Eilíf augnablik Titill nýju myndarinnar er dreginn af þeim eilífu augnablikum sem sænski ljósmyndarinn Maria Larson festi á filmu á öndverðri öldinni sem leið og var örugglega ein af fyrirmyndum Troells er hann tók þá ákvörðun í upphafi að gerast ljósmyndari.
Eilíf augnablik Titill nýju myndarinnar er dreginn af þeim eilífu augnablikum sem sænski ljósmyndarinn Maria Larson festi á filmu á öndverðri öldinni sem leið og var örugglega ein af fyrirmyndum Troells er hann tók þá ákvörðun í upphafi að gerast ljósmyndari.
Einn af risum norrænnar kvikmyndagerðar er orðinn 77 ára en ekki af baki dottinn og nýbúinn að frumsýna eitt sitt besta verk á ferlinum.

Eftir Sæbjörn Valdimarsson

saebjorn@heimsnet.is

Sænski leikstjórinn Jan Troell (1931-) lætur ekki deigan síga og var að frumsýna Eilíf augnablik – Maria Larsons eviga ögonblick , sitt 20. verk á leikstjórnarferli sem spannar hartnær hálfa öld. Hann er ósvikið kvikmyndaskáld, hefur skrifað 17 handritanna og annast kvikmyndatökustjórn 16 myndanna og klippt flestar.

Í gegnum tíðina hefur Troell unnið til aragrúa verðlauna á kvikmyndahátíðum um heiminn þveran og endilangan og fjölda tilnefninga, m.a. tvær til Óskarsverðlaunanna árið 1973, fyrir leikstjórn og handrit (byggt á áður birtu efni) Utvandrarna – The Emigrants , eða Vesturfaranna eins og bókin og síðar myndin nefnist á íslensku. Vesturfararnir er gerð eftir samnefndri sögulegri skáldsögu sænska rithöfundarins Vilhelms Mobergs (1898-1973) um landflótta og leit sænskra fátæklinga að betra lífi í Vesturheimi, og er sjálfsagt frægasta mynd Troells hér heima sem annars staðar. Að hluta til vegna þess að samhliða myndinni gerði hann frábæra sjónvarpsþætti sem nutu ofurvinsælda á RÚV. Í öðru lagi má rekja vinsældir myndarinnar/þáttanna til bókarinnar, sem Jón Helgason ritstjóri þýddi um miðja síðustu öld. Hún hitti beint í þjóðarsálina, fjallar um harmræna atburði á ofanverðri 19. öld, hliðstæða flutningum Íslendinga vestur um haf. Persónurnar að miklum hluta sama níðfátæka alþýðufólkið sem flúði vistarbönd óbilgjarnra húsbænda, harðæri og sult í heimalandinu.

Galdur myndavélarinnar

Titill nýju myndarinnar er dreginn af þeim eilífu augnablikum sem sænski ljósmyndarinn Maria Larson festi á filmu á öndverðri öldinni sem leið og voru örugglega ein af fyrirmyndum Troells er hann tók þá ákvörðun í upphafi að gerast ljósmyndari. Eilíf augnablik var frumsýnd fyrr í mánuðinum í Svíþjóð, og var vel tekið af gagnrýnendum. Þá var hún valin framlag landsmanna í keppnina um Óskarsverðlaunin sem besta erlenda mynd ársins, sem verða veitt í febrúar nk. Þeir bjartsýnustu ala á voninni um að Troell hljóti einnig tilnefningu sem leikstjóri og kvikmyndatökustjóri en handritið er byggt á ævisögu sem Agneta Ulfsäter-Troell, kona hans, skráði. Þá þykir Maria Heiskanen standa sig með miklum sóma í titilhlutverkinu. Agnetu stóð málið nærri því Maria Larson er formóðir hennar sem lifði fábreyttu lífi almúgakonu lengst af – eða þangað til ljósmyndavélin varð að galdratæki í höndum hennar.

