Vígreifur Liðsmaður afganska hersins í höfuðstaðnum Kabúl.
Vígreifur Liðsmaður afganska hersins í höfuðstaðnum Kabúl. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is VERÐUR einhvern tíma hægt að koma á friði með samningum við talíbana?

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

VERÐUR einhvern tíma hægt að koma á friði með samningum við talíbana? Það hefur lengi verið stefna stjórnar Hamids Karzais, forseta í Kabúl, að reynt skuli að fá þá talíbana sem afneita ofbeldi til að ganga til liðs við stjórnina og hefur það tekist í allmörgum tilfellum. Nokkrir lágtsettir liðsforingjar talíbana hafa jafnvel gengið til liðs við stjórnina.

En breska blaðið Observer segir að Sádi-Arabar hafi með aðstoð Breta um skeið haft milligöngu um viðræður síðan í sumar við einn af æðstu leiðtogum hreyfingarinnar án þess að skilyrði hafi verið sett fyrirfram. Hafi þessar viðræður farið fram með leynd bæði í Kabúl, Quetta í Pakistan, þar sem margir forystumenn talíbana hafa aðalbækistöð sína, Sádi-Arabíu og nokkrum evrópskum borgum. Talíbanaleiðtoginn umræddi mun m.a. hafa rætt við fulltrúa bresku leyniþjónustunnar, MI6, í London.

Öryggismálaráðgjafi Karzais var fulltrúi hans í viðræðunum sem m.a. hafa gengið út á að talíbanar fengju ráðherraembætti í stjórninni. Einnig hefur Karzai reynt að fá til liðs við sig gamlan stríðsherra, Gulbuddin Hekmatyar, sem nú styður talíbana og sjálfan leiðtoga talíbana, múllah Omar en ekki haft erindi sem erfiði.

Er rifjað upp að franski forsætisráðherrann Francois Fillon, hafi vísað til þessara tilrauna nýlega í ræðu. „Við verðum að kanna leiðir til þess að skilja á milli alþjóðlegra ofsatrúarmanna [í Afganistan] og annarra sem berjast fremur af þjóðernisástæðum eða vegna ættbálkatengsla,“ sagði Fillon.

Heimildarmenn í Kabúl staðfestu í samtölum við Observer að viðræðurnar hefðu farið fram en töldu að þær gengju stirðlega, einkum vegna þess hve hart hefur verið barist síðustu vikurnar en einnig vegna ósveigjanleika talíbana.

Vandinn er margþættur og eitt dæmið er að talíbanar hafa sett sem skilyrði að allt erlent herlið yfirgefi landið í áföngum, að í Afganistan verði í gildi elstu afbrigði sharia-laga íslams og þeir fái aðild að ríkisstjórn. Og að sjálfsögðu eiga konur ekki að taka eðlilegan þátt í samfélaginu. Þess má geta að talíbanar hafa lagt sig fram um að myrða konur í áhrifastöðum og gert margar árásir á skóla og fyrirtæki sem konur stýra. En heimildarmenn segja að mestum erfiðleikum valdi að talíbanar breyti stöðugt kröfum sínum.

S&S

Hve fjölmennir eru talíbanar?

Í reynd eru tölur um fjöldann ágiskun en talið víst að allt að 10.000 vopnaðir menn séu í hreyfingunni. Einnig fá þeir oft stuðning annarra uppreisnarflokka og glæpahópa.

Aðstoðar al-Qaeda hreyfinguna? Vitað er að liðsmenn al-Qaeda berjast sums staðar enn með talíbönum. Tækist að semja við talíbana yrði mun auðveldara að skera á þau tengsl og einangra al-Qaeda.