Seðlabankinn situr undir viðstöðulausri gagnrýni. Bankinn er sakaður um að fara út fyrir valdsvið sitt og detta í pólitík. Peningamálastefna hans er dæmd dauð og ómerk. Upplýsingagjöf og rökstuðningur fyrir ákvörðunum Seðlabanka fær falleinkunn.

Seðlabankinn situr undir viðstöðulausri gagnrýni. Bankinn er sakaður um að fara út fyrir valdsvið sitt og detta í pólitík. Peningamálastefna hans er dæmd dauð og ómerk. Upplýsingagjöf og rökstuðningur fyrir ákvörðunum Seðlabanka fær falleinkunn. Aðalbankastjórinn færir þjóðinni skilaboð sem erfitt er að skilja öðruvísi en svo að annar ríkisstjórnarflokkurinn, að minnsta kosti, samanstandi af lýðskrumurum sem bankinn hafi fyrirlitningu á.

Ekki er allt sem sýnist

En Seðlabankinn er ekki Palli einn í heiminum. Hann starfar í umboði ríkisstjórnar á grundvelli samkomulags frá árinu 2001 sem enn gildir. Annað getur hann ekki nema stefnunni verði breytt. Það er því kannski engin furða að Davíð Oddssyni renni í skap yfir taumlausum árásum á peningamálastefnu bankans, úr herbúðum stjórnarflokkanna, sem ákveða stefnuna. Á hættulegum tímum í efnahagslífinu hlýtur að vera að minnsta kosti jafnábyrgðarlaust að lýsa stanslausu frati á gjaldmiðilinn og Seðlabankann eins og að kalla þá sem það gera lýðskrumara.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, segir Seðlabankann þurfa að tjá sig öðruvísi. Forsenda þess að stýrivaxtastjórnun virki sé skilvirk upplýsingaveita. Árni Páll segir að ef menn ýti ESB-aðild út af borðinu sé fátt til ráða við núverandi aðstæður. „Ef við segðum í dag að við sæktum um ESB-aðild myndi það greiða fyrir stöðugleika. Það er reynsla annarra sem sótt hafa um við svipaðar aðstæður í efnahagslífinu. Það má kalla þá sem efast um að hægt sé að ná stöðugleika með krónunni öllum illum nöfnum. En ef þeir sem benda á lausnir eru lýðskrumarar, hvað þá um þá sem geta ekki bent á neitt?“

Ótraustvekjandi aðgerðir og yfirlýsingar

Áður en Seðlabankinn svaraði því að Ísland hafi ekki átt þess kost að semja við Seðlabanka Bandaríkjanna um lánalínur eins og aðrar norrænar þjóðir, var lagt til að ríkisstjórnin viki Seðlabankastjórninni frá, ef bankinn hefði ekki viljað sækjast eftir láninu. Ekki traustvekjandi tal. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknar, segir bankann engin ný tæki hafa fengið frá ríkisstjórninni. „Hér loga heimilin stafnanna á milli, allt er að hrynja og ef einhver á að segja af sér, er það Geir Haarde með ríkisstjórnina alla. Nú þurfum við þjóðstjórn, jafnvel utanþingsstjórn, til að taka á vandanum. Tveir stærstu flokkar landsins eru í ríkisstjórn og enginn hefur trú á aðgerðum þeirra.“ Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslyndra tekur undir að ábyrgðin sé ríkisstjórnarinnar og stefnan sé óljós.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, telur styrjöld brostna á í Sjálfstæðisflokknum. Ríkisstjórnin verði að skipta um stefnu í stað þess að skamma Seðlabankann. „Ég held að í átökunum eigi að fórna Seðlabankanum til að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar.“ Þá sé krónunni kennt um hagstjórnarmistökin. Í grein í Viðskiptablaðinu ræðir Steingrímur vísbendingar um að bankarnir og stærstu eigendur þeirra stuðli að því að veikja krónuna til að græða á því. Formaður VG vill að Seðlabankinn, viðskiptabankarnir og tengdir aðilar leggi fram gögn um þróunina ár aftur í tímann.

Mjög erfitt að að fá erlend lán

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir vonbrigði hve mikið krónan hefur gefið eftir. „En svarið er ekki að fara í neinar kollsteypur eða setja af Seðlabankastjórnina. Mér finnst margir vanmeta erfitt verkefni Seðlabankans. Lán eru ekki auðfengin. Samhent átak þarf en ekki tal sem leiðir til sundrungar.“ Bjarni segir margítrekað hafa komið fram að samráð sé gott milli ríkisstjórnar og Seðlabanka. „En við þessar miklu óvissuaðstæður er slæmt að ekki hafi verið hægt að tjá sig meira með opinberum hætti. Gjaldeyrisskorturinn í landinu er að verða slíkt vandamál að það verður að bregðast við.“

beva@24stundir.is