Titilbarátta Keflavík og FH heyja baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í dag. Þessi mynd er frá viðureign toppliðanna í sumar þar sem þeir Kenneth Gustafsson og Dennis Siim takast hressilega á á heimavelli Keflvíkinga.
Titilbarátta Keflavík og FH heyja baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í dag. Þessi mynd er frá viðureign toppliðanna í sumar þar sem þeir Kenneth Gustafsson og Dennis Siim takast hressilega á á heimavelli Keflvíkinga.
LAUST fyrir klukkan 18 í dag kemur í ljós hvort það verður Guðmundur Steinarsson eða Davíð Þór Viðarsson sem hefur Íslandsmeistarabikarinn á loft en lokaumferð Landsbankadeildarinnar verður leikin í dag þar sem Keflavík og FH berjast um...

LAUST fyrir klukkan 18 í dag kemur í ljós hvort það verður Guðmundur Steinarsson eða Davíð Þór Viðarsson sem hefur Íslandsmeistarabikarinn á loft en lokaumferð Landsbankadeildarinnar verður leikin í dag þar sem Keflavík og FH berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Keflavík tekur á móti Fram á sama tíma og FH sækir Fylkismenn heim.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

Keflavík dugar að vinna Framara á heimavelli til að landa titlinum eftirsótta en möguleiki FH-inga felst í því þeir leggji Fylkismenn í Árbænum og Keflvíkingar tapi stigum.

Tapi Keflavík nægir FH að vinna Fylkismenn en endi leikur Keflavíkur og Fram með jafntefli þarf FH að vinna Árbæjarliðið með tveggja marka mun.

Voru ekki fæddir þegar Keflavík varð síðast meistari

Enginn af leikmönnum Keflavíkurliðsins var fæddur þegar Suðurnesjamenn unnu titilinn síðast en 35 ár eru liðin frá því Guðni Kjartansson tók á móti Íslandsmeistaratitlinum, síðastur Keflvíkinga. Það er því eðlilega mikil spenna í herbúðum Keflvíkinga sem hafa sýnt frábær tilþrif í sumar en Suðurnesjaliðið hefur verið í forystusætinu megnið af mótinu.

Keflvíkingar eru með alla sína leikmenn klára í slaginn en þeirra bíður erfitt verkefni því gestir þeirra í dag eru Framarar sem klárlega verða að teljast spútniklið sumarsins. Framarar, sem leika án Heiðars Geirs Júlíussonar sem er í leikbanni, hafa að miklu að keppa en Safamýrarliðið er í baráttu við KR og Val um þriðja sætið sem gefur sæti í Evrópukeppninni að ári en 17 ár eru liðin frá því Fram, gamla stórveldið, var í Evrópukeppni. Framarar hafa í síðustu leikjum lagt ríkjandi Íslandsmeistara og bikarmeistara, Val og FH, að velli og eru því með bullandi sjálfstraust en hvort það dugar gegn ógnarsterku liði Keflavíkur, sem hefur unnið 9 af 10 heimaleikjum sínum í sumar, skal ósagt látið.

Búist er við miklu fjölmenni á Keflavíkurvelli í dag og bjartsýnustu menn vonast til að allt að fimm þúsund manns mæti á völlinn. Knattspyrnudeild Keflvíkur bíður öllum þeim sem hafa orðið Íslandsmeistarar með liðinu frítt á völlinn en Keflvíkingar hafa fjórum sinnum orðið meistarar – 1964, 1969, 1971 og 1973.

FH eygir von um fjórða titilinn á síðustu fimm árum

FH-ingar hafa verið með bakið upp að vegg í síðustu leikjum sínum en með sigrunum á Keflavík og Breiðabliki í vikunni, þar sem FH-liðið sýndi mátt sinn og meginn, heldur Hafnarfjarðarliðið enn í vonina um að innbyrða Íslandsmeistaratitilinn, þann fjórða á síðustu fimm árum. FH-ingar eru hins vegar í þeirri stöðu að þeim dugar ekki að vinna Fylkismenn því þeir verða að stóla á að Keflvíkingar misstígi sig gegn Frömurum. Fari svo að Keflavík landi titlinum verður það í fyrsta sinn í fimm ár sem enginn titill endar í höndum FH-inga en þar á bæ er mikill hugur og leikmenn liðsins vanir að taka þátt í leikjum sem þessum. FH verður án tveggja öflugra leikmanna en Dennis Siim og Tryggvi Guðmundsson taka út leikbann en þrír Fylkismenn verða í banni – Ólafur Ingi Stígsson, Þórir Hannesson og Kjartan Á. Breiðdal.

Íslandsmeistarabikarinn staðsettur við Álverið

KSÍ mun hafa þann hátt á að Íslandsmeistarabikarinn verður staðsettur í lögreglubíl við Álverið í Straumsvík á meðan leikjunum stendur og hann mun síðan halda áleiðis til Keflavíkur eða Árbæ á þann stað sem Íslandsmeistararnir verða krýndir.