Stefán Þór Þórðarson
Stefán Þór Þórðarson
SKAGAMENN kvöddu Landsbankadeildina með 3:0 tapi á heimavelli gegn nýliðum Fjölnis á laugardag en úrslit leiksins gefa ekki rétta mynd af leiknum þar sem ÍA var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

„Þetta var skrýtinn leikur en mér fannst við spila fínan fótbolta í fyrri hálfleik. Þeir áttu tvö skot á markið í fyrri hálfleik og skoruðu eitt mark. Á meðan óðum við í færum sem við nýttum ekki. Saga sumarsins,“ sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari ÍA en hann lék ekki með að þessu sinni líkt og Bjarki Gunnlaugsson. „Það voru 5 strákar úr 2. flokki sem komu við sögu í þessum leik. Mér fannst þeir standa sig mjög vel og ég var einnig ánægður með Jón Vilhelm Ákason sem sýndi hvað í honum býr.“

Það var frekar þungt yfir leikmönnum ÍA í leikslok enda skrautlegu keppnistímabili lokið og 1. deildin bíður Skagamanna. Margt hefur gengið á í herbúðum ÍA, Guðjóni Þórðarsyni var sagt upp störfum sem þjálfara, erlendu leikmennirnir stóðu ekki undir væntingum og Skagamenn náðu ekki að skora mörkin eins og þeir eru þekktir fyrir. „Við gerum okkur grein fyrir því að það mun taka 2-3 ár að byggja upp gott lið á ný en við komum sterkari til baka eftir þetta áfall,“ sagði Arnar.

Það er ljóst að talsverðar breytingar verða á leikmannahóp ÍA. Stefán Þórðarson gaf það út eftir leikinn að hann væri hættur og það gæti einnig farið svo að Þórður Guðjónsson hætti að leika með liðinu en hann ætlar að taka ákvörðun um framhaldið í haust, líkt og Kári Steinn Reynisson og Pálmi Haraldsson.

Það var greinilegt að leikmenn Fjölnis voru með hugann við næsta stórverkefni sem er bikarúrslitaleikurinn gegn KR þann 4. október. Ásmundur Arnarsson þjálfari sagði að leikmenn hefðu á undanförnum vikum hugsað mikið um stórleikinn. „Mér finnst að við séum á réttri leið í okkar undirbúningi. Það voru þrír í banni og ég hvíldi tvo aðra sem eru á hættusvæði vegna gulra spjalda. Það var óöryggi í okkar leik í fyrri hálfleik þar sem okkur gekk ekkert að halda boltanum í okkar röðum. Það lagaðist þegar á leið en það er sterkt að sigra ÍA 3:0 á þeirra heimavelli.“

Fjölnir kom verulega á óvart á fyrsta tímabili sínu í efstu deild. Liðið byrjaði tímabilið af krafti og var á meðal efstu liða um mitt sumar. Síðari umferðin var erfiðari hjá Grafarvogsliðinu en niðurstaðan var 6. sæti og bikarúrslitaleikur – sem hlýtur að vera ásættanlegt fyrir nýliða.

ÍA 0 Fjölnir 3

Akranesvöllur, úrvalsdeild karla, Landsbankadeildin 27. september 2008.

Mörk Fjölnis : Kristján Hauksson 3., Ólafur Páll Snorrason 52., 88.

Markskot : ÍA 10 (6) – Fjölnir 10 (8)

Horn : ÍA 12 – Fjölnir 2.

Rangstöður : ÍA 4 – Fjölnir 2.

Skilyrði : Strekkingsvindur frá SV. Skýjað og hiti um 9 stig. Völlurinn blautur en í fínu ástandi.

Lið ÍA (4-4-2): Trausti Sigurbjörnsson – Aron Ýmir Pétursson, Árni Thor Guðmundsson, Heimir Einarsson (Dario Cingel 46.), Guðjón Heiðar Sveinsson – Þórður Guðjónsson, Guðmundur Böðvar Guðjónsson, Pálmi Haraldsson (Vjekoslav Svadumovic 57.), Jón Vilhelm Ákason – Ragnar Leósson (Ísleifur Örn Guðmundsson 72.), Björn Bergmann Sigurðarson.

Gul spjöld : Engin.

Rauð spjöld : Engin.

Lið Fjölnis : (4-3-3) Þórður Ingason – Kolbeinn Kristinsson, Ágúst Gylfason, Kristján Hauksson, Geir Kristinsson – Heimir Snær Guðmundsson (Marinó Þór Jakobsson 82.), Gunnar Már Guðmundsson, Tómas Leifsson – Pétur G. Markan (Davíð Þór Rúnarsson 62.), Andri Valur Ívarsson (Aron Jóhannsson 85.), Ólafur Páll Snorrason.

Gul spjöld : Heimir Snær, 54.(brot).

Rauð spjöld : Engin.

Dómari : Þóroddur Hjaltalín, KA, 5.

Aðstoðardómarar : Marinó Steinn Þorsteinsson og Sverrir G. Pálmason.

Áhorfendur : 675.

0:1 3. Ólafur Páll Snorrason tók hornspyrnu frá vinstri og varnarmaðurinn Kristján Hauksson skoraði af stuttu færi.

0:2 52. Trausti Sigurbjörnsson markvörður ÍA sparkaði boltanum í félaga sinn og boltinn hrökk til Ólafs Páls Snorrasonar sem skoraði í autt markið.

0:3 88. Tómas Leifsson gaf á Ólaf Pál Snorrason sem stakk sér í gegnum vörn ÍA hægra megin, inní vítateiginn, og skoraði með góðu skoti í hornið fjær.

ÍA

M

Trausti Sigurbjörnsson

Þórður Guðjónsson

Árni Thor Guðmundsson

Guðmundur B. Guðjónsson

Jón Vilhelm Ákason

Aron Ýmir Pétursson

Fjölnir

M

Þórður Ingason

Pétur Georg Markan

Ólafur Páll Snorrason

Tómas Leifsson

Kristján Hauksson

Ágúst Þór Gylfason