Til sölu Hrútadagurinn verður haldinn í fjórða sinn nk. laugardag í Faxahöllinni á Raufarhöfn. Þar geta áhugasamir skoðað úrval hrúta.
Til sölu Hrútadagurinn verður haldinn í fjórða sinn nk. laugardag í Faxahöllinni á Raufarhöfn. Þar geta áhugasamir skoðað úrval hrúta. — Morgunblaðið/Kristbjörg Sigurðardóttir
Eftir Kristbjörgu Sigurðardóttur Raufarhöfn | Hrútadagurinn verður haldinn 4. október nk. í Faxahöllinni á Raufarhöfn í fjórða sinn. Dagskráin hefst kl.

Eftir Kristbjörgu Sigurðardóttur

Raufarhöfn | Hrútadagurinn verður haldinn 4. október nk. í Faxahöllinni á Raufarhöfn í fjórða sinn. Dagskráin hefst kl. 14 með sölu á lambhrútum og geta bændur og aðrir áhugasamir um hrúta hvaðanæva af landinu skoðað úrvalið af norðurþingeyskum vöðvabúntum. Þegar kaupendur hafa valið sér lambhrút, einn eða fleiri, eru hrútarnir teknir úr sölu, skráðir hjá ritara og teljast þá seldir.

Fyrirfram verða valdir úr nokkrir hrútar sem stigahæstir eru eða þykja skara fram úr öðrum hrútum að einhverju leyti og verða þessir gripir seldir hæstbjóðanda á uppboði sem fram fer í lok söludagsins. Búist er við að um 15 bændur mæti með u.þ.b. 250 hrúta.

Sauðkindin í aðalhlutverki

Ýmislegt fleira verður um að vera á Raufarhöfn þennan dag. Í Faxahöllinni verður handverksfólk í héraðinu með sölusýningu á handverki, kaffiveitingar verða á sínum stað, auk þess sem haldin verður þar, í annað sinn, Íslandsmeistarakeppni í kjötsúpugerð en rétt til þátttöku hafa félagasamtök, veitingahúsaaðilar eða aðrir tengdir matvælaframleiðslu. Um kvöldið verður hagyrðingakvöld í félagsheimilinu Hnitbjörgum þar sem valdir heimamenn og útvaldir gestir munu kveðast á.

Lengi hefur verið leyfð sala á fé úr Þistilfirði og Langanesi en fyrir nokkrum árum var lífsölusvæðið stækkað svo nú nær það einnig yfir Melrakkasléttu, Núpasveit og Öxarfjörð. Kaupendum, ef til vill langt að komnum, var því nokkur vandi á höndum ætluðu þeir að fara um allt svæðið með viðkomu á þeim fjölmörgu bæjum sem hafa lífsöluleyfi. Því var það að framtakssamir bændur í héraðinu ákváðu að safna saman á einn stað þeim hrútum sem þóttu söluhæfir. Þetta var gert m.a. til að auðvelda kaupendum valið með því að hafa hrútana alla á einum stað og geta þannig borið þá saman. Faxahöllin á Raufarhöfn, sem er reiðhöll Raufarhafnarbúa, þótti henta vel fyrir samkomu sem þessa, miðsvæðis á sölusvæðinu og góð aðstaða fyrir menn og skepnur. Núna, þremur árum seinna, er Hrútadagurinn að festa sig í sessi sem árlegur viðburður í héraði með ýmsum skemmtilegum uppákomum, þar sem maður er manns gaman þótt sauðkindin sé í aðalhlutverki sem oftar.