Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is BÓKASAFN Böðvars Kvaran hefur verið auglýst til sölu. Að sögn Einars B. Kvaran, sonar Böðvars, gera afkomendur Böðvars sér vonir um að hægt verði að selja safnið sem eina heild.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

BÓKASAFN Böðvars Kvaran hefur verið auglýst til sölu. Að sögn Einars B. Kvaran, sonar Böðvars, gera afkomendur Böðvars sér vonir um að hægt verði að selja safnið sem eina heild. Spurður af hverju verið sé að selja safnið segir Einar þetta skynsamlegasta kostinn í stöðunni. „Enginn einn afkomandi hefur tök á því að taka allt safnið að sér og þá fannst okkur hreinlegast að selja þetta,“ segir Einar.

Aðspurður segir Einar safnið innihalda mörg þúsund titla, en nokkur vinna hafi farið í það að undanförnu að bera saman safnkostinn og skrána sem til var um safnið. Að sögn Einars var það ekki síst gert vegna þjófnaðarmálsins sem upp kom síðla sumars 2007, en þá kærðu afkomendur Böðvars til lögreglu þjófnað á hundruðum bóka og korta úr safninu. Einar segir málið enn til rannsóknar hjá lögreglu eftir því sem hann best viti.

Segir virði safnsins hlaupa á tugum milljóna króna

Aðspurður segir Einar að vissulega hafi meðal þeirra bóka sem stolið var reynst miklar gersemar, en tekur fram að ennþá séu fjölmargir gimsteinar eftir í safninu, sem fyllir 200 pappakassa eftir að því var pakkað niður.

Spurður hvers virði bókasafnið sé segir Einar ljóst að seljendur vilji fá tilboð í safnið, en tekur fram að ljóst megi vera að virði safnsins hlaupi á tugum milljóna króna. Að sögn Einars hefur hann þegar fengið nokkur viðbrögð við auglýsingu sinni sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Spurður hvort nú sé góður tími til að selja í ljósi yfirvofandi efnahagsþrenginga svarar Einar: „Okkur liggur ekkert á. Við bíðum bara þar til við fáum ásættanlegt tilboð.“

Í hnotskurn
» Bókasafn Böðvars Kvaran fyllir um tvö hundruð pappakassa.
» Áætlað er að í bókasafni Böðvars séu tugir þúsunda titla og korta.
» Síðla sumars 2007 var þjófnaður á hundruðum bóka og korta úr safni Böðvars Kvaran kærður til lögreglu.