Ábyrgð eða örvænting McCain er hann kynnti þá ákvörðun að fresta baráttunni.
Ábyrgð eða örvænting McCain er hann kynnti þá ákvörðun að fresta baráttunni. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Svein Sigurðsson svs@mbl.is SÚ ákvörðun John McCains, forsetaframbjóðanda repúblikana, að gera hlé á kosningabaráttu sinni vegna ástandsins í bandarískum efnahagsmálum og hugsanlegra björgunaraðgerða stjórnvalda er mjög umdeild.

Eftir Svein Sigurðsson

svs@mbl.is SÚ ákvörðun John McCains, forsetaframbjóðanda repúblikana, að gera hlé á kosningabaráttu sinni vegna ástandsins í bandarískum efnahagsmálum og hugsanlegra björgunaraðgerða stjórnvalda er mjög umdeild. Sjálfur vill hann vafalaust að hún verði túlkuð þannig, að með henni sýni hann þá ábyrgð að vilja ekki eyða tíma sínum í dægurþras og ríg á þessum alvarlegu tímum, en aðrir og þá einkum andstæðingar hans segja, að hún endurspegli vaxandi örvæntingu.

Barack Obama, frambjóðandi demókrata, hefur lengst af haft nokkurt fylgi umfram McCain í skoðanakönnunum en eftir flokksþing repúblikana og eftir að McCain kynnti Sarah Palin, ríkisstjóra Alaska, sem varaforsetaefni sitt snerist dæmið við. Um stund voru þau á mikilli siglingu en virðast nú hrekjast undan því efnahagslega óveðri, sem geisar í Bandaríkjunum.

Ekkert tilhlökkunarefni að ræða efnahagsmálin

Þegar McCain ákvað að fresta kosningabaráttunni skoraði hann á Obama að gera slíkt hið sama. Hann vísaði því hins vegar á bug með þeim orðum, að nú sem aldrei fyrr skipti það landsmenn máli að vita hvað frambjóðendurnir hefðu fram að færa og hvernig þeir hygðust stýra þjóðarskútunni að loknum kosningum. Þá hafnaði hann því einnig að fresta fyrstu sjónvarpskappræðum þeirra, sem áttu að fara fram í Mississippi-háskóla í gærkvöld.

Kannanir sýna, að aðeins 14% kjósenda eru hlynnt því að gera hlé á kosningabaráttunni og aðeins 10% töldu rétt að fresta sjónvarpskappræðunum, þeim fyrst af þremur.

Í gærkvöldi áttu þær að snúast um utanríkismál en Obama var hins vegar búinn að lýsa yfir, að efnahagsmálin yrðu í fyrirrúmi, annað væri ekki hægt við þessar aðstæður. McCain hefur oftar en einu sinni látið hafa eftir sér, að efnahagsmálin væru „ekki mín sterka hlið“ og það kemur sér ekki vel fyrir hann nú. Þar fyrir utan hefur allur hans ferill í þeim efnum einkennst af kröfum um, að slakað verði sem mest á eftirliti hins opinbera með fjármálalífinu. Það er því ekki víst, að hann hafi hlakkað sérstaklega til kappræðnanna við Obama.

Um miðjan dag í gær tilkynnti McCain, að hann myndi mæta til kappræðnanna hvernig sem á stæði með björgunaráætlun stjórnvalda en hún var þá í uppnámi, ekki síst vegna andstöðu sumra þingmanna repúblikana.

Segja McCain vera óútreiknanlegan þegar mest á ríður

Ákvörðun McCains hefur einnig kynt undir þeim áróðri demókrata, að McCain sé óútreiknanlegur og ekki treystandi á ögurstund. Er nefnt sem dæmi, að eftir að Rússar réðust inn í Georgíu hafi hann næstum því verið búinn að lýsa yfir stríði við Rússa og hann hafi skyndilega aflýst flokksþingi repúblikana að hluta vegna fellibyls. Þá hafi hann valið sér varaforsetaefni sem flestir kjósendur telji ekki hæfa.

Joe Klein, fréttaskýrandi hjá bandaríska tímaritinu Time , segir, að ákvarðanir McCains ráðist nú af örvæntingu og ástæðan aðeins ein: skoðanakannanirnar. Undir það tekur Ben Smith hjá fréttaveitunni Politico og hann segir, að auðvelt sé að túlka ákvörðun McCains sem svo, að hann hafi meiri áhyggjur af skoðanakönnunum en efnahagskreppunni. Segir hann, að verði sú skoðun ofan á hjá kjósendum, þá hafi orðið alger tímamót í kosningabaráttunni.

Efast um reynslu Palin

Sarah Palin hleypti augljóslega nýju lífi í baráttu McCains til að byrja með en henni er nú fundið það til foráttu að hafa enga reynslu af utanríkismálum, að hafa varla komið út fyrir landamærin og hafa fengið sitt fyrsta vegabréf á síðasta ári.

Repúblikanar hafa reynt að bæta úr þessu með því að leiða Palin á fund erlendra ráðamanna í heimsókn en margir hafa hent á lofti þau ummæli hennar í viðtali við ABC-sjónvarpið, að það jafngilti nokkurri reynslu í utanríkismálum að búa í Alaska og eiga Rússland fyrir nágranna. Sagði hún, að það væri jafnvel hægt að sjá til Rússlands frá eyju við Alaska. Er hún var síðar spurð út í þessi ummæli, áréttaði hún þau og bætti við, að næstu nágrannar Alaska væru „erlend ríki“. Alaska á raunar aðeins eiginleg landamæri að einu ríki, Kanada.

Bill McAllister, talsmaður Palin, hefur reynt að rétta hennar hlut nokkuð og minnt á, að hún hafi í fyrrahaust rætt við forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, meðal annars um orkumál.

Repúblikanar vísa á bug ásökunum um reynsluleysi Palin en það þykir ekki traustvekjandi, að enn hefur hún ekki viljað sitja fyrir svörum með fréttamönnum.