríður amma og Árni afi fluttu í Kópavoginn fór ég og dætur mínar í heimsókn og alltaf voru kleinur og kökur á borðum, engu hafði hún gleymt. Þó svo að samskipti okkar hafi ekki verið mikil undanfarinn áratug er hún oft nefnd á okkar heimili. Sigríður amma er hetja í okkar augum, falleg, góð og skemmtileg. Hún var ekki hávaxin en fyrir okkur var hún stór, við munum sakna hennar.

Elsku Árni afi og fjölskylda, við vottum ykkur samúð og biðjum góðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.

Guðbjörg Jóhannesdóttir,

Hildur Ýr og Erla Hrund

Gísladætur.