Neysla unglinga á ólöglegum vímuefnum dróst mikið saman á milli áranna 2004 og 2007 og það er mikið fagnaðarefni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, sem rannsóknarmiðstöðin Rannsóknir og greining vann með stuðningi frá menntamálaráðuneyti.

Neysla unglinga á ólöglegum vímuefnum dróst mikið saman á milli áranna 2004 og 2007 og það er mikið fagnaðarefni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, sem rannsóknarmiðstöðin Rannsóknir og greining vann með stuðningi frá menntamálaráðuneyti. Áfengisneysla breyttist hins vegar lítið á þessum tíma og hefur reyndar sama sem ekkert breyst frá árinu 2000. Sérstakt áhyggjuefni er að drykkja eykst verulega frá vori síðasta bekkjar í grunnskóla og fram á haust fyrsta bekkjar í framhaldsskóla. Samkvæmt rannsókninni höfðu 19,9% nemenda í 10. bekk vorið 2007 orðið drukkin síðustu 30 daga, en það höfðu 47,7% nemenda 16 ára og yngri í framhaldsskóla haustið 2007 gert. Hlutfallið hækkar um rúmlega helming og vert er að hafa í huga að könnunin er gerð í sama árgangi. Eini munurinn er sá að liðið er eitt sumar.

Við það að fara úr grunnskóla í framhaldsskóla verður hugarfarsbreyting hjá íslenskum unglingum. Margar þessara breytinga eru einfaldlega hluti af því að fullorðnast og þroskast – að uppgötva lífið. Áfengi og vímuefni koma því þroskaferli hins vegar ekkert við, hvað sem líður þrýstingi jafningja, umhverfisins og jafnvel lífsstíl hinna fullorðnu. Ein rótin að þessari aukningu, sem verður á áfengisneyslu við það að komast á nýtt skólastig, er hin sterka tenging menntaskólaskemmtana við áfengi og drykkjuskap.

Eftir því sem fólk er yngra þegar það byrjar að neyta áfengis og vímuefna, þeim mun meiri verður skaðinn. Það verður að efla forvarnir gegn áfengi og vímuefnum og hluti af því er að kanna leiðir til að draga úr áfengisneyslu í tengslum við framhaldsskólaskemmtanir.