Galína Pisarenko Hefur sungið víða um heim, m.a. á Ítalíu og vestanhafs.
Galína Pisarenko Hefur sungið víða um heim, m.a. á Ítalíu og vestanhafs. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur gudrung@mbl.is HÚN tekur á móti mér í húsakynnum rússneska sendiráðsins við Túngötu.

Eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur

gudrung@mbl.is

HÚN tekur á móti mér í húsakynnum rússneska sendiráðsins við Túngötu. Það er birta yfir andliti hennar og röddin blíðleg, en á bak við þetta yfirbragð býr breitt litróf tilfinninganna, það hefur hún sýnt í túlkun sinni á fjölmörgum frægum óperuhlutverkum sem krefjast mikils af flytjendum sínum.

Hún segir mér að Massehet í óperunni Menon hafi verið sitt uppáhaldshlutverk, en Galína Pisarenko er lýrískur sópran, fræg söngkona og snjall kennari, sem fyrir helgi var með meistaranámskeið (Masterclass) í Salnum í Kópavogi að tilhlutan Jónasar Ingimundarsonar.

„Ég er mjög ánægð með að hafa fengið boð um að koma hingað þessara erinda og einnig þakklát rússneska sendiráðinu hér fyrir aðstoðina við mig af þessu tilefni, sem og íslenska sendiráðinu í Moskvu,“ segir Galína.

Hún kveður raddir þeirra nemenda sem hún hefur kennt á Íslandi vera mun ljósari yfirleitt en hinar rússnesku raddir.

„Mezzósópran í Rússlandi er dekkri rödd en rödd sem skilgreind er sem mezzó hér á Íslandi en kennslan hér er svipuð og mér finnst þeir íslenskir nemendur sem ég hef leiðbeint hér hafa fengið góða kennslu, syngja bæði afslappað og hafa góðan stuðning,“ segir Galína.

Fór að kenna fertug

Þetta er í annað sinn sem hún heimsækir Ísland.

„Ég kom hingað fyrir tveimur árum til að leiðbeina söngnemendum og þá sá ég Geysi og þótti mikið til koma,“ segir hún. Eiginmaður Galínu kinkar kolli, hann er viðstaddur fund okkar í hinum rússnesku húsakynnum við Túngötuna. „Við höfum verið gift í 22 ár og hann kemur með mér hvert sem ég ferðast og hjálpar mér mikið í starfinu,“ segir Galína um eiginmann sinn, Viktor Malanichev, sem er verkfræðingur, kominn á eftirlaun og er nú framkvæmdastjóri Mozartfélagsins í Moskvu.

Galína Pisarenko var um áratuga skeið ein helsta söngkona Stanislavsky óperuhússins í Moskvu en þar er hún alin upp.

Við lok söngferils Galínu var hún aðalsöngkona Nýju óperunnar í Moskvu og tók þátt í uppbyggingu hennar frá grunni.

„Ég fór að kenna fertug að aldri og seinni árin hefur það verið mitt aðalstarf,“ segir Galína. Nemendur hennar eru sumir víðkunnir. Hún nefnir Lubov Petrova sem er söngkona við Metropolitan í Bandaríkjunum, sem og Albinu Schagimuratova sem syngur við Huston Theater í Bandaríkjunum. Einnig hefur Galína verið með Masterclass í fjölmörgum löndum. Ég spyr um uppáhaldsraddir landa hennar.

„Rússar elska bassa og mezzósópran, hinar dekkri raddir, þær höfða til hinnar tregafullu þjóðarsálar okkar,“ segir hún og brosir.

Um leið og ég kveð þessi samrýndu hjón er mér ofarlega í huga hvert lán það er fyrir íslenska söngnemendur að eiga þess kost að fá leiðsögn hjá svo mikilli listakonu sem Galínu Pisarenko er.

Missti foreldra sína ung

Galína Pisarenk fæddist í Leningrad en flutti með foreldrum sínum til Moskvu tveggja ára.

„Þar vorum við stríðsárin. Þau voru erfið, enda mörkuð dauða og hörmungum, eftir stríð var líka erfitt ástand í Moskvu eins og víðar þar sem styrjöldin hafði geisað,“ segir Galína.

„Foreldrar mínir dóu þegar ég var barn að aldri og ég ólst upp hjá frænku minni,“ segir Galína.

Hún kveðst hafa farið að læra söng 16 ára gömul. Kennari hennar var Nina Dorliak, fræg söngkona.

Galína hefur ekki aðeins sýnt sig sem afburða listamann á óperusviðinu, hún var einnig rómuð fyrir ljóða- og óratoríusöng bæði í sínu heimalandi og einnig víða um heim þar sem hún hefur sungið, m.a. á Ítalíu, í Bandaríkjunum, Þýskalandi og í fjölda annarra landa.