Gunnar Skúli Ármannsson
Gunnar Skúli Ármannsson
Gunnar Skúli Ármannsson skrifar um kjör lækna: "Þegar sérfræðingurinn hefur unnið í 14 ár frá lækningaleyfi eða í 21 ár frá stúdentsprófi fær hann í grunnlaun 510 þúsund krónur."

LÆKNAR fara ekki oft í verkfall. Læknar reyna eftir mætti að fara samningaleiðina ef þess er nokkur kostur. Auk þess fara læknar oft halloka í því áróðursstríði sem verður við ríkisvaldið. Læknar hafa ekki stundað mikla kynningu á störfum sínum eða kjörum. Þeir eru venjulega með hugann við annað. Margar stéttir hafa verið mun duglegri að kynna kjör sín. Reyndar er mér minnisstætt að þegar ég var unglæknir fyrir um það bil 18 árum, þá ákváðum við unglæknarnir að krefjast bættra kjara og kynna málstaðinn. Efnt var til eins dags verkfalls. Blaðamannafundur boðaður um morguninn. Hugmynd okkar var að reyna að nota tækifærið og kynna störf okkar og kjör á þessum fundi. Svara spurningum forvitinna og áhugasamra blaðamanna. Einnig höfðum við meðferðis prentaðar upplýsingar um okkur. Blaðamennirnir spurðu strax hvort eitthvert neyðarástand myndi skapast vegna verkfalls okkar. Við svöruðum „nei“ og þar með tæmdist salurinn af blaðamönnum og fundi var sjálfhætt. Algjört flopp.

Mörgum finnst að læknar hafi það gott og því ættum við að vera hógværir. Auk þess er höfðað til samfélagslegrar ábyrgðar í anda Jóhannesar skírara. Stundum fæ ég á tilfinninguna að við séum eign fólksins, eins og ríkiskassinn, þið vitið hvað ég á við, enginn vill borga í hann en fá úr honum að vild. Í sjálfu sér gæti ég samþykkt þessa hugsun ef ég fengi leyfi til að umgangast smiði, rafvirkja eða bankann minn á sama hátt. Við eigum líka okkar rétt. Við megum einnig benda á hvar skórinn kreppir, hvar okkur er mismunað eða misboðið. Við eigum rétt á okkar stolti og virðingu. Ef við teljum árin eftir stúdentspróf þá gefur 6 ára erfitt læknanám 275 þús. krónur í grunnlaun. Eftir að hafa starfað sem unglæknir í eitt ár færðu 312 þús. krónur í grunnlaun. Síðan ferðu til útlanda og ert þar í 6 ára sérnám og við heimkomuna færðu 475 þús. krónur í grunnlaun, þá eru liðin 12 til 14 ár frá stúdentsprófinu. Þegar ég kom úr sérnámi reiknaðist mér til að kostnaðurinn við flutninginn og ferðir fram og til baka öll árin jafngiltu lítilli íbúð í Reykjavík. Síðan bætast við árlegar afborganir af námslánum sem geta numið einu mánaðarkaupi. Því hefur sérfræðingurinn lagt í töluverðan kostnað sjálfur. Íslenska ríkið ber engan kostnað af sérnámi okkar erlendis og fær það gratís eins og hverja aðra Marshall-aðstoð, aftur á móti nýtur það ávaxtanna óspart. Þegar sérfræðingurinn hefur unnið í 14 ár frá lækningaleyfi eða í 21 ár frá stúdentsprófi fær hann í grunnlaun 510 þúsund krónur. Þá er maður orðinn að minnsta kosti 41 ára gamall. Síðan er bara eftir að reikna út ellilífeyrinn. Því miður er hann ekki eins og hjá þingmönnum. Marktæk breyting sem eflaust ekki allir gera sér grein fyrir er að mikið af ungum læknum hefur allt aðrar hugmyndir um lífsgæði og kjör. Eldri læknum fannst sjálfsagt að sætta sig við sín kjör því þeir gátu bætt við sig tekjum með botnlausri yfirvinnu. Unga fólkið segir í dag: „Á læknir með alla sína menntun að þurfa að vinna eins og skepna til að hafa há laun?“ Unga fólkið vill líka vera heima hjá sér og sinna sínum. Auk þess er vaxandi fjöldi lækna konur. Að gjaldfella störf unglækna eins og tilboð ríkisins hljómar boðar ekki gott. Gert er lítið úr læknum og læknisfræðilegum ákvörðunum. Mörgum finnst þær kannski einfaldar en ef þær eru rangar geta afleiðingarnar verið slæmar. Læknisfræði snýst fyrst og síðast um að taka ákvörðun, ekki svo mikið um verklega þáttinn. Þannig er til dæmis kjarni skurðlæknisfræðinnar að taka hina afdrifaríku ákvörðun að mæla með skurðaðgerð frekar en að sleppa henni. Sjálf aðgerðin er oft einfaldari en ákvörðunin. Það eru afleiðingar ákvörðunarinnar sem fylgja sjúklingnum alla ævi. Vandamálin sem við stöndum frammi fyrir eru að það er skortur á unglæknum í dag. Þeir eru mun meiri heimsborgarar en við gömlu jálkarnir og fara því bara til útlanda ef þeim er misboðið. Einnig var það lenska hjá minni kynslóð að koma sér heim sem fyrst eftir sérnám en það hefur breyst. Þar sem vinnuaðstaða er yfirleitt verri á Íslandi, minni tími til að sinna sínu starfi og minni tími til að sinna rannsóknum finnst mörgum vænlegri kostur að dvelja erlendis. Með auknum flugsamgöngum, tölvupósti, vefmyndavélum og Skype er dvölin mun léttari á erlendri grund. Allar þessar breytingar hafa haft það í för með sér að Ísland er ekki sjálfgefin endastöð fyrir íslenska lækna í sérnámi. Íslenskir læknar eru eftirsótt vara, því mun það ráðast af viðbrögðum ríkisins hvort þeir starfa hér eða í útlöndum.

Höfundur læknir og er fjögurra barna faðir.

Höf.: Gunnar Skúli Ármannsson