Tjón í roki Björgunarsveitir berjast við að festa niður kerru í óveðri sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið í febrúar síðastliðnum.
Tjón í roki Björgunarsveitir berjast við að festa niður kerru í óveðri sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið í febrúar síðastliðnum. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur Elva@mbl.is TJÓN af völdum óveðurs hjá Sjóvá hafa í ár verið töluvert umfram meðaltal síðasta áratugar. Þá hefur tjónatíðnin vaxið umtalsvert á skömmum tíma.

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur

Elva@mbl.is

TJÓN af völdum óveðurs hjá Sjóvá hafa í ár verið töluvert umfram meðaltal síðasta áratugar. Þá hefur tjónatíðnin vaxið umtalsvert á skömmum tíma. Meðaltal síðustu þriggja ára er um 250 tjón á ári en þau voru um 130 að meðaltali áratuginn þar á undan, að því er fram kemur í upplýsingum frá fyrirtækinu. Í ár eru tjónin orðin 264 talsins.

Geirarður Geirarðsson, forstöðumaður á tjónasviði hjá Sjóvá, segir að séu þessi mál skoðuð á heimsvísu komi í ljós að nýlega hafi orðið mikil tjón vegna óveðurs og náttúruhamfara. „Ef við skoðum þetta á heimsvísu má til dæmis nefna að [fellibylurinn] Katrína, sem reið yfir árið 2005, er metinn á 90 billjónir dollara,“ segir hann, en helstu óveðurstjón á heimsvísu verði vegna storms. Samkvæmt upplýsingum frá Sjóvá voru tjón af völdum náttúruhamfara í heiminum í fyrra tíðari og alvarlegri en oft áður. Áætlaður kostnaður tryggingafélaga af ofsaveðri í norðanverðri Evrópu í janúar í fyrra nam tæplega 6 milljörðum dollara. Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár, segir að fyrir lok þessarar aldar sé áætlað að óveðurstjón muni tvöfaldast og alvarleikinn verða meiri.

Áhrif breytinga á Ísland

Í næstu viku stendur Sjóvá ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands fyrir málþingi um loftslagsbreytingar af mannavöldum og áhrif þeirra. Þór segir að hafið sé yfir vafa að verði sú hlýnun sem átt hafi sér stað látin afskiptalaus hafi það í för með sér miklar neikvæðar afleiðingar fyrir allt mannkyn.

Hnattræn hlýnun á síðustu öld var 0,7 °C. Í nýlegri skýrslu vísindanefndar loftslagsbreytinga, sem unnin var fyrir umhverfisráðuneytið, segir að mjög líklegt sé að aukning gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannkyns valdi megninu af þessari hlýnun.

Líkönum beri saman um að á næstu áratugum muni ársmeðalhiti jarðarinnar hækka til jafnaðar um 0,2°C á áratug. Það fari eftir losun gróðurhúsalofttegunda hversu mikið hlýni til loka aldarinnar, en ólíkar forsendur geri ráð fyrir hlýnun frá 1,5°C til 4,5°C.

Í skýrslunni er bent á að hlýnunin muni hafa víðtæk áhrif á náttúruþætti: Hafísþekja og snjóhula minnki, jöklar hopi og afrennsli jökuláa breytist. Þá muni aukin tíðni þurrka og flóða sums staðar hafa neikvæð áhrif á ræktun og fæðuframleiðslu.

Geirarður segir algengast að tjón verði vegna gífurlegs vindhraða, en stundum vegna vatnsveðurs sem jafnan fylgi. Til að óveðurstjón fáist bætt þarf vindur að fara yfir ákveðin viðmið, 28,5 metra á sekúndu. Slíkt óveður hafi nokkrum sinnum orðið í fyrra. Ekki fáist þó öll tjón bætt, þar eð ekki sé tryggt vegna margra þeirra.

Sveiflur eða varanleg hlýnun?

„Síðasti vetur var klárlega illviðrasamur og það gengu yfir hér nokkur slæm illviðri,“ segir Einar Sveinbjörnsson um nýleg óveður við landið. Haustið í fyrra hafi verið sérlega vætusamt og talsvert um stórrigningar frá september og fram yfir jól, en svipað haustveður virðist vera uppi á teningnum í ár, a.m.k. um landið sunnanvert þar sem mikið hefur rignt í septembermánuði.

Einar segir hins vegar að frá árinu 2003, að undanskildu því síðasta, hafi vetur verið fremur mildir og snjólitlir.

Einar segir að þegar kemur að veðurfari sé erfitt að segja til um hvað sé hluti af sveiflum og hvað varanleg hlýnun loftslags. Menn hallist að því að skýra vetur eins og þann síðasta með almennum breytileika. „En ef óvenjulegir hlutir fara að endurtaka sig aftur og aftur og yfir lengra tímabil, þá ýtir það undir skoðanir um varanlegar loftslagsbreytingar,“ segir hann.