[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÖKUMAÐUR fjórhjóls missti stjórn á hjóli sínu á vegslóða skammt frá fjallinu Sköflungi í Folaldadölum á Hengilssvæðinu með þeim afleiðingum að það endaði ofan í gili. Tvær konur voru á hjólinu.

ÖKUMAÐUR fjórhjóls missti stjórn á hjóli sínu á vegslóða skammt frá fjallinu Sköflungi í Folaldadölum á Hengilssvæðinu með þeim afleiðingum að það endaði ofan í gili. Tvær konur voru á hjólinu. Annarri þeirra tókst að kasta sér af hjólinu við fallið og slapp nær ómeidd. Hin konan féll þrjá metra niður á nærliggjandi syllu, en mikil mildi þykir að hún féll ekki áfram niður í 10-15 metra gil þar fyrir neðan. Hún slapp með minniháttar meiðsl, en var flutt á slysadeild Landspítalans til eftirlits og aðhlynningar.

Tilkynning um slysið barst Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu laust upp úr hádeginu í gær og fór það á vettvang á fjallabíl og sexhjóli. Björgunarsveitin Ársæll var við æfingar á svæðinu og aðstoðaði hún slökkviliðið. „Hún er mjög heppin að hjólið fór ekki ofan á hana við fallið. Hún er heppin að vera á lífi,“ segir Borgþór Hjörvarsson hjá björgunarsveitinni Ársæli.

Segir hann svæðið mjög erfitt yfirferðar þó ekið sé á vegslóðanum sem þar er. silja@mbl.is