Sveinn Kjartan Sveinsson fæddist í Reykjavík 1. júní 1924. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 11. september síðastliðinn og var jarðsunginn frá Langholtskirkju 18. september.

Kæri afi og langafi, takk fyrir allt og allt.

Við munum sakna þín en eins og Soffía Líf segir: „Nú er sko orðið gaman hjá guði“.

Ó, þú borgin mín björt,

kemur blóðinu ört

til að renna sem forðum það fékk.

Þá var leiftur í lýð,

eitt logandi stríð

yfir landið í eldinum gekk.

Nú er fjörið mitt frá

og mín fljóthuga þrá.

Ég er gamall og genginn úr lið.

Enginn glaumur og glans,

get ei fengið mér dans

og græt, er ég geng við þín hlið.

Hér við dönsuðum dátt,

hér var drukkið í sátt,

einnig elskað – og í orustur sótt.

Nú er hlátur í höll,

einnig hávaði og köll,

því að draugarnir dansa í nótt.

(Vilhjálmur frá Skáholti.)

Sértu göfga gæddur þeim

að gleðja hrakta, smáða,

þú munt för í himin heim

hafa rósum stráða.

(Vilhjálmur frá Skáholti.)

Kveðja,

Freyja og Soffía Líf.

Mig langar að minnast afa míns með nokkrum orðum. Hann var einstök og litrík persóna. Ævi hans var mjög fjölbreytt, hann var vinamargur og hafði einstaka sýn á mörgum hlutum. Afi var leiðbeinandi og kennari í eðli sínu og var óspar á að leiðbeina okkur sem í kringum hann vorum. Hann notaði hvert tækifæri til að kenna manni eitthvað. Algengt var þegar maður hitti hann að hann legði fyrir mann nokkrar gátur.

Flestar æskuminningarnar um afa tengjast því að vera að gera eitthvað með afa, þar sem hann var að leiðbeina mér eða kenna mér eitthvað gagnlegt. Ég minnist þess að vera á skautum með afa, skíðum, hestbaki, ferðalagi, að veiða, að leysa verkefni (svara stærðfræðigátum!). Já hann var atorkusamur hann afi, vildi vera á ferðinni og að gera eitthvað. Hann hafði ótrúlega þolinmæði við að kenna manni nýja hluti og það var honum mjög mikilvægt að maður næði þeim hundraðprósent. Mér fannst þessar leiðbeiningar og gátur ekki alltaf mjög skemmtilegar en kunni þeim mun betur að meta þær þegar ég fór að eldast. Þá fór ég að sjá að þetta var gert í góðum tilgangi til þess að undirbúa mann betur undir lífið sem framundan var.

Síðar eru minningarnar tengdar lærdómi um lífið og tilveruna. Hann hafði áhuga á fólki og var forvitinn um líðan og velferð fólks. Hann talaði um jafna virðingu til allra og bar hann mikla virðingu fyrir utangarðsfólki og minni máttar og lagði ríka áherslu á það að slíkir væru ekki minni persónur en aðrir. Hann hafði mikinn áhuga fyrir allri list og þá helst listamanninum og skoðaði list með einstöku hugarfari. Að fara á listasýningu með afa var einstök upplifun, lærdómsrík og eftirminnileg reynsla.

Þau amma voru einstaklega óeigingjörn á eigur sínar, alltaf var það meira en sjálfsagt að fá lánaðan bílinn, sumarbústaðinn, pening og nánast hvað sem var. Húmorinn var aldrei langt undan hjá afa og rættist það sem hann sagði svo oft að húmorinn væri auðæfi sem aldrei yrðu frá manni tekin. Hélt hann sínum húmor allt til dauðadags. Gat hann verið meinfyndinn án þess að segja brandara! Hann var orðsnjall sögumaður og þótti gaman að segja manni sögur af fólki eða stöðum. Ákveðinn skuggi lá yfir lífi hans hin seinustu ár, tengdur veikindum hans, ætla ég ekki að minnast þess né fjalla um hér. Ég er ánægð með að hafa átt hann fyrir afa og að hann skyldi hafa verið hluti af lífi mínu. Hann hefur gefið mér svo mikið í gegnum tíðina sem er svo dýrmætt og einstakt. Gefið mér færni og þekkingu sem hefur gert líf mitt auðveldara og innihaldsríkara og verð ég honum ævinlega þakklát fyrir það. Hann var ástríkur og einlægur maður sem ekki skammaðist sín fyrir að gráta. Hann var fyrr á tímum sterkur og vílaði ekki fyrir sér að standa upp fyrir öðrum og leggja eitthvað á sig til að létta öðrum lífið. Hann vildi vera réttlátur.

Ég hef ekki kynnst neinni manneskju sem kemst í hálfkvisti við hann nema ef vera skyldi hún amma mín, lífsförunautur hans, hún gefur honum lítið eftir í mikilfengleik. Votta ég henni samúð mína og öllum þeim sem sakna hans á þessari stundu.

Inga Valborg Ólafsdóttir.

Þegar sá höfðingi Sveinn Kjartan Sveinsson kveður þennan heim get ég ekki annað en minnst hans með þakklæti. Sveinn Kjartan og Inga Valborg voru eðalvinir foreldra minna og reyndust fjölskyldu minni manna best þegar í harðbakka sló.

Er við bræður vorum að komast á unglingsár útvegaði Sveinn í Völundi, eins og hann var svo gjarnan nefndur, okkur sumarvinnu í timbrinu. Það var bæði ánægjulegur og lærdómsríkur tími. Að kynnast öllum gömlu körlunum, sem bæði voru hafsjór af fróðleik og skemmtisögum, var dýrmæt reynsla fyrir óharðnaða unglinga.

Þá minnist ég allra gæðastundanna hjá gestrisnu fjölskyldunni í Sigluvogi og fjölmörgu reiðtúranna, að og frá Sveinsstöðum, sem Sveinn og Inga Valborg buðu okkur bræðrum að njóta af stakri reisn sinni.

Minning um góðan mann lifir. Megi góður Guð vera með ykkur, Inga Valborg, börn og fjölskylda Sveins, og veita ykkur þann styrk sem þarf.

Ólafur Hjálmarsson.

Þegar ég hugsa um Svein gamla upplifi ég bara ást og þakklæti í hjarta mínu. Það eru nú 26 ár liðin síðan Sveinn, kaupsýslumaður og heiðursmaður mikill, opnaði heimili sitt fyrir þýskum ferðamanni með bakpoka, gítar og hár niður á bak.

Upp frá þessu hef ég átt heima á Íslandi. Sveinn kynnti fyrir mér land og þjóð, uppfyllti drauma mína um að fá að kynnast íslenska hestinum og kom fram við mig eins og sinn eigin son.

Sveinn fór með kvæði fyrir mig á íslensku og ég skildi ekki eitt einasta orð. En samt hlustaði ég heillaður, því það er gott að leggja við hlustir þegar fróður maður tekur til máls.

Sveinn fékk mikið hláturskast þegar ég kom inn eitt sinn og truflaði bridgeklúbbinn hans og spurði: „Having Fun?“ Og hann gafst aldrei upp á að leiðrétta klaufalegar tilraunir mínar til að tala íslensku.

Ég kveð hér mikinn mann með stórt hjarta og sál, sem skilur okkur eftir sannfærð um það að eingöngu líkami hans er kominn að endamörkum.

Mikið var ég heppinn að fá að kynnast Sveini K. Sveinssyni.

Bernd Ogrodnik.