Talar hún eitt erfiðasta málið?
Talar hún eitt erfiðasta málið?
EVRÓPSKI tungumáladagurinn var í gær, 26. september, en hann hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 2001, sem var evrópskt tungumálaár. Er það tilgangur hans að fanga fjölbreytileika tungumála í álfunni og hvetja til málanáms.

EVRÓPSKI tungumáladagurinn var í gær, 26. september, en hann hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 2001, sem var evrópskt tungumálaár. Er það tilgangur hans að fanga fjölbreytileika tungumála í álfunni og hvetja til málanáms. Þótt Evrópuríkin séu aðeins nokkrir tugir, þá er málafjöldinn þar yfir 200.

Dagsins hefur verið minnst með ýmsum hætti og fræðimenn hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar.

Einn af þeim er Rolf Theil, prófessor í málvísindum við Óslóarháskóla, en á heimasíðu sinni tínir hann til 10 tungumál, sem hann segir merkileg fyrir ýmissa hluta sakir, til dæmis fallegasta málið, það léttasta og það merkilegasta. Lítur listinn hans þannig út:

Fegursta málið : Fulfulde í Vestur-Afríku. Hljómar svo vel og sem dæmi er nefnt að orðið yfir hagl er mallumallore.

Erfiðasta málið : Grænlenska. Orða- og setningamyndun ótrúlega flókin.

Léttasta málið : Mandarín-kínverska. Reglulegt og framburður auðveldur.

Móðurmál flestra : Mandarín-kínverska.

Móðurmál fæstra : Amurdag í Ástralíu. Það kann einn maður.

Mikilvægasta málið : Enska, nýtist flestum sem samskiptamál.

Elsta letrið : 5.000 ára gamalt fleygletur í Mesópótamíu.

Merkilegustu hljóðin : Kyrrahafsmál þar sem tungubroddur er látinn snerta efri vör.

Kurteislegasta málið : Kóreska, sama orðið getur táknað ótalmörg kurteisisstig.

Undarlegasta málið : Piraha, sem talað er í skógum við Amazon. Undarleg orð og enn undarlegri hljóð. svs@mbl.is