Losun Dökka línan sýnir hve losun á CO2 úr vökva (sjó) eykst eftir því sem hiti vökvans hækkar.
Losun Dökka línan sýnir hve losun á CO2 úr vökva (sjó) eykst eftir því sem hiti vökvans hækkar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessi pistill er í rauninni framhald af þeim síðasta þar sem sagt var frá fyrirlestri Fred Goldberg í Norræna húsinu 11. sept. sl.
Þessi pistill er í rauninni framhald af þeim síðasta þar sem sagt var frá fyrirlestri Fred Goldberg í Norræna húsinu 11. sept. sl. Kenningin, sem Fred lýsti þar um loftslagsmál, er í stuttu máli sú að áhrif mannsins og brennsla á kolefnum hafi nær engin áhrif á loftslag í heiminum og hin margumrædda lofttegund, koltvísýringur CO 2 , hafi engin áhrif á hækkandi hitastig jarðar. Þessu sé þveröfugt farið, hækkandi hitastig orsakar meiri losun á koltvísýringi úr hafinu, svo hafi verið alla tíð og sé langt frá því að vera ný sannindi.

Veðurfar á jörðinni, hitastig á hverjum tíma og magn koltvísýrings í andrúmslofti, er skráð langt, langt aftur í tímann. Sögur og bækur segja sitt svo langt sem slík gögn ná, en öruggastar skráningar eru í jörðinni. Borkjarnar frá Grænlandsjökli og suðurskautinu segja söguna og ekki síður borkjarnar úr botni Atlantshafsins.

Á fundinum í Norræna húsinu sýndi Fred línurit sem birt eru með þessum pistli. Í fyrsta lagi línurit er sýnir hve hafið sleppir meira of koltvísýringi CO 2 eftir því sem hitastig sjávar eykst. Þetta gerist í hvaða vökva sem er og hver og einn getur prófað þetta heima hjá sér. Ef opnaðar eru tvær kókflöskur, önnur látin standa á borði við stofuhita í sólarhring en hin sett í kæliskáp þá mun koma í ljós að sú í kæliskápnum heldur betur í sér „gosinu“ heldur en sú sem stóð á borðinu. Í öðru lagi sýndi Fred línurit er sýnir hita og koltvísýring í lofti sl. 450.000 ár. Þetta er ekki prentvilla, þarna á að standa fjögur hundruð og fimmtíu þúsund ár. Þessi saga er lesin úr borkjörnum úr ísnum við Vostok-stöðina á suðurskautinu. Vissulega er fylgni milli hitastigs jarðar og koltvísýrings í lofti, hann eltir hitann.

En er ástæða til að trúa því sem einn sænskur maður segir í sínum fyrirlestri?

Fred Goldberg er svo sannarlega ekki einn á báti, en hann hefur stundað rannsóknir á lofslagi jarðar undanfarin ár og setur niðurstöður sínar fram á skýran og einfaldan hátt.

Hann er einn af þeim fjölmörgu vísindamönnum í heiminum sem eru engan veginn sammála hinni opinberu niðurstöðu IPCC, loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Sú nefnd hefur meira að segja verið sökuð um ónákvæmni og að berja höfðinu við steininn til að sanna það sem hún heldur fram með illu eða góðu; að koltvísýringur CO 2 sé bófinn sem er að hækka hitastig jarðar, þessar breytingar séu mannanna verk.

Til að gefa svolitla innsýn í hvað vísindamenn á andstæðri skoðun hafa sett fram og átt við að stríða má benda á þetta.

Dr. scient. Bjarne Andresen, sérfræðingur í varmaaflfræði við Niels Bohr-stofnunina í Danmörku, sagði árið 2007 í viðtali í Berlingske Tidende að upplýsingar frá vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, um að meðalhiti veturinn 2006-07 á norðlægum slóðum hefði farið 0,72 gráður yfir normal hitastig hefði enga þýðingu.

Bjarne Andresen og tveir kanadískir vísindamenn fullyrða að aðferð sú sem IPCC notar við útreikning á „hnattrænum meðalhita“ hafi einfaldlega engan tilgang. Það er ekki til neinn allsherjar meðalhiti fyrir jafn gífurlega stórt kerfi.

Bjarne og samstarfsmenn hans hafa bent á að útreikningur á hnattrænum meðalhita sé jafn tilgangslaus og að reikna út meðalsímanúmerið í símaskránni.

Þegar loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var haldin á Balí sendu 100 alþjóðlega þekktir vísindamenn opið bréf til aðalritara SÞ þar sem þeir lýstu því áliti sínu að breytingar á loftslagi jarðar væru náttúrulegt fyrirbrigði sem hefði komið fram á jörðinni alla tíð. Þeir segja að aðeins með því að vinna að þróun efnahags sé hægt að auka afl og þrótt þjóða þar sem það sé engan veginn sannað að loftslag á jörðinni sé að breytast fyrir tilverknað manna og að þaðan komi hin auknu gróðurhúsaáhrif.

Þessir 100 vísindamenn ákæra IPCC fyrir að stinga undir stól nýjustu rannsóknum á loftslagsbreytingum þar sem m.a. er bent á að fulltrúar IPCC hafi viðurkennt að tölvumódel þeirra geti ekki sagt fyrir um breytingar á loftslagi.

Því miður hefur umræðan um þetta mikilvæga mál, hnattræna hlýnun og aukningu á koltvísýringi CO 2 , fengið á sig allt of pólitískan blæ. Þeir sem fylgja því eindregið að maðurinn sé orsakavaldur með verkum sínum flokkast til vinstri en allir þeir sem telja að hér séu ógnarkraftar sólarinnar grunnorsökin eru flokkaðir til hægri og oft eru þeir úthrópaðir sem útsendarar stóru olíuhringanna, sem að sjálfsögðu vilja sem minnstar hömlur á sölu sinna afurða.

Þeir sem bera höfuðábyrgðina á í hvern farveg umræðan er komin eru stjórnmálamenn sem láta leiða sig eins og lömb til slátrunar, hafa engar sjálfstæðar skoðanir, kanna ekki bakgrunninn heldur tala og kvaka eins og allir aðrir.

Skyldi ekki vera einn einasti einstaklingur á Alþingi Íslendinga eða í ríkisstjórn Íslands sem vill skoða málið niður í kjölinn og fá fram það sem sannara reynist?

Auðvitað yrði það stórt skref fyrir stjórnmálamenn að viðurkenna að Kýótóbókunin byggðist á tómri vitleysu og að Balíráðstefnan hafi verið blaður eitt. Kannski verður slíkt ekki sannað fyrr en eftir 20-30 ár þegar ekki er ólíklegt að litla ísöld banki á dyrnar.

Höfundur er pípulagningameistari.