Larson varð ljósmyndari á erfiðum tímum um aldamótin 1900, þegar frami í ljósmyndalist var í ljósárafjarlægð frá raunveruleika sænskra kvenna. Hún varð að berjast við endalausa fordóma úr öllum áttum, ekki síst á eigin heimili þar sem hún mætti litlum stuðningi af hálfu eiginmannsins sem taldi hana betur skapaða til að annast heimilið og börnin sjö. Landið í greipum fámennrar borgarastéttar, alþýðan að springa undan hrikalegri misskiptingu valda og auðs, og verkalýðurinn að snúast á sveif með kommúnistum og stjórnleysingjum í síauknum mæli. Bætt kjör og lágmarksréttindi til handa konum voru ekki til umræðu og hugtakið jafnrétti kynjanna tæpast til í tungunni. Verkfall var nýtt og öflugt vopn í höndum vinnandi stétta og þyrnir í augum hinnar sannkristnu borgarastéttar sem setti samasemmerki á milli verkalýðsbaráttu og myrkraverka djöfulsins. Kjörinn tónn fyrir kvikmyndagerðarmanninn Troell sem fékkst við náskylt viðfangsefni í Vesturförunum . Straumhvörf verða í lífi húsmóðurinnar Mariu Larson þegar hún uppgötvar leyndardóma myndavélar, sem hún vann árum áður á hlutaveltu. Hún hafði ekki haft nokkurn tíma aflögu til að kynna sér kosti gripsins, fyrir utan heimilisstörf og barnauppeldi á stóru heimili vann Maria úti við, hún hafði flinkar hendur við sauma og prjónles auk þess sem hún stritaði á kvöldin við skúringar. Sigfried (Mikael Persbrandt), ofbeldisfullur, kvensamur og drykkfeldur eiginmaður, breikkaði enn gjána á milli hennar og myndavélarinnar sem rykféll í skápnum. Einn góðan veðurdag ákveður hún að selja myndavélina en kaupmaðurinn hvetur Mariu til að reyna fyrir sér sem ljósmyndari og kennir henni undirstöðuatriðin.

Ekki líður á löngu uns það kemur í ljós að Maria er ljósmyndari af Guðs náð, bónda hennar til lítillar gleði, nú verður smæð hans enn meiri. Elstu dæturnar vilja að þau skilji fyrir fullt og allt, en af því verður ekki.

Einn af risunum þremur

Heiskanen og Persbrandt eru sögð vinna frækna sigra sem listakonan með skrúbbinn og maður hennar verður heillandi blanda af gleðimanni og ribbalda í meðförum Persbrandts. Augnablik eilífðarinnar hefur verið frumsýnd á nokkrum Norðurlandanna og vakti mikla hrifningu á kvikmyndahátíðinni í Toronto í byrjun mánaðarins. Vonandi fáum við að njóta hennar sem fyrst.

Troell er ásamt Ingmar Bergman og Bo Widerberg einn af risunum þremur í sænskri kvikmyndalist á öldinni sem leið. Hann hóf afskipti af kvikmyndum um tvítugt, og þá sem leikari. Um miðjan sjöunda áratuginn ákvað hann að helga sig kvikmyndagerðinni og náði fljótlega glæsilegum árangri. Fyrsti stórsigur hans var Ole Dole Doff , sem vann m.a. Gullbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 1968. Troell náði til heimsbyggðarinnar með fyrrnefndum kvikmyndagerðum sagnabálks Mobergs; Utvandrarna , Invandrarna , Nybyggarna og Sista brevet till Sverige . Afraksturinn sjónvarpsþættirnir og tvær bíómyndir, Utvandrarna ('71) og Nybyggarna ('72). Í kjölfarið fylgdu tvær auðgleymdar Hollywood-myndir. Troell vann mikið með Max von Sydow, sem fór með aðalhlutverkin í kvikmyndagerðum Mobergs, ásamt leikkonunni Liv Ullman. Von Sydow lék einnig titilhlutverkið í Ingenjör Andrées luftfärd ('82), sem hlaut misjafna dóma en var engu að síður tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda mynd ársins. Af öðrum stórvirkjum Troells má nefna Il Capitano ('91), þessi ógleymanlega glæpamynd sem er svo gjörólík öðru frá hendi leikstjórans vann Silfurbjörninn í Berlín. Så vit som en snö ('01) vakti mikla athygli, sömuleiðis heimildamyndirnar Sagolandet ('88), En Frusen dröm ('97) og Närvarande ('03